Fara á efnissvæði

Amsterdam-yfirlýsingin 2002

Húmanismi er niðurstaða langrar hefðar af frjálsri hugsun, sem hefur verið mörgum heimsins mestu hugsuðum og skapandi einstaklingum innblástur, ásamt því að leggja grunn að vísindalegum framförum.

Grunnatriði nútímahúmanisma eru eftirfarandi:

Húmanismi er siðrænn.

Hann staðfestir virði, reisn og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins og réttindi hverrar manneskju til mesta mögulega frelsis, svo lengi sem það frelsi er samþýðanlegt við frelsi annarra. Húmanistar bera umönnunarskyldu gagnvart öllu mannkyni, að ógleymdum komandi kynslóðum. Húmanistar trúa því að siðferði, sem byggir umhyggju gagnvart öðrum án ytri viðurlaga, sé órjúfanlegur hluti mannlegs eðlis.

Húmanismi er skynsamur.

Hann leitar eftir því að nota vísindi til sköpunar, ekki eyðileggingar. Húmanistar trúa því að lausnir við áskorunum heimsins liggi í huga og gjörðum mannkyns, ekki guðlegrar íhlutunar. Húmanistar tala fyrir vísindalegri aðferð og frjálsum rannsóknaraðferðum til að leita lausna við vandamálum sem tengjast velferð mannkyns. Húmanistar trúa þó einnig því að nýting á tækni og vísindum þurfi að vera römmuð inn af mannlegum gildum. Vísindi gefa okkur leiðirnar, en gildin okkar vísa veginn.

Húmanismi styður lýðræði og mannréttindi.

Húmanismi hefur það að markmiði að hver einasta manneskja fái tækifæri til að verða besta mögulega útgáfan af sjálfri sér. Húmanismi heldur því fram að lýðræði og mannlegur þroski séu sjálfsögð réttindi. Meginreglurnar um lýðræði og mannréttindi eiga við um ýmis konar mannleg samskipti, ekki einvörðungu um aðferðir yfirvalda.

Húmanismi er svar við útbreiddri þörf fyrir valkost við dogmatískri trú.

Stærstu trúarbrögð heimsins byggjast á eilífum og óumbreytanlegum opinberunum og mörg þeirra leitast við að troða heimsýn sinni upp á alla heimsbyggðina. Húmanismi viðurkennir að áreiðanlegur skilningur á veröldinni og okkur sjálfum, er aðeins fenginn með endurteknu ferli rannsóknar, ígrundunar og endurskoðunar.
Húmanismi metur listræna sköpun og ímyndunarafl að verðleikum
og viðurkennir umbreytingarafl listarinnar. Húmanismi staðfestir mikilvægi bókmennta, tónlistar, myndlistar og sviðslistar fyrir persónulegan þroska og lífsfyllingu einstaklingingsins.

Húmanismi er lífsskoðun, sem stefnir á mesta mögulega þroska manneskjunnar

Með því að leggja rækt við siðrænan og skapandi lífsmáta. Húmanismi býður upp á siðferðilegar og rökrænar leiðir til að takast á við áskoranir okkar tíma. Húmanismi getur verið lífstíll alls fólks, alls staðar.
Mikilvægasta verkefni okkar er að koma því á framfæri í sem einföldustu máli, hvað húmanisminn getur verið manneskjunni og hvaða ábyrgð hann leggur á herðar hennar. Með því að beita frjálsri rannsókn, krafti vísindanna og sköpunarkraftinum til þess að vinna að frið í heiminum og í þágu samkenndarinnar, erum við sannfærð um að við höfum þau nauðsynlegu verkfæri til að leysa vandamálin sem steðja að okkur öllum. Við hvetjum öll þau sem deila þessari sannfæringu til þess að slást í för með okkur á þessari vegferð.

Samþykkt á heimsþingi húmanista, Amsterdam, 2002.

Yfirlýsinguna má finna á fleiri tungumálum á vef Heimssamtaka húmanista.