Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Opið bréf til þingmanna: Tillögur Siðmenntar um breytingar á lögum

Stjórn Siðmenntar hefur sent þingmönnum eftirfarandi erindi:

Ágætu þingmenn

Stjórn Siðmenntar vill við upphaf þings óska ykkur velfarnaðar á komandi kjörtímabili og um leið vekja athygli ykkar á nokkrum málum sem félagið telur mikilvægt að fái málefnalega umfjöllun þingsins.

Siðmennt – félag siðrænna húmanista lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trú- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.

Siðmennt leggur því eftirfarandi til:

1. Að ríkið hætti skráningu trúar- og lífsskoðana fólks hjá Þjóðskrá og útdeilingu sóknargjalda

Slíkt fyrirkomulag er andstætt persónuverndarsjónarmiðum. Siðmennt telur óeðlilegt að einstaklingar þurfi að gefa upp hverjar lífsskoðanir þeirra eru. Að auki er það ekki hlutverk hins opinbera að halda skrá yfir trúfélagaaðild fólks eða innheimta gjöld fyrir hönd trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga. Siðmennt telur eðlilegast að þau félög sjái sjálf um að innheimta eigin félagsgjöld. [i]

2. Að sjálfkrafa skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög verði hætt (Varatillaga; sjá lið 1.)

Lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög verði í það minnsta breytt á þann veg að börn séu ekki skráð sjálfkrafa í þau félög við fæðingu eins og gert er ráð fyrir samkvæmt 8. gr. laganna. Slík sjálfkrafa skráning er að mati Siðmenntar óheppileg. Sjálfkrafa skráning barna í félög sem foreldrar tilheyra er óviðeigandi nema þá að skráðir einstaklingar séu sjálfkrafa afskráðir þegar þeir ná fullorðinsaldri. Mikilvægt er að allir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir séu skráðir í frjáls félög eða ekki. [ii]

3. Að þau sem skráð eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga greiði ekki kirkjuskatt (Varatillaga; sjá lið 1.)

Samkvæmt lögum um sóknargjöld renna sóknargjöld til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trú og lífsskoðunarfélaga. Fyrir árið 2009 rann sóknargjald þeirra sem stóðu utan trúfélaga til Háskóla Íslands en eftir það í ríkissjóð. Siðmennt telur að einstaklingar utan trú- og lífsskoðunarfélaga eigi að fá sérstaka endurgreiðslu frá skattinum. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemd við að allir borgarar greiði kirkjuskattinn óháð því hvort þeir sé skráðir í félag eða ekki.[iii]

4. Að hafist verði handa við að aðskilja ríki og kirkju

Siðmennt leggur til að þingið samþykki að skipa fjölskipaða nefnd sem fari yfir þau málefni sem aðskilnaður ríkis og kirkju mun óhjákvæmilega hafa áhrif á. Það er mikilvægt að slík vinna eigi sér stað og vinnuhópurinn leggi fram ítarlega skýrslu um þau áhrif. Siðmennt óskar eftir að taka þátt í slíkri vinnu. Í Svíþjóð varð aðskilnaður um síðustu aldamót og í Noregi hófst vinna árið 2005 sem hefur svipað markmið og hér er lýst og er fyrirmynd að tillögu Siðmenntar að leita til Noregs.

5. Að kirkjujarðasamningnum frá 1997 (og útfærslu hans 1998) verði sagt upp

Við gerð samningsins virðist ekkert mat hafa verið lagt á virði þeirra eigna sem hann náði yfir. Hins vegar var ríkið skuldbundið til að greiða milljarða á ári um ókomna framtíð. Þær tölur sem nefndar voru um virði eigna á þessum tíma eru aðeins nokkrir milljarðar og því ljóst að verið var að skuldbinda ríkissjóð til að greiða háar fjárhæðir um ókomin ár á röngum forsendum. Siðmennt leggur í það minnsta í til að samningurinn og forsendur hans verði skoðaðar. Mikilvægt er að skattgreiðendur viti nákvæmlega fyrir hvað þeir eru að greiða.[iv]

6. Að skylda sveitarfélaga að leggja trúfélögum til ókeypis lóðir verði afnumin með breytingu á lögum um Kristnisjóð o.fl.

Siðmennt telur það ekki hlutverk hins opinbera að sjá trúfélögum fyrir slíkum ívilnunum.[v]

7. Að 125 gr. í almennum hegningarlögum verði felld úr gildi

Í greininni segir: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.“

Siðmennt telur óviðeigandi að hægt sé að sekta einstaklinga eða jafnvel fangelsa fyrir það eitt að gagnrýna eða gera grín að trúarkenningum. 125. grein almennra hegningarlaga brýtur gegn tjáningarfrelsinu. [vi]

8. Að lög um helgidagafrið verði afnumin

Markmið laganna er að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar. Siðmennt telur ekki við hæfi að takmarka frelsi fólks með þessum hætti með lögum. Frítökuréttur og hvíldartími starfsmanna er tryggður í kjarasamningum. Rétt er að benda á að margvíslegar undanþágur eru nú þegar í lögunum. Heillavænlegast væri að afnema þessi ákvæði með öllu.[vii]

Með von um góð viðbrögð,
Stjórn Siðmenntar

Nánari upplýsingar veitir:
Sigurður Hólm Gunnarsson
Stjórnarmaður í Siðmennt
siggi@sidmennt.is
898-7585



[i]               Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html

[ii]              Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999108.html

[iii]              Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html

Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html
Umfjöllun Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna (atriði C.13): http://www2.ohchr.org/english/bodies/hrc/docs/co/CCPR.C.ISL.CO.5_AV.doc

[iv]              Samningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um fjárframlög: http://www.innanrikisraduneyti.is/raduneyti/starfssvid/kirkjumal/upplysingar/nr/674

[v]              Lög um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1970035.html

[vi]              Almenn hegningarlög, nr. 19/1940: http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1940019.html

[vii]             Lög um helgidagafrið, nr. 32/1997: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997032.html

Til baka í yfirlit