Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ekki gera eitthvað af því að allir aðrir gera það

Hjörleifur Hjartarson, tónlistarmaður

Kæru fermingarbörn.

Þegar ég settist niður og velti fyrir mér hvað ég gæti sagt við ykkur á þessum merkisdegi, verð ég að viðurkenna að mér féllust hálfpartinn hendur. Hvað á ég að segja sem ekki er búið að þræl-tygga ofan í ykkur þúsund sinnum áður? Ég veit að þið hafið fengið frábæra leiðsögn  við fermingarundirbúninginn þar sem fjallað hefur verið um alla mögulega þætti mannlegs lífs, ábyrgð, samskipti, mannréttindi, gagnrýni – hvað ber að varast og hvað er eftirsóknarvert.

Og þetta sama hefur verið til umfjöllunar í skólanum, í útvarpinu og sjónvarpinu, á netinu og heima hjá ykkur  frá því þið voruð smábörn. Og ég get litlu við það bætt. Það er nefnilega  svo merkilegt og mér liggur við að segja pirrandi  að það er í fyrsta lagi ekki til neinn einn stór sannleikur. Menn fatta ekki allt í einu tilgang lífsins  það gerist bara í bíómyndum.

Nei það er enginn einn stór sannleikur heldur þúsund smáir – Nei , ég ætti heldur að segja þúsund stórir sem sýnast vera svo ofursmáir og ómerkilegir en segja svo mikið og eru alltaf í gildi. Hversu oft höfum við ekki heyrt frasa eins og:

Vertu þú sjálfur – eða

Lifðu í núinueða

Lærðu að fyrirgefa – eða

Ástin er sterkasta afliðeða

Sælla er að gefa en þiggjaeða

Til að breyta heiminum þarf maður að byrja á sjálfum sér.

Alla þessa frasa og hundrað aðra hafið þið örugglega heyrt sirka 1000 sinnum og eruð líklega orðin nokkuð ónæm fyrir þeim.  Þetta eru bara klisjur eins og hverjir aðrir málshættir í páskaeggjum og maður er jú yfirleitt spenntari fyrir egginu sjálfu en málshættinum. Samt bera þessi vísdómskorn í sér svo stóran sannleika og mikilvæg skilaboð að ef maður nær að lifa samkvæmt þeim er maður á býsna góðum stað.

Því eins og lífið er nú flókið þá er það svo skrýtið að lykillinn að góðu lífi er oft sáraeinfaldur –eiginlega bara „kommon sens“ – almenn skynsemi.  Það getur hins vegar verið verulega flókið að gera það sem maður þarf að gera og jafnvelt auðveldara að gera það ekki. Oft býr fólk við þannig aðstæður að lífshamingjan er ekki alveg gefin. Og jafnvel þó aðstæðurnar séu ágætar getur verið ýmislegt í okkur sjálfum sem gerir okkur erfitt fyrir að finna tilgang og lífshamingju.

Það er  engu að síður stærsta verkefni lífsins – að lifa góðu lífi.

Þið eruð hvert og eitt frábærar manneskjur og eigið skilið gott líf. Og þegar ég segi gott líf þá á ég ekki við líf þar sem þið hafið það svo rosalega gott heldur líf þar sem þið látið gott af ykkur leiða. Því gott líf er smitandi og sá sem lifir góðu lífi bætir um leið líf allra annarra sem hann umgengst. …. Munum bara  að við getum ekki alltaf verið rosalega hamingjusöm. Lífshamingja  er ekki einhver augnabiks alsæla heldur varanleg, jákvæð afstaða til lífsins . Hún felst fyrst og fremst í því að vera í stórum dráttum sátt við okkur sjálf og hafa trú á okkur sjálfum. Það er kallað sjálfstraust.

Og hvernig verðum við sátt við okkur sjálf? Jú það er til fullt af leiðum, t.d. með því að rækta sambandið við fjölskyldu og vini, eiga áhugamál og sinn a þeim, dvelja í núinu, hreyfa sig – það er mjög mikilvægt – og gefa af sér. Rannsóknir á hamingjunni sýna að hamingjusamasta fólkið er alls ekki það fólk sem á mesta peninga eða fólkið sem er duglegast að skemmta sér heldur þeir sem eru duglegir að gefa af sér til samfélagsins og vinna að því að  gera umhverfi sitt og þar með heiminn allan að betri stað.

Í gegnum mannkynssöguna hafa komið fram stóri hugsuðir, með mikilvægan boðskap. menn eins og Jesú og Búdda og Múhamed og Lao Tse – svo ég nefni nú nokkra fræga  – með svo skarpa sýn og hæfileika til að ná til fólks að risið hafa upp fjöldahreyfingar og jafnvel heil trúarbrögð sem oftar en ekki fara að snúast um persónuna sjálfa  og alls kyns dýrkun á henni en ekki boðskapinn sem þeir fluttu.

Kjarninn í boðskap þessara manna er hins vegar að langmestu leyti sá sami. Boðskapur um kærleika, miskunn, heiðarleika, nægjusemi og að gleyma ekki að þakka fyrir lífið og það góða sem það gefur.

Og hverjum eigum við að þakka. Sumir þakka guði eða guðum eða bara lífinu sjálfu. Semsagt, allir sem eitthvað hugsa á annað borð kenna og segja það sama. Hvort sem þeir eru 1000 ára gamlir kennimeistarar eða bara mamma heima í eldhúsi.

Takk fyrir mig – Það er einn af þessum gömlu frösum sem við hugsum aldrei út í en hafa svo mikið innihald –takk fyrir mig Vertu þú sjálfur – syngur Helgi Björns. Og það er rosaleg klisja. En líka alveg rosalega mikilvægt.  Ekki síst þegar maður er unglingur og dreymir um að vera Justin Bieber.

Hluti af því að vera unglingur er nefnilega að vita ekki alveg hver maður er eða hvað maður vill og að bera sig stöðugt saman við aðra af ótta við að vera öðruvísi.  En það eru allir öðruvísi. Það er það frábæra og verkefni unglingsáranna er að læra að meta það sem gerir mann öðruvísi. Það heitir að læra að þekkja sjálfan sig  og standa með sjálfum sér. Kannski er ég ekkert líkur Justin Bieber. Kannski liggja hæfileikar mínir á öðrum sviðum en hjá honum. Kannski er það ekki einu sinni stöðug hamingja að vera Justin Bieber.

Þið hafið öll hæfileika á einhverju sviði og örugglega á mörgum sviðum og eigið örugglega mörg áhugamál. Það gefur fyrirheit um það hver þið raunverulega eruð og hvaða leið þið viljið fara í lífinu. Suma hæfileika er hægt að mæla, hæfileikar í íþróttum og alls kyns námsgreinum t.d. og skólinn er dálitið upptekinn við að mæla það sem hægt er að mæla.

En það eru líka aðrir hæfileikar sem alls ekki eru mælanlegir en skipta kannski enn meira máli: Hæfileikar til samskipta,  hæfileikar til að sjá eitthvað sem aðrir taka ekki eftir, hæfileiki til að gleðja eða hjálpa öðrum. Öll hafið þið fjölmarga hæfileika og ef þið ræktið þá er líklegt  að þið munuð lifa góðu og innihaldsríku lífi.

Munið að þið þurfið ekki að vera best í neinu heldur gera það besta úr því sem þið hafið. Munið líka að það er ekki bara í lagi að gera mistök heldur bráðnauðsynlegt. Penisilínið var fundið upp fyrir mistök. Líka kaffi – af því að einhver brenndi kaffibaunir. Lítil börn læra að ganga og tala af því að þeim finnst allt í lagi detta á rassinn og bulla. Það að detta og rassinn og að bulla eru ekki mistök heldur einmitt leiðin að því að læra að ganga og tala.

Og það minnir mig á eitt í viðbót . Ekki gleyma því að vera börn – aldrei. Ekki heldur þegar þið eruð orðin fullorðin eða gömul. Mörgum finnst listamenn vera skrýtnir og jafnvel rugludallar og eflaust eru einhverjir það.  En listamenn eru oft á tíðum fólk sem hefur varðveitt barnið í sjálfum sér. Það er eitt það mikilvægasta  við listsköpun og raunar alla sköpun og frumlega hugsun að þora að vera barn, þora að gera mistök, ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut heldur skoða  allt með opnum huga eins og lítið barn.

Þið sem eruð unglingar eruð mjög merkilegt fólk. Þið eruð hætt að vera börn og  gangið núna inn í heim hinna fullorðnu. Og fermingin er athöfn til að fagna þessum stórkostlega merkilegu tímamótum. Bernskan er dálítið eins og upphafsatriði í bíómynd þar sem aðalpersónan er kynnt til leiks og aðstæður hennar og nú getur plottið sjálft farið að byrja.

Eitt af því sem gerist fyrir utan það að þið breytist í ófreskjur er að þið hafið öðlast þennan ótrúlega magnaða hæfileika til að horfa á heiminn frá öðru sjónarhorni en ykkar sjálfra. Dýr geta það ekki – ekki heldur lítil börn en þetta getið þið. Litlir krakkar leika sér við næsta litla krakka og pæla ekkert í hvort hann er leiðinlegur eða skemmtilegur. Litlir krakkar lifa í núinu. Jafnvel þar sem styrjaldir geysa eru lítil börn að leika sér. Það er eitt af dásemdum lífsins. Lítil börn kunna hreinlega ekki að hugsa út fyrir sig sjálf og pæla t.d. ekkert  í því hvernig aðrir horfa á þau.

Ef allt er með felldu og börn búa við góðar aðstæður þá lifa þau áhyggjulausu lífi – Svo gerist eitthvað hræðilegt – Einn daginn verða þau að unglingum  breytast þau í varúlfa. Eins og ykkur. Þau verða loðin, árásargjörn og byrja að spangóla á fullu tungli. En það er ekki bara líkaminn sem breytist heldur skynjunin og hugurinn. Þið kunnið núna að hugsa abstrakt. Þetta er eins konar súper- hæfileiki.

Heilinn á ykkur og hugsunin sem þar fer fram hefur breyst. Þið sjáið allt í einu heiminn og samfélagið, skólann, fjölskylduna og vinina með gagnrýnum augum. Sjáið í gegnum ýmislegt sem þið tókuð áður sem gott og gilt. Pabba ykkar og mömmu t.d. sem áður voru óbrigðul og vissu allt er eru núna glötuð eins og svo margt annað.

En það sem verra er – þið gerið ykkur líka grein fyrir því að aðrir unglingar  og fullorðnir eru gæddir þessum sama súper-hæfileika – og  þið verðið kannski heltekin af því að aðrir horfi á ykkur gagnrýnum augum – og þið farið kannski að haga ykkur samkvæmt því hvernig þið haldið að aðrir sjái ykkur og hvernig þið viljið að aðrir sjái ykkur og gleymið kannski  í öllu þessu ölduróti hugans að hugsa um hvað þið sjálf raunverulega viljið.

Því sem gerist með hugann þegar maður breytist í ungling má líkja við það að við höfum alla bernskuna setið úti í okkar notalega barnahorni með lítið kertaljós en skyndilega eru öll ljósin kveikt og lýsa nú með sinni köldu birtu út  í alla króka og kima í húsinu og það kemur í ljós að ýmislegt er ómálað og ekki á réttum stað, sumt er beinlínis ljótt og ósmekklegt og allt öðru vísi en okkur sýndist í blessuðu kertaljósinu þegar þið voruð börn.

Þið sjáið allt í öðru ljósi og það ljós verður ekki slökkt aftur. En nú er ég farinn að tala abstrakt líkingamál – og það er einmitt munurinn á ykkur og börnum að núna skiljið þið abstrakt líkingamál sem þið gerðuð ekki þegar þið voruð börn. Já það er býsna flókið að verða unglingur og svo fullorðinn með þessa ofurskynjun sem heitir gagnrýnin hugsun. En hún er líka mjög mikilvæg. Að þið notið gagnrýna hugsun til að greina það sem skiptir máli fyrir ykkur sjálf og allan heiminn frá öllu bullinu sem er út um allt.

Ekki gera eitthvað af því að allir aðrir gera það. Ekki gera eitthvað ef einhver rödd innra með ykkur segir að það sé rangt. Ekki trúa öllu sem sagt er í fréttunum. Takið afstöðu út frá eigin forsendum. Munið að það eru margar hliðar á öllum málum. Ekki rugla saman fólki í bíómyndum og raunverulega fólki. Raunverulegt fólk fer á klósettið oft á dag. Venjulegt fólk þolir ekki tuttugu kjaftshögg eða að kasta sér í gegnum rúðu af annarri hæð og halda áfram að slást á gangstéttinni fyrir neðan.

Venjulegt fólk er ófullkomið, gerir alls konar mistök. Og það eru allir venjulegar manneskjur. Hvert einasta andlit sem þið sjáið úti á götu eða í sjónvarpinu er manneskja eins og þið – með fortíð og sögu eins og þið – með vonir og vonbrigði drauma og tilfinningar eins og þið.

Ykkar allra hlutverk er að lifa góðu lífi fyrir ykkur sjálf og fólkið ykkar og að gera heiminn að betri stað fyrir allt mannkyn.

Ræða flutt við fermingarathöfn Siðmenntar í Háskólanum á Akureyri 3. júní 2017

Til baka í yfirlit