Fara á efnissvæði

Athafnastjórar

Athafnaþjónusta Siðmenntar hófst formlega 29. maí 2008. Allir athafnarstjórar félagsins hafa hlotið menntun og þjálfun og hafa staðist gæðakröfur félagsins áður en þeir geta hafið athafnarstjórnun á vegum þess. Siðmennt fékk lögformlega skráningu sem lífsskoðunarfélag í byrjun maí 2013 og fengu fyrstu athafnarstjórar félagins vígsluréttindi í kjölfarið. Vígsluréttindi til giftinga eru í umboði formanns Siðmenntar, Ingu Auðbjargar Straumland (2019-), til athafnarstjóranna samkvæmt leyfisbréfi Innanríkisráðuneytisins til þeirra.

  • Katrín Oddsdóttir
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Katrín Oddsdóttir er fædd árið 1977 og er lífsglaður lögfræðingur með óbilandi trú á fegurð, húmor og réttlæti. Katrín Oddsdóttir er mannréttindalögfræðingur, aðgerðasinni og spunaleikari. Katrín er með meistaragráðu í mannréttindum frá University of London, BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í fjölmiðlafræði frá Dublin City University. Hún starfar sem lögmaður á Rétti lögmannsstofu og vinnur um þessar mundir að umhverfismálum og mannréttindum. Hún sinnir um þessar mundir auk þess ýmsum ráðgjafarstörfum m.a. fyrir Öryrkjabandalagið enda mikil áhugamanneskja um réttindabaráttu fatlaðs fólks. Katrín sat í Stjórnlagaráði og hefur barist ötullega fyrir lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún ferðast víða um veröld til að flytja fyrirlestra um íslenska stjórnarskrárferlið.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Tryggvi Gunnarsson
    Gifting, Nafnagjöf
    Markmið Tryggva er alltaf að gera persónulegar og ógleymanlegar athafnir sem innihalda að minnsta kosti einn skellihlátur og eitt tár á hvarmi. Hann giftir og nefnir jafnt í heimahúsum sem á mið-hálendinu, uppi á jökli eða inní jökli, úti á sjó eða við flæðandi hraun. Hann hefur meira að segja gift í Darth Vader búning og í skoskum hálendisklæðnaði, með öllu sem því fylgir.
    Tryggvi er menntaður líffræðingur, mannfræðingur og sviðslistamaður og hefur starfað sem athafnastjóri frá 2015. Hann hefur gift hátt í 200 pör og stefnir á allaveganna 200 í viðbót.
    Tungumál: Íslenska, enska og smá norska/danska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Jóhann Björnsson
    Gifting, Nafnagjöf, Útför

    Jóhann Björnsson er fæddur 1966 og hefur verið athafnastjóri frá 25. mars 2007. Jóhann var jafnframt formaður Siðmenntar frá febrúar 2015 og til júlí 2018. Menntun, störf og annað: BA og MA í heimspeki. Er með kennsluréttindi og hefur stundað kennslu í grunnskóla og í fullorðinsfræðslu undanfarin ár. Jóhann kenndi og var kennslustjóri á undirbúningsnámskeiðum fyrir borgaralega fermingu frá 1997-2020. Jóhann stýrði fyrstu giftingunni á vegum félagins.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Bjarni Snæbjörnsson
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Náttúrubarn og kærleiksbjörn sem sér húmorinn í litbrigðum lífsins. Bjarni er BFA í leiklist og MA í listkennslufræðum frá LHÍ. Hann er einnig BA í ensku frá HÍ. Bjarni vinnur jöfnum höndum á mörgum mismunandi stöðum við að kenna leiklist, leika, syngja og er stundum viðriðinn viðburðastjórnun. Athafnastjóri frá 2015 á höfuðborgarsvæði og nágrenni. Fæddur 1978.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Árni Grétar Jóhannsson
    Gifting, Nafnagjöf

    Fæddur 1983. Athafnarstjóri frá 2016.

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir
    Gifting, Nafnagjöf

    Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir er fædd árið 1987 og er réttsýnn mannvinur, búsett á Patreksfirði. Hún hefur menntað sig á sviði félagsráðgjafar, kynjafræði og jákvæðrar sálfræði og er það ekki aðeins reynsla hennar af hinum ýmsu verkefnum sem nýtist henni við störf athafnarstjóra, heldur hefur hún einnig fallega sýn á lífið og er alltaf með bætt samfélag að leiðarljósi. 

    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Vestfirðir
  • Arnar Snæberg Jónsson
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf, Útför

    Arnar er lífsglaður, skapandi og einlægur bangsi frá Ströndum. Hann lærði tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ og vinnur í dag sem vefstjóri Landsvirkjunar, en auk þess elskar hann að verja tíma með fjölskyldunni, dytta að og smíða, krosssauma og spila pönk á skuggalegum börum borgarinnar. Arnar hefur starfað sem athafnastjóri frá 2018 og elskar að finna réttu blönduna af hlýju, húmor og hátíðleika í athöfnum sem hann stjórnar.

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Reykjavík
  • Guðrún Vala Elísdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Guðrún Vala er fædd árið 1966, býr í Borgarnesi ásamt manni sínum. Hún á fjögur uppkomin börn og sjö barnabörn. Guðrún Vala er menntaður mannfræðingur, kennari og náms- og starfsráðgjafi með mastersgráðu í stjórnun. Hún starfar sem framkvæmdastjóri Símenntunar á Vesturlandi. Áhugamál hennar eru fjölbreytt s.s. fjölmenning, mannréttindi, húmanismi, bókmenntir, útivist og hreyfing. Hún nýtur þess að vera með fjölskyldu en líður best að vera með mörg járn í eldinum. Guðrún Vala gerðist athafnastjóri 2018 og hefur síðan þá sinnt afhafnaþjónustu með kærleik, húmor og hlýju að leiðarljósi. Starfar mest á Vesturlandi og stundum fyrir sunnan.

    Tungumál: Íslenska, enska og norðurlandamál (þó ekki finnska). Jafnvel smá pólska.
    Staðsetning: Vesturland
  • Sigurður Starr Guðjónsson
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Sigurður Starr Guðjónsson er fæddur árið 1993 og er dragdrottning, framleiðandi og skemmtikraftur.

    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Kristrún Ýr Einarsdóttir
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Kristrún Ýr Einarsdóttir er fædd 1981 og hefur verið athafnastjóri síðan 2016. Villihjartað brennur heitt hjá Kristrúnu og henni finnst skemmtilegast að víkka sjóndeildarhringinn, prófa nýja hluti og læra af öðrum. Hún stundar nám í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Pólitíska hjartað sveiflast fram og aftur en berst alltaf fyrir mannréttindum. Hún hefur lengst af starfað sem blómaskreytir og við ýmis svið ferðaþjónustunnar. Kristrún ferðaðist í eitt ár um asíu og eyjaálfu og hélt sig að mestu á ótroðnum slóðum, þar lærði hún að bros er sannarlega besta tungumálið og að mannréttindi eru alls ekki sjálfgefin. Kristrún telur að það sé gríðarlega mikilvægt að fólk njóti trúfrelsis sem og frelsis til að hafna trúarbrögðum. Mikilvægir atburðir í lífi fólks líkt og nafngjöf, ferming, hjónavígsla og útför eiga að geta tekið mið af þeim gildum sem fólk vill tileinka sér óháð hvaða trú eða lífsskoðun fólk aðhyllist, það er því hennar markmið með að starfa hjá Siðmennt að styðja við frelsi og val manneskjunnar um persónulega þjónustu þegar kemur að mikilvægum atburðum í lífi fólks.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Brynja Finnsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Lífsglaður líffræðingur, lærdómsfús og forvitin. Leggur mikið upp úr góðum samskiptum og vandar til allra verka. Brynja er líffræðingur að mennt og kennir raungreinar við Menntaskólann á Akureyri. Athafnarstjóri frá 2016 á Norðurlandi.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Norðurland
  • Gunnar Hersveinn
    Gifting, Nafnagjöf

    Hugsjónir Gunnars Hersveins snúast um friðarmenningu, mannréttindi, borgaravitund, náttúruvernd og hamingju annarra og hefur hann skrifað fjölda greina um efnið og flutt erindi. Hann er heimspekingur, rithöfundur og fyrirlesari. Skrifaði m.a. bókina Gæfuspor – gildin í lífinu þar sem leitast er við að draga fram valdar dygðir, tilfinningar, fagra hugsun og skyn á tímann. Athafnastjóri frá 2015 á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Kolbeinn Tumi Daðason
    Gifting, Nafnagjöf

    Kolbeinn Tumi er rúmlega fertugur byggingaverkfræðingur sem vatt kvæði sínu í kross og hefur starfað sem blaðamaður í rúman áratug. Hann á ættir að rekja til Skotlands, Vesturbæingur í húð og hár en vildi óska þess að hann ætti sterka tengingu við dásamlega staði á landsbyggðinni. Mikill íþróttaáhugamaður þar sem tennis og fótbolti standa upp úr. Spilar á píanó þótt hæfnin hafi ekki landað honum stærri verkefnum en jólaballi hjá WOW air og kvöldstundum á Götubarnum. Draumaathöfnin kallar bæði fram hlátur og gleðitár. Finnst sannur heiður að fá að vera hluti af stórum stundum í lífi fólks. Athafnastjóri frá árinu 2022.

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Mörður Árnason
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Mörður (f. 1953) starfar sjálfstætt á ReykjavíkurAkademíunni við íslensk fræði, bókagerð og ýmiskonar textalestur. Hann er Reykvíkingur, jafnaðarmaður, alþjóðasinni, KR-ingur, áhugamaður um menningu og fræði forn og ný, umhverfisaktívisti, gönguskíðamaður, femínisti, einarður hjólreiðakappi og húmanisti. Hefur starfað við orðabókargerð, blaðamennsku og bókaritstjórn, verið aðstoðarmaður ráðherra og alþingismaður. Bjartsýnismaður af viljastyrk, yfirleitt í góðu skapi, ágætur ræðumaður og rithöfundur og vanur margskonar athöfnum. Kvæntur Lindu Vilhjálmsdóttur ljóðskáldi, á þrjú afabörn, Hlín, Hafþór og Hörpu, og stuðningssoninn Þorgeir Örn. Plús langafastrákinn Leó!

    Tungumál: Íslenska (ný og forn), skandinavíska (bóknorska) og enska, franska í þokkalegu lagi, skilur þýsku og getur lesið.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Brynhildur Björnsdóttir
    Gifting, Ferming, Nafnagjöf

    Brynhildur Björnsdóttir er fædd árið 1970 og er fjölmiðlakona, söngkona, rithöfundur með brennandi áhuga á fólki, sögum og lífi. Hún er með fjórar háskólagráður: í bókmenntafræði, leiklist, söng og menningarfræði sem allar gagnast henni í lífinu. 

    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Zindri Freyr Ragnarsson Caine
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Zindri Freyr Ragnarsson Caine er fæddur árið 1981 og er búsettur í Vestmannaeyjum. 

    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Suðurland
  • Erla Sigurlaug Sigurðardóttir
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Erla Sigurlaug Sigurðardóttir (f. 1976) og er náttúruunnandi og útivistarkona sem yrkir ljóð og prjónar peysur í frítíma sínum. Hún elskar að gifta fólk hvar sem er - heima í kósý, úti í náttúrunni uppi á fjalli, á hjóli, inni í jökli... Erla er með nokkrar háskólagráður í mannfræði, friðarfræðum og stjórnun og ferilskráin hennar er eins og regnboginn, fjölbreytnin og fjörið í alls kyns fólki og aðstæðum gefur henni lífsneistann. Athafnir Erlu eru skemmtilegar og persónulegar, fullar af tilfinningum og gleði og alltaf sniðnar að vilja hjónanna. Hún hefur áhuga á menningu í sinni víðustu mynd og mannréttindi og húmanísk gildi eru henni hugleikin.
    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska, þýska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Sigurður Ólafsson
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Sigurður er menntaður og starfar sem skipstjórnarmaður. Hann hefur verið athafnarstjóri frá 2013. Hann hefur einlægan áhuga á heimspeki, siðfræði og sögu sem og málefnum líðandi stundar. Hann fær mikla gleði, sem athafnarstjóri, út úr því að vinna með fólki og taka þátt í að skapa tímamótastundir í lífi þess.

    Tungumál: Íslenska, enska, franska.
    Staðsetning: Austurland
  • Sævar Freyr Ingason
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Sævar Freyr er fæddur 1962 og lauk námi í athafnarstjórnun haust 2013. Sævar er fjölskyldumaður og áhugamaður um heimspeki.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Norðurland
  • Ragnar Ísleifur Bragason
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Ragnar er glaðvær og húmorískur athafnastjóri sem leggur sig fram við að gera athafnir sem hann stýrir persónulegar, hlýjar og skondnar. Hann er sviðslistamaður og kemur reglulega fram í leiksýningum og úvarpsleikritum. Honum þykir starf sitt sem athafnastjóri mjög svo gefandi og skemmtilegt. Sannkölluð forréttindi að sinna þessu starfi. Í augum Ragnars inniheldur góð athöfn hæfilegt magn af bæði kátínu og meyrleika.

    Tungumál: Íslenska, enska, getur bjargað sér á hollensku.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Ragnhildur Sigurðardóttir
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Ragnhildur Sigurðardóttir (fædd 1972) er með meistarapróf í umhverfisfræðum frá Norwegian University of life Sciences. Þriggja barna móðir, gift sauðfjárbónda og þess vegna býr fjölskyldan á einum fallegasta stað í veröldinni: Álftavatni á Snæfellsnesi. Henni finnst oftast gaman að fólki og almennt að vera til. Er einlæg og leggur sig fram við persónulegar og eftirminnilegar athafnir, helst á Snæfellsnesi, með tengingu við umhverfið. Hefur starfað sem sérfræðingur, kennari, lektor og verið framkvæmdastjóri fyrir samstarf á Snæfellsnesi frá 2014. Virk í félagsmálum. Athafnastjóri frá 2022.

    Tungumál: Íslenska, enska, norska og getur fléttað spænsku inn í athafnir.
    Staðsetning: Vesturland
  • Hilmar Hildar Magnúsarson
    Gifting

    Hilmar hefur mikinn áhuga á fjölbreytileika mannlífsins og hefur menntað sig í alþjóðasamskiptum og arkitektúr. Þá hefur hann lengi barist fyrir málefnum hinsegin fólks, m.a. sem formaður Samtakanna '78. Hilmar spilar á píanó til heimabrúks og syngur annan bassa með Hinsegin kórnum sem hann tók þátt í að stofna árið 2011. Hann hefur mikinn áhuga á menningu og listum og m.a. framleitt eigin útvarpsþætti fyrir Rás 1. Hilmar hefur gaman af ferðalögum og kynnast fólki af ólíkum uppruna. Hann leggur áherslu á að skapa hlýjar og persónulegar, jafnvel fyndnar athafnir ef svo ber undir, enda blunda í honum draumar um uppistand og leiklist. Athafnastjóri frá 2018 á höfuðborgarsvæðinu en hefur gift fólk um allt land. Talar íslensku, ensku og dönsku og að læra spænsku. Fæddur 1976.

    Tungumál: Íslenska, enska og danska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Bjarni Jónsson
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf, Útför

    Bjarni (f. 1959) hefur langa reynslu af athöfnum. Hann er menntaður í prentgreinum með áherslu á umbúðir en sneri sér síðan að þjónustu við fólk og fyrirtæki. Bjó ásamt fjölskyldu í Svíþjóð um tíma. Hann var m.a. framkvæmdastjóri garðyrkjubænda í nokkur ár og var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Siðmenntar árið 2015 eftir að hafa starfað í stjórn félagsins í um 15 ára skeið þ.a. varaformaður um tíma. Hann hefur unnið með fólki í áratugi sem nýtist við undirbúning athafna og í samtölum við fólk sem leitar til Siðmenntar með athafnir. Umhverfismál eru honum hugleikin en einnig á félagslegt jafnrétti hug hans sem og önnur samfélagsmál og mannréttindi. Hann er einn af stofnendum Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð. Hann hefur langa reynslu af norrænu og alþjóðlegu starfi á síðustu áratugum. Athafnarstjóri frá árinu 2007 og var í fyrsta hópi Siðmenntar sem fékk athafnarstjóraþjálfun.

    Tungumál: Íslenska, sænska (hefur annast athafnir fyrir Dani og Norðmenn). Enska ef á þarf að halda.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Helga Einarsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf, Útför

    Helgu finnst ómetanlegt að fá að taka þátt í mikilvægum tímamótum í lífi fólks. Hún leggur áherslu á hátíðlegar en jafnframt einlægar athafnir þar sem gleðin er í fyrirrúmi. Helga er fædd árið 1980 og er þjóðfræðingur og jógakennari. Hún er einnig með kennsluréttindi og hefur meðal annars sinnt kennslu á háskólastigi, starfað sem safnkennari og unnið við prófarkalestur og ritstörf. Undanfarin ár hefur hún verið með annan fótinn á Írlandi þar sem hún hefur stýrt ýmsum menningartengdum verkefnum, kennt jóga og starfað sem aukaleikkona í sjónvarpsþáttum.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Hákon Guðröðarson
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Hákon Guðröðarson, kallaður Hákon Hildibrand, er fæddur 1987 og er litríkur lífskúnstner sem geymir bónda í hjarta sér. Hákon er fæddur og uppalin Austfirðingur sem hélt út í heiminn og skilaði sér svo aftur í sveitina. Menntaður í hótel- og veitingarstjórnun frá Sviss, rekur Hildibrand Hótel og ýmiskonar tengda ferðaþjónustu í Neskaupstað ásamt því að sinna garðrækt og búrekstri. Hákon brennur fyrir menningu og nýsköpun á landsbyggðinni. Þegar hann er ekki að rækta garðinn sinn þá ræktar hann sína innri konu og er duglegur að koma fram í dragi. Hákon hefur verið athafnastjóri frá 2018 á Austurlandi.

    Tungumál: Íslenska, enska, danska, grunnfærni í þýsku.
    Staðsetning: Austurland
  • Steinar Harðarson
    Ferming, Nafnagjöf, Gifting, Útför

    Steinar Harðarson er fæddur 1944, hefur verið athafnarstjóri frá því að Siðmennt hóf að bjóða þá þjónustu árið 2007 og hefur á þeim tíma stjórnað fjölmörgum athöfnum á vegum félagsins víða um land. Hann var í hópi fyrstu athafnastjóra félagsins sem fengu athafnaþjálfun og löggildingu þegar félagið fékk stöðu lífsskoðunarfélags. Steinar hefur verið stjórnarmaður í Siðmennt og svo gjaldkeri frá 2013-2017. Hann var í kennslunefnd athafnaþjónustu Siðmenntar 2008-2015. Steinar var við tæknifræðinám og störf í Svíþjóð á árunum 1969-1980. Hann var svæðisstjóri hjá Vinnueftirlitinu í Reykjavík frá 1999. Steinar er mikill áhugamaður um félagslegt réttlæti og jafnrétti og sat í stjórn og var einn af stofnendum félagsins Icelandpanorama sem á sínum tíma vann gegn fordómum og mismunun. Hann situr nú í stjórn félagsins Lífsvirðingar.

    Tungumál: Íslenska, sænska (klára mig á dönsku og norsku) og hef verið með athafnir á ensku þó ég sækist ekki eftir þeim.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Íris Stefanía Skúladóttir
    Gifting, Nafnagjöf

    Íris Stefanía er fædd árið 1986 og er sviðslistakona og kúrator sem vinnur femínísk verk með áherslur á líf og líkama kvenna. Hún kennir leiklist og magadans og ýmislegt tengt unaði og vellíðan. Íris er mikið náttúrubarn og elskar ekkert meira en að kveikja bál í fjörunni og synda í köldum sjó. Íris hefur mikla trú á því góða í mannfólki og leggur sig fram við að skapa mjúkar og fallegar stundir ívafðar húmor þar sem öllum líður vel.  

    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska og norska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Elísabet Gunnarsdóttir
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Elísabet er sýningarstjóri og safnstjóri Listasafns ASÍ sem setur upp sýningar um land allt. Hún rekur einnig Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space ásamt fleirum og alþjóðlegar gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði. Hún stundaði háskólanám í Edinborg og París og hefur einnig búið og starfað í Noregi og Kanada. Hún gerðist athafnastjóri hjá Siðmennt til að hægt væri að bjóða upp á þennan valkost á Vestfjörðum, bæði fyrir heimafólk en líka fyrir ferðamenn sem koma hingað til lands í leit að ósnortinni náttúru og kyrrð. Vestfirðir hafa mikið að bjóða í þeim efnum. Elísabet hefur verið athafnastjóri síðan 2015.

    Tungumál: Íslenska, enska, franska og norska.
    Staðsetning: Vestfirðir
  • Tinna Rut Jóhannsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf, Útför

    Tinna er heimspekimenntaður hönnuður sem hefur um árabil starfað við framleiðslu sjónvarpsefnis af ýmsum toga. Hún er hrifnæmt hörkutól sem má ekkert aumt sjá, félagslyndur einfari sem elskar hóf í hófi og hefur stundum verið kölluð drífandi og skapandi - pappakassi. Henni finnst allt kaffi gott í góðum félagsskap, nýtur þess að tapa fyrir fjölskyldunni í spilum, ganga á fjöll og vesenast í garðinum, jafnvel þótt hún sé með tíu þumalfingur og engan þeirra grænan. Tinna hefur lag á að komast að kjarna máls og setja hann fram á viðeigandi hátt og henni finnst það forréttindi að fá að deila með fólki mikilvægustu stundum lífs þess. Tinna flytur athafnir á ensku, dönsku og ítölsku, auk íslensku.

    Tungumál: Íslenska, enska, danska, ítalska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Selma Lóa Björnsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Selma Lóa er fædd árið 1974 og er listunnandi orkubolti með óslökkvandi ást á menningu og listum og ferðalögum. Selma Lóa Björnsdóttir er sjálfstætt starfandi fjöllistakona með ævintýraþrá, brennandi áhuga á mannfólkinu og óslökkvandi ferðaást. Hún hefur sett upp ótal sýningar um víða veröld, sungið tvisvar í Eurovision ( lenti í öðru sæti í Ísrael 1999), samið dansa fyrir ótal söngleiki, leikið og sungið í yfir 30 leikritum og söngleikjum, verið dómari í Allir geta dansað, Idol Stjörnuleit og Ísland got talent, leikið norn í Fólkinu í blokkinni og hjólreiðagellu í Undir trénu, talsett fjöldan allan af teiknimyndum ( talaði meðal annars fyrir Ömmu krumpu í Rauðhettu og Barbei…….enginn millivegur) og leikstýrt einnig talsetningum. Hún er mikill stuðbolti og tilfinningaspaghetti og langar að gefa af sér á mikilvægum stundum í lífi fólks. Selma Lóa hefur verið athafnastjóri frá 2018 á höfuðborgarsvæðinu.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Margrét Harpa Guðsteinsdóttir er fædd árið 1977, býr í Lambhaga á Rangárvöllum ásamt manni sínum og fjórum börnum og stunda þau þar búskap. Hún hefur stundað nám í íslensku og þýsku við HÍ en starfar nú samhliða barnauppeldi og bústörfum sem sveitarstjórnarfulltrúi. Margrét Harpa hefur mörg og fjölbreytt áhugamál, s.s. tónlist, líkamsrækt, lestur, útivist, matseld, barnauppeldi og samvera með fjölskyldu og vinum. Hún syngur, spilar á hin ýmsu hljóðfæri og þrífst best þegar hún hefur nóg af fjölbreyttum og krefjandi verkefnum að fást við. Athafnir Margrétar Hörpu eru einlægar og hátíðlegar með vott af hæfilegu spaugi sé þess óskað.

    Tungumál: Íslenska, enska, þýska
    Staðsetning: Suðurland
  • Björg Magnúsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Giftingar og nafngjafir eru einhverjir mikilvægustu og dásamlegustu viðburðir í lífi fólks. Ég vil meina að þetta geti líka verið skemmtilegar stundir með dass af húmor og legg mig alla fram við að búa til slíka merkisviðburði með öðrum. Ég er fædd árið 1985, stjórnmálafræðingur að mennt og alin upp í Hafnarfirði en bý nú í Vesturbæ Reykjavíkur. Síðustu ár hef ég starfað við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi á RÚV. Ég hef líka skrifað bækur og sjónvarpsþætti og er einlægur aðdáandi alls konar menningar. Mér finnst kaffi og trúnó mjög gott kombó og elska að skoða heiminn. Ég lauk námskeiði hjá Siðmennt í athafnastjórnun vorið 2018.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Sigurður Rúnarsson
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Sigurður Rúnarsson er fæddur 1974 og hefur verið athafnarstjóri frá nóvember 2013 bæði á Íslandi og í Noregi hjá HEF, systursamtökum Siðmenntar. Hann býr og starfar í dag á Íslandi og hefur stjórnað fjölmörgum athöfnum á vegum Siðmenntar. Áður starfaði Sigurður í um 20 ár hjá Útfararþjónustunni við útfararstjórn auk þess sem hann er menntaður kerfisfræðingur og starfaði sem upplýsingatæknihönnuður um árabil. Sigurður hefur mikinn áhuga á tungumálum, sagnfræði og mannfræði.

    Tungumál: Íslenska, enska, norska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Bragi Páll Sigurðarson
    Gifting, Nafnagjöf

    Bragi Páll er fæddur 1984 og er rithöfundur og sjómaður, ættaður úr Breiðafirði. 

    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Bæring Jón Breiðfjörð Guðmundsson
    Gifting, Nafnagjöf, Útför, Ferming

    Bæring hefur gaman af lífinu og nýtur þess að kynnast nýju fólki. Hann hefur starfað sem athafnarstjóri frá árinu 2016. Þegar kemur að athöfnum leggur Bæring sig fram um að skapa létta og skemmtilega stemningu með dass af innileik. Sérsniðar að óskum og þörfum hvers og eins. Þegar hann er ekki að stýra athöfnum vinnur hann sem grunnskólakennari en í frístundum tálgar hann í tré og semur leikverk.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Suðurland
  • Margrét Erla Maack
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Margrét er léttur en hátíðlegur athafnastjóri. Hún er einstaklega fær í að búa til athafnir sérsniðnar að ykkur. Margrét hefur áratuga reynslu sem veislustjóri, skemmtikraftur og fjölmiðlakona og hefur einlægan áhuga á manneskjum. Margrét er hlý og fyndin og á auðvelt með að takast á við allt það óvænta sem getur komið upp í athöfnum. Margrét tekur lífinu almennt létt en fíflagangi grafalvarlega.

    Tungumál: Íslenska, enska og danska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Gylfi Ólafsson
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Þó léttleikinn sé alltaf mikilvægur eru stóru stundirnar í lífinu tækifæri til að vera einlæg og örlítið heimspekileg eitt stundarkorn. Gylfi er ísfirskur heilsuhagfræðingur. Athafnastjóri frá 2015. Býr á Ísafirði.

    Tungumál: Íslenska, enska, sænska.
    Staðsetning: Vestfirðir
  • Inga Auðbjörg K. Straumland
    Nafnagjöf, Ferming, Gifting, Útför

    Inga nýtir skapandi samskiptahæfileika og ástríðu fyrir menningu til að leggja sitt á vogaskálarnar fyrir bættu samfélagi. Inga er vefhönnuður og Kaospilot og stundar jafnframt MPM-nám í verkefnastjórnun í HR. Inga tekur virkan þátt í stjórnmálum og skátastarfi og situr að auki í athafnaráði Siðmenntar. Athafnastjóri frá 2013 á höfuðborgarsvæði og nágrenni. Fædd 1986.Tungumál: íslenska, enska. Getur einnig fléttað eftirfarandi tungumálum inn í athöfn til móts við ensku: Hollenska, þýska, danska, norska, sænska.

    Tungumál: Íslenska, enska. Getur fléttað hollensku, þýsku, dönsku, norsku og sænsku í athafnir.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Benedikt Sigurðarson
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf, Útför

    Benedikt er ráðsettur eftirlaunamaður sem elskar samveru, söng og útivist.

    Tungumál: Íslenska, enska.
    Staðsetning: Norðurland
  • Anna Brynja Baldursdóttir
    Ferming, Gifting

    Anna Brynja er fædd árið 1979 og er ævintýralega áhugasöm um fólk og leitast við að gera athafnir sem fókusa á einstaklinga dagsins.  Hlýleiki, einlægni og húmor endurspegla Önnu Brynju og hún vílar ekki fyrir sér að fara skapandi leiðir í athöfnum ef eftir því er óskað. Anna Brynja er menntuð leikkona frá Rose Bruford College í Englandi og með kennsluréttindi í leiklist frá Listaháskóla Íslands. 

    Athafnastjóri frá 2018

    Tungumál: Íslenska, enska og spænska að hluta
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Una Sighvatsdóttir
    Gifting, Nafnagjöf

    Una Sighvatsdóttir er fædd árið 1985 og er sérfræðingur á skrifstofu forseta Íslands.

    Athafnastjóri frá 2022

    Tungumál: Íslenska, enska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Ingibjörg Sædís
    Nafnagjöf, Gifting, Ferming

    Inga er fædd árið 1992 í Reykjavík en bjó á Snæfellsnesi á unglingsárunum. Það er henni sannur heiður að fá að taka þátt í fagnaðartilefnum með fólki og hún hefur léttleika, húmor og einlægni að leiðarljósi í athöfnum sínum. Inga er með BA gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám í þjóðfræði þar sem hennar helsta rannsóknarviðfang er samband mannfólks og dýra. Einnig starfar hún sem aðstoðarkona hjá NPA miðstöðinni. Hún lauk námskeiði í athafnarstjórnun árið 2016 og hefur auk þess kennt námskeið í fermingarfræðslu Siðmenntar.

    Tungumál: Íslenska og enska
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Silja Jóhannesar Ástudóttir
    Gifting, Nafnagjöf, Ferming

    Silja er lífsglöð, lattelepjandi landsbyggðartútta sem lætur sér annt um flest mannlegt. Hún er útivistarprinsessa sem felst í því að hún elskar landið sitt en helst í stillu og björtu. Í ljósi fárra fullkominna daga til útiveru að hennar mati má yfirleitt finna hana inni við með tölvu fyrir framan sig eða síma í hendinni að sinna vinnu eða vinum. Hennar aðalstarf er Samskiptastjóri hjá Háskólanum á Akureyri. Hún er stjórnmálafræðingur með MBA gráðu og hennar sérhæfing felst í að vita lítið um margt.

    Tungumál: Íslenska, enska, smá skandinavíska
    Staðsetning: Norðurland
  • Sesselía Ólafsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Sesselía Ólafs er einlæg og forvitin um lífið og tilveruna. Hún er menntaður leikari og leikstjóri og var valin bæjarlistamaður Akureyrar 2023. Sesselía er einn stofnenda bæði gríndúettsins Vandræðaskálda og leikhópsins Umskiptinga og hefur unnið sem leikari, veislustjóri og skemmtikraftur. Hún hefur samið handrit fyrir leikverk og verðlaunastuttmyndir, gefið út ljóðabók og elskar að krydda hjónavígslutexta með húmor og skemmtilegum skýrskotunum í daglegt líf hjónaefnanna. Sesselía gerðist athafnastjóri árið 2018 og starfar á Norðurlandi.

    Tungumál: Íslenska, enska, getur blandað þýsku og dönsku inn í athafnir.
    Staðsetning: Norðurland
  • Margrét Gauja Magnúsdóttir
    Ferming, Gifting, Nafnagjöf

    Margrét Gauja setur sér það alltaf að sem markmið að fólki líði vel í athöfnum og hlægi a.m.k tvisvar. Hún hefur mikla aðlögunarhæfni og veigrar sér ekki við að ganga á fjöll og jökla fyrir athafnir enda reynslumikill jöklaleiðsögumaður, með meirapróf. Einnig er Margrét Gauja með BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum, masterspróf í mannauðsstjórnun og kennsluréttindi og stýrir ungmennahúsum Hafnafnarfjarðarbæjar. Ef þið biðjið hana fallega þá gæti hún droppað Eurovision gríni í athöfninni, þar sem hún keppti í undankeppninni hér á landi árið 1988 og söng Sólarsömbu ásamt föður sínum. Ekki biðja hana um að syngja lagið samt, það mun aldrei gerast. Margrét Gauja er með mikinn áhuga á þjóðbúningum og saumaði sér peysuföt, sem hún notar í athöfnum, ef óskað er eftir því.
    Athafnastjóri frá 2016

    Tungumál: Íslenska, enska og spænska.
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið
  • Helga Bára Bragadóttir
    Ferming, Gifting, Útför, Nafnagjöf

    Helga Bára Bragadóttir er fædd 1974 og hefur verið athafnastjóri frá 2015. Samhliða útförum hefur hún sérhæft sig í smærri hjónavígslum og nafngjöfum s.s. í heimahúsum og undir berum himni. Helga Bára leggur áherslu á klæðskerasniðnar athafnir með hátíðlegum léttleika sem endurspegla fjölbreytileika þeirra sem til Siðmenntar leita. Helga Bára er menntuð í mannfræði, kennslu og verkefnastjórnun. Hún hefur lengst af starfað á sviði fræðslu og mannúðarmála bæði á Íslandi og erlendis og er alvön að stýra stærri sem smærri viðburðum. Helgu Báru finnst m.a. gaman að velta vöngum um siðferðileg álitamál, læra framandi tungumál og sinna sjálfboðastörfum.

    Tungumál: Íslenska og enska, auk þess að vefja öðrum tungumálum inn í athafnir eftir því sem þurfa þykir (s.s. þýsku, frönsku, spænsku og dönsku).
    Staðsetning: Höfuðborgarsvæðið