Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fyrsta veraldlega útförin á vegum Siðmenntar

Föstudaginn 9. maí síðastliðinn fór fram í Bænhúsinu við Fossvogskirkjugarð fyrsta útförin sem athafnarstjóri á vegum athafnarþjónustu Siðmenntar stýrir. Að ósk aðstandenda hinnar látnu fór útförin fram í kyrrþey og óskað var bálfarar. Fjölskyldan á langa sögu með Siðmennt og fermdist sonur hinnar látnu með fyrsta hóp borgaralegrar fermingar árið 1989.

Það var Svanur Sigurbjörnsson, umsjónarmaður athafnaþjónustu Siðmenntar og einn af sex athafnarstjórum sem hafa lokið þjálfun og lýst sig reiðubúna til starfans, sem stýrði athöfninni. Hún hófst með kistulagningu fyrir luktum dyrum og hálfri klukkustund síðar var haldin minningarathöfn.

Í kynningarorðum minningarathafnarinnar sagði Svanur meðal annars:

„Siðmennt er nú að hefja fulla þjónustu við athafnarstjórnun félagslegra athafna fjölskyldna og er þetta fyrsta útförin sem fer fram með þátttöku félagsins. Það er því enn á ný að fjölskyldan að Hólastekk brýtur með okkur blað í sögunni.“

Í hugvekju Svans var rætt um mennskuna og hversu ríkur þáttur þroskinn er í henni, sérstaklega sá tilfinningalegi. Þetta þema endurspeglaðist síðan í minningarorðunum um hina látnu.

Kringum opnunarorð, hugvekju, minningarorð og lokaorð var flutt tónlist af félögum úr Kammerkór Langholtskirkju undir styrkri stjórn og orgelleik Jóns Stefánssonar. Einar Clausen söng einsöng. Um útfararþjónustu sá Ísleifur Jónsson frá Útfararstofu Kirkjugarðanna. Siðmennt kann þessum aðilum miklar þakkir fyrir góða samvinnu, leiðbeiningu og afbragðs þjónustu.

Athöfnin þótti takast afskaplega vel og mæltist vel fyrir hjá aðstandendum. Einfaldleiki og virðuleiki einkenndi hana. Siðmennt þakkar fjölskyldunni að Hólastekk 4 auðsýnt traust og vottar henni um leið innilega samúð sína.

Athafnarþjónusta Siðmenntar hefst formlega í lok maí

Siðmennt stefnir að því að kynna formlegt upphaf athafnarþjónustu sinnar í lok maí með blaðamannafundi. Kynningarefni í formi þriggja bæklinga sem fjalla um húmanískar útfarir, giftingar og nafngjafir og svo almennt um Siðmennt er í undirbúningi. Svanur Sigurbjörnsson mun svo kynna þjónustuna með stuttum kynningarfyrirlestrum um allt land næstu vikur og mánuðina á eftir. Merki félagsins var endurhannað og vefsíðan sömuleiðis til þess að gefa kynningu okkar ferskan blæ því nú eru mikil tímamót í sögu félagsins. Gömlu táknmyndum félagsins fyrir athafnirnar var skipt út fyrir táknrænar ljósmyndir til merkis um að nú væri allt komið í gang. Búið er að uppfæra allar upplýsingar um athafnir á vegum félagsins undir yfirskriftinni Veraldlegar athafnir og er þar nánar útskýrt t.d. hvernig félagið ætlar að nota hugtökin „veraldleg, húmanísk og borgaraleg“ í þessu samhengi.

Það fer vel á því að nú á 20. ári borgaralegrar fermingar skuli Siðmennt ýta úr vör þjónustu fyrir allar hinar klassísku félagslegu athafnir fjölskyldna. Þetta er okkur mikið gleðiefni og nú opnast mikilvægir menningalegir valkostir í lífi allra þeirra er aðhyllast veraldlegar eða húmanískar lífsskoðanir á Íslandi.

Húsnæðissjóður stofnaður

Á aðalfundi Siðmenntar í febrúar síðastliðnum var ákveðið að stofna sjóð til byggingar eða kaupa á framtíðarheimili félagsins og vonandi með hjálp stórhuga fólks getum við eignast okkar eigið húsnæði til fallegra athafna í náinni framtíð. Stofnfé sjóðsins, hálfa milljón króna fékk Siðmennt að gjöf í fyrra frá Gunnari Leó Leóssyni að honum látnum.

 

Til baka í yfirlit