Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Viðurkenningar Siðmenntar afhentar

Í dag voru viðurkenningar Siðmenntar afhentar við hátíðlegt tækifæri í Restaurant Reykjavík við Vesturgötu. Að þessu sinni voru viðurkenningarnar tvær. 

Hin fyrri var Húmanistaviðurkenning Siðmenntar sem var afhent í 4. sinn.  Þau voru veitt Rauða krossi Íslands fyrir einstakt og óeigingjarnt starf í þágu mannúðar og heilsuverndar á Íslandi og víða um heim.  Í ræðu Hope Knútsson, formanns Siðmenntar sagði m.a. að hjálparstarf Rauða krossins kæmi víða að, t.d. við kaup og rekstur sjúkrabifreiða, athvörf fyrir geðfatlaða og heimilislausar konur, aðstoð við fanga og fátæka, neyðaraðstoð í náttúruhamförum, opin neyðarsímalína 1717 fyrir fólk í erfiðleikum, móttaka flóttamanna og aðstoð við erlenda hælisleitendur.  Listi góðverka Rauða kross Íslands er of langur til að telja upp.  Starfsemi samtakanna er í anda húmanisma og taldi stjórn Siðmenntar Rauða krossinn einstaklega verðugan þessarar viðurkenningar félagsins.  Það var Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands sem veitti Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2008 viðtöku.   Auk viðurkenningarskjals fékk Rauði krossinn skúlptúrlistaverkið „Flæði“ eftir Elísabetu Ásberg að gjöf.

Síðari viðurkenning kvöldsins var Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar 2008, en það er ný viðurkenning sem veitt fyrir mikilvægt framlag í þágu fræslu um vísindi á Íslandi.  Handhafi viðurkenningarinnar var Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, sem gegnum greinaskrif og framkomu í ljósvakamiðlum hefur gefið þjóðinni heilsteypta mynd af því hvað eru vísindi og hvað gervivísindi.  Pétur hefur þannig sýnt gott fordæmi í því að fræða almenning um tilurð vísindalegrar þekkingar og að það skipti máli að ekki sé öllu því sem borið er á borð tekið sem staðreyndum án faglegrar skoðunar og gagnrýni.  Auk viðurkenningarskjals fékk Pétur bókargjöf frá Siðmennt við afhendinguna.  Hann sagði í þakkarræðu sinni m.a. að það ylli honum áhyggjum að vissar lyfjabúðir væru farnar að selja smáskammtaremidíur hómopata, en hann vildi treysta því að þegar hann kæmi í lyfjabúð fengi hann aðeins vörur sem stæðust gæðastaðla lyfjafyrirtækja og hefðu þá virkni sem lofað væri.

Báðum viðurkenningarhöfum kvöldsins var klappað lof í lófa af viðstöddum.  Að lokum sungu trúbadorarnir Þorvaldur Örn Árnason og Gunnar Guttormsson nokkur vel valin lög og var vel fagnað.

Til baka í yfirlit