Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Karls Hreiðarssonar við borgaralega fermingu 2019

Karl Hreiðarsson, tölvunarfræðingur og eilífðarlúði, flutti eftirfarandi ræðu við borgaralega fermingu á Húsavík, 8. júní 2019.

Kæru fermingarbörn, góðir gestir, innilega til hamingju með daginn! Fyrir það fyrsta langar mig þakka kærlega fyrir það tækifæri að eiga örlítinn hlut í deginum með ykkur. Þið eruð þó væntanlega að velta því fyrir ykkur hvernig í ósköpunum standi á því og hvað ég, sköllóttur miðaldra kall, sé eiginlega að vilja hér uppá dekk til að tefja ykkur á leiðinni í veislur og gleði. Ég skil ykkur fullkomlega. Þó þið ungu mennirnir trúið því örugglega ekki, þá man ég býsna vel eftir því hvernig ég var stemmdur á ykkar aldri og það var fátt verra en þegar mamma og pabbi drösluðu manni á viðburði þar sem gamlir sköllóttir kallar, eins og ég, töluðu, sérstaklega voru þær minnisstæðar stúdentsútskriftir systkina minna frá MA, agaleg þjáning í einhverja 3-4 tíma hið minnsta.

En það þarf einhver að halda ræðu hérna strákar og þið eruð ekkert mikið verr settir með mig heldur en einhvern annan, þannig að ég bið ykkur um að þrauka með mér og vaka í gegnum þetta.

Mig langar að tala við ykkur um viðhorf til lífsins sem ég hef tileinkað mér í æ meiri mæli í seinni tíð og ég vildi gjarnan að ég hefði uppgötvað fyrr, en hefði ekki þurft að læra það með tímanum og missa allt hárið á leiðinni.

Ég vil segja ykkur hversu mikið vald þið hafið sjálfir til að stjórna hausnum á ykkur með því að sjá það jákvæða í vondum aðstæðum. Sama hversu fjarstæðukennt það kann að hljóma þegar á móti blæs.

Gallinn á þessu umræðuefni er sá að það er náttúrulega fátt leiðinlegra en fólk sem talar um jákvæðni, líkt og t.d. ofurhress kennari sem er að reyna að telja manni trú um að ömurleg námsbók í Íslensku sé skemmtileg þegar hún er það augljóslega ekki, en getur reyndar verið gagnleg fyrir því, tek það fram.

Ég hef því fullan skilning á því ef þið viljið nýta tímann núna til að fara fram og pissa. En ég tel mig geta talað af dálítilli reynslu. Ég hef fengið krabbamein þrisvar sinnum, 2013, 2015 og 2016 og krabbamein hefur eðlilega ekki gott orð á sér, en í mínum veikindum, hef ég upplifað margt stórkostlegt þrátt fyrir það.

Fyrir það fyrsta, þá fékk ég loksins veikindaleyfi í þann tíma sem ég þurfti til að taka miklum framförum í Fifa í Playstation. Ég er tveggja barna faðir með lítinn frítíma til að leika mér en eftir aðgerðir og meðferðir gat ég spilað löngum stundum ef heilsan leyfði, sem ég hafði ekki getað gert síðan ég var á ykkar aldri. Ég er ekki nógu góður ennþá, en margfalt betri en ég var og nú slátra ég jafnöldrum mínum á okkar reglulegu mótum í Fifa sem er frábær afleiðing af lífsreynslu sem ég mæli auðvitað ekki með fyrir nokkurn mann. Ekki misskilja mig samt, ég er ekki að leggja til að þið byrjið að reykja á eftir til að komast í mögulega gott Playstation-frí seinna á ævinni.

En svona virkar lífið, það koma slæmir hlutir fyrir alla, mis-alvarlegir og dramatískir vissulega. Ég er auðvitað mjög heppinn að vera að öllum líkindum læknaður, en ég hef lært að við ráðum hvernig við tökumst á við það sem við lendum í. Mér fannst leiðinlegt að hafa ekki heilsu til að gera allt sem ég vildi gera, en ég slapp líka við helling af leiðinlegu drasli. Það er enginn að fara að nöldra í manni með krabbamein um að gera e-ð sem hann vill ekki að gera. Ég gat lagt mig meðan konan mín bakaði köku og komið á fætur þegar hún var tilbúin, sagt nei við halda ræðu sem mig langaði ekki að gera, öfugt við þessa í dag. Ég var því með fullkomið tromp á hendi og fagnaði því og spáði ekki of mikið í hinu.

Það er auðvelt að fara þá leið að vorkenna sjálfum sér þegar maður lendir í brekku, en hitt gefur manni miklu meira og það sem meira er, það hjálpar fólkinu í kringum ykkur að halda gleðinni og þá getur það enn betur stutt ykkur í því sem þið eruð að kljást við. Þá vinna allir.

Þegar ég var nýbúinn að skrifa fyrsta uppkastið að þessari vangaveltu hér var Tortímandinn sjálfur, Arnold Schwarnzenegger til svara á Reddit-vefnum. Þar er liður sem kallast AMA, eða Ask-me-anything, en þar situr frægt fólk fyrir svörum notenda og allt er látið flakka. Þið eruð mögulega of ungir til að þekkja Tortímandann, en hans arfleið er að hafa bjargað heiminum frá vélmennum sem voru við það að eyða mannkyninu við fleiri en eitt tækifæri þannig að það er óhætt að treysta honum. Arnold var fullur innblásturs og gaf ótal góð ráð þannig að einn notandi vefsins spurði hann hvernig hann næði að vera með svona jákvæða orku. Svarið var einfalt en mér fannst það hið minnsta fullkomlega rökrétt:

“It takes the same amount of energy to be positive than it does to be negative. And only one of them gets you anywhere”.

Ef mamma mín væri hérna í dag væri hún miður sín að heyra mig tala við ykkur á ensku þannig að ég verð að koma með þetta líka á íslensku fyrir mömmu: “Það þarf jafn mikla orku í að vera jákvæður eins og að vera neikvæður. En eingöngu önnur leiðin kemur þér áfram”.

Þannig að ef þið takið ekki mark mér, hlustið samt á Tortímandann!

Ekki láta mig tefja ykkur lengur á þessum gleðidegi, njótið dagsins og gangi ykkur frábærlega í lífinu ungu menn!

Til baka í yfirlit