Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

300 ungmenni hafa skráð sig í borgaralega fermingu Siðmenntar 2014

Tvöföldun aðsóknar á 5 árum og þreföldun á 10 árum

Fjöldi skráninga í borgaralega fermingu Siðmenntar hefur aldrei verið meiri! Nú eru 300 ungmenni skráð en 209 fermdust borgaralega árið 2013 og 214 árið áður. Það er  44% aukning á milli ára. Nú kjósa 7.3% ungmenna á fermingaraldri námskeið og athöfn félagsins.

 Á þeim 25 árum sem Siðmennt hefur boðið borgaralega fermingu sem valkost ungmenna, hafa vinsældir hennar aukist stöðugt. Það var árið 1989 sem fyrsta athöfnin fór fram á vegum Siðmenntar og voru 16 ungmenni í fyrsta árganginum. Fjölgunin hefur verið stöðug síðan þá.  Á árunum 1997 til 2002 var fjöldinn í kringum 60 en tók stökk upp í 90 til 120 á árunum 2003 til 2009.  Frá árinu 2010 tóku við stærri stökk milli ára þar til fjöldinn stóð í um 212 síðustu tvö ár.  Þetta ár sker sig svo alveg úr. Það lætur nærri að kalla aukninguna í ár ofurstökk því að fjölgunin (91 barn) er á við allan hópinn árið 2005 (93 börn) og hefur fjöldinn meira en þrefaldast frá þeim tíma (sjá stöplarit í fullri stærð).

Vegna aukins fjölda á árinu 2014 verða samtals 9 athafnir á 6 stöðum á landinu: þrjár í Reykjavík, tvær í Kópavogi og ein á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Suðurlandi og á Höfn í Hornafirði. Ellefu námskeiðshópar eru í gangi (í Reykjavík, á Akureyri og á Selfossi).

 

Fermingarbörn á vegum Siðmenntar sækja vandað námskeið þar sem þau undirbúa það að verða fullorðin með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Á undirbúningsnámskeiðinu er það talinn kostur hversu ólíkir þátttakendur eru þegar kemur að lífsafstöðu þeirra og skoðunum, enda hefur það margoft sannast á námskeiðunum að þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og mismunandi skoðanir hafa þátttakendur vel getað rökrætt og átt samskipti á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Á námskeiðinu eru umfjöllunarefnin fjölbreytt, t.d. samskipti unglinga og fullorðinna, fjölskyldan, siðfræði, gagnrýnin hugsun, mismunandi lífsviðhorf, frelsi, ábyrgð, hamingja, gleði, sorg, samskipti, mannréttindi og réttindi unglinga, jafnrétti, siðfræði, efahyggja og trúarheimspeki, barátta fyrir friði, samskipti kynjanna, umhverfismál, fordómar, tilfinningar, sorgarviðbrögð og fleira. Foreldrum / forráðamönnum fermingarbarnanna er síðan boðið að koma í eina kennslustund undir lok námskeiðs. Umsjónarmaður námskeiðanna er Jóhann Björnsson, kennari og heimspekingur.

Nánari upplýsingar gefur Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar:
s: 896 8101
tölvupóstfang bjarni@sidmennt.is

Fréttatilkynning_300 skráðir í borgaralega fermingu 2014 (PDF)

Til baka í yfirlit