Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vinur aftansólar sértu. Sonur morgunroðans vertu

„Vinur aftansólar sértu. Sonur morgunroðans vertu.“

Þannig orti siðræni húmanistinn, vestur-íslenska skáldið Stephan G. Stephanson, fyrir rúmri öld. Og þannig kjósa afkomendur Sigurbjarnar Einarssonar biskups að byrja minningargrein sína um hann í Morgunblaðinu 6. september og bæta við: „Þennan texta raulaði afi (þ.e. Sigurbjörn biskup) svo oft fyrir lítil börn“.

Þorsteinn Pálsson skrifaði í leiðara Fréttablaðsins sama dag: „Í honum (Sigurbirni Einarssyni) var einhver merkileg blanda þeirrar hógværðrar og lágra bursta sem einkenna skaftfellska sveitamenningu og mustera heimsmenningarinnar“. Lokaorð Þorsteins eru: „Kirkjan á hins vegar ekki sögu hans ein og sér. Á sinn hátt var Sigurbjörn Einarsson svo ríkur þáttur í sjálfsmynd Íslendinga að í sögunni verður hann maður fólksins í landinu“.

Ég tek undir nær allt það sem Þorsteinn skrifar þótt ég telji að hann taki of sterkt til orða í síðusta hluta ívitnaðs texta. En við siðrænir húnanistar eigum að mati mínu örlítinn part af jákvæðri minningu um Sigurbjörn biskup en síðast en ekki síst þurfum við að velta fyrir okkur áhrifum hans almennt því að þau voru ótvíræð. Við höfum eigum ekki minni hlut í minningu hans en hann átti í minningu Stephans G. Stephansons!

Að auki á ég sjálfur mjög hlýjar minningar um Sigurbjörn biskup. Meðal fjölmargra góðvina hans var faðir minn, Gunnar Jóhannesson (1905-1990). Pabbi studdi Sigurbjörn í hverju sem var, í baráttu hans gegn ruglinglegri nýguðfræði, þröngsýnum rétttrúnaði og ekki síst í þjóðmálum og hlaut að launum óskoraða vináttu hans. Þegar ég hugleiði samband föður míns og margra fleiri við Sigurbjörn má e.t.v. álykta sem svo að biskupinn var fyrst og fremst hálærður og virtur maður sem vildi öllum vel og gat auðveldlega sýnt það og þessi einfalda staðreynd gerði hann stöðugt vinsælli í áranna rás.

Sigurbjörn Einarsson (1911-2008) var tvímælalaust mesti áhrifamaður íslenskrar kristni frá u.þ.b. 1940 til 2000 þegar hann beitti sér. En hann beitti sér ekki alltaf. Hann vildi ekki minnka gildi orða sinna með of miklum ræðum. Hann var lærður heimspekingur og hafði gaman af rökræðum. Þekking hans var með óliíkindum og hann hélt áfram að bæta við þekkingu sína fram í andlátið. Hann las ekki síður rit andstæðinga sinna en samherja. Mig grunar að hann hafi verið fyrstur Íslendinga til að kynna sér verk Richard Dawkins!

Sigurbjörn var hvort tveggja í senn rökhyggjumaður, hann færði rök fyrir meiningum sínum, og talsmaður lútersks rétttrúnaðar. Hvernig gat það farið saman? Hann skildi að almenn vísindi og trú og skrifaði um það grein 1949. Afstaða hans var sú AÐ TRÚA ÞVÍ að bak við öll undraverk alheimsins, sem vísindin ein útskýrðu, væri guðlegur máttur sem hann taldi að væri lýst í kristnum rétttrúnaði. Sá kom skýrast fram í fórnardauða Krists og upprisu hans. En andstætt mörgum öðrum lagði hann ekki sérstaka áherslu á þjáningu Krists á krossinum heldur á fögnuð upprisunnar sem var meginmál hans. Þannig sameinaði hann gamla skaftfellska sveitamenningu við musteri heimsmenningarinnar vegna þess að samhliða hafði hann góða þekkingu á öðrum viðhorfum..

Heyrt hef ég sögu sem vel getur verið rétt. Lengi var mikil virkni í Félagi áhugamanna um heimspeki. Þótt félagið tengdist eitthvað heimspekikennurum við H. Í var það opið öllu áhugafólki um heimspeki. Sigurbjörn sótti gjarnan fundi félagsins. Á einum fundi deildi Þorsteinn Gylfason prófessor harkalega á kristna trú. Sigurbjörn var til andsvara og hóf mál sitt með tilvitnun á heilagan Ágústínus: Ég trúi af því að það er fáránlegt (trú sannast ekki með rökum).

Þegar Sigurbjörn fór að koma fram með sjónarmið sín var svonefnd nýguðfræði ríkjandi í íslensku þjóðkirkjunni Andstæðingar nefna hana gjarnan aldamótaguðfræðina því að hún kom fram um aldamótin 1900 . Fylgismenn nýju guðfræðinnar afneituðu eða drógu í efa meyfæðinguna og þannig þrenninguna, erfðasyndina og fórnardauðann. Þessi viðhorf voru merkilega fljót að breiðast út hér á landi, bæði vegna vinsælda kristins rationalisma víða hér á landi á 19. öld og vegna þess að kennarar við guðfræðideild gerðust fylgismenn hennar. Það gerði nýguðfræðinni auðveldara að ná fylgi vegna þess hve gamaldags fylgismenn lútersks rétttrúnaðar voru í viðhorfum sínum, voru oft andsnúnir vísindum og voru hægri menn í stjórnmálum.

En guðleysi fór einnig að ryðja sér til rúms á fyrsta áratug 20. aldar. Nýguðfræðinni var ekki síður beint gegn því. Það var gert með andatrú, „vísindalegum“ spíritisma. Hann átti að sýna fram á það að víst væri til líf eftir dauðann! Smám saman varð spíritisminn ríkjandi þáttur í nýguðfræðinni. Prestar sátu miðilsfundi og framkölluðu framliðna anda.

Þegar viðhorf jafnaðarmannisns og mannvinarins Sigurbjarnar Einarssonar um aðskilnað trúar og vísinda samfara mildari útgáfu af rétttrúnaðinum fóru að hafa áhrif, urðu þau fljótt mikil og skjót. En snemma hætti Sigurbjörn að vera prestur að atvinnu og gerist kennari í guðfræði. Með persónulegum karisma og yfirburðaþekkingu fékk hann brátt stúdenta með sér

og sá síðan til þess að nýir kennarar við guðfræðideild væru á svipuðu róli og hann í kristinni hugmyndafræði. Siðan um 1955 hafa nær engir guðfræðingar útskrifast sem ekki hafa svipuð viðhorf og Sigurbjörn hafði í málum guðfræðinnar.

Sigurbjörn var kjörinn biskup 1959 og gegndi því starfi til 1981. Hann umbar andartrúarprestana nokkurn veginn og enginn hvarf úr starfi vegna skoðana sinna. Þeir hættu hins vegar störfum hver af öðrum vegna aldurs og einstaka aðlöguðu sig skoðunum biskups. Hann var sannarlega enginn harðstjóri í skoðunum og hlaut fyrir það í upphafi nokkrar ádeilur íhaldsamra guðfræðinga, einkum úr röðum KFUM. Þvert á móti líkaði honum vel að rökræða við lærða og vel lesna nýguðfræðinga og starfa með þeim. Þekkt var vinátta hans og séra Jakobs Jónssonar, sem verið hafði únitaraprestur í Kanada. Það auðveldaði samkomulagið að báðir voru þeir góðir húmoristar enda skrifaði Jakob doktorsritgerð um húmor í Nýja Testamentinu.

En þótt nýir prestar tryðu á lúterskan rétttrúnað, var talsverður meirihluti meðlima þjóðkirkjunnar hins vegar áfram undir sterkustu áhrifum spírítísku nýguðfræðinnar eins og glöggt kom fram í athugun þeirra Péturs Péturssonar og Björns Björnssonar 1987. Því að fáir, ef nokkrir, hinna nýju presta (eða biskupa) með „rétta hugmyndafræði“ réðu yfir mannúð, þekkingu og persónutöfrum meistarans Sigurbjarnar Einarssonar. Og þá er komið að þverstæðunni í áhrifum hans. Í biskupstíð hans gat stefna vaxandi lútersks rétttrúnaðar gengið að vissu marki en eftir það ekki lengur. Þvert á móti má gera ráð fyrir því að æ fleiri prestar feti í fótspor Hjartar Magna í Fríkirkjunni í Reykjavík og storki biskupsvaldinu. Það þarf mikinn persónuleika til að halda fram lúterskum réttrúnaði á Íslandi í dag. Það er erfitt að fara fótspor Sigurbjarnar Einarssonar.

Þótt ég sé guðleysingi sakna ég þessa manns sem var umburðalyndur mannvinut umfram allt,

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit