Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar 2007

Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi veitti þann 1. nóvember Tatjönu Latinovic húmanistaviðurkenningu ársins 2007 fyrir óeigingjarnt starf í þágu mannréttinda á Íslandi.
Í áratug hefur Tatjana unnið að mestu í sjálfboðastarfi við málefni sem snerta mannréttindi, kvenréttindi og innflytjendamál og tekið virkan þátt í uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi.
Ræða Hope Knútsson formanns Siðmenntar:


Það er með mikilli ánægju að Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, veitir í dag, þriðja árið í röð, húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir framúrskarandi starf í þágu mannréttinda og í anda húmanisma á Íslandi.

Ég vil byrja á því að segja nokkur orð um hvað Siðmennt er og fyrir hvað félagið stendur. Siðmennt var formlega stofnað árið 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum. Frá 1988 hefur Siðmennt haldið undirbúningsnámskeið og séð um borgaralegar fermingar árlega. Þá hefur félagið gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast manngildisstefnu, þ.e. siðrænum húmanisma, og má þar nefna málefni eins og líst er í stefnu félagsins, t.d. trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, um erlend félög siðrænna húmanista o.fl. Helsta barráttumál félagsins í dag er ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðanafélaga sem m.a. hefur í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi og að Siðmennt öðlist sömu stöðu og önnur lífsskoðanafélög.

Siðmennt ákvað árið 2005 að úthluta árlega húmanistaviðurkenningu Siðmenntar. Árið 2005 hlutu Samtökin 78 viðurkenninguna og 2006 veitti Ragnar Aðalsteinsson hdl henni viðtöku.
Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna. Stefna húmanismans birtist m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna en í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.:

Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.

Sá sem hlýtur húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2007 er kona sem ég tel að sé ekta talsmaður mannréttinda. Hún hefur að geyma alla helstu eiginleika húmanista, það er að segja: manneskja með mikla siðferðiskennd, vilja og kraft til að berjast fyrir mannréttindum og með mikla réttlætiskennd.

Það er mér sönn ánægja að tilkynna það hér að Siðmennt hefur ákveðið að veita Tatjönu Latinovic viðurkenningu Siðmenntar fyrir árið 2007 fyrir óeigingjarnt starf í þágu mannréttinda á Íslandi.

Í áratug hefur Tatjana unnið að mestu í sjálfboðastarfi sem snerta mannréttindi, kvennréttindi, innflytjendamál, réttlætismál og tekið mjög virkan þátt í uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi. Ég þekki það af eigin reynslu að það er ekki auðvelt að gera slíkt sem útlendingur.

Tatjana Latinovic er frá fyrrverandi Júgóslavíu, nánar tiltekið er hún Serbi frá Króatíu, en hún hefur verið búsett á Íslandi í þrettán ár. Hún er með BA próf í ensku og þýsku frá háskólanum í Osijek í Króatíu en á Íslandi lauk hún BA prófi í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands árið 1998. Áður en hún kom til Íslands vann hún fyrir alþjóða Rauða krossinn á stríðssvæðunum í Bosníu, og í því starfi kynntist hún íslenskum eiginmanni sínu, sem einnig var starfsmaður Rauða krossins. Tatjana er því ein af „tengdadætrum Íslands.“ Nú starfar hún í þróunardeild Össurar sem sviðsstjóri hugverkaréttinda, auk þess sem hún vinnur sem túlkur og þýðandi, úr serbnesku og króatísku. Hún starfaði einnig með Rauða Krossi Íslands, en þar hefur hún unnið að málefnum flóttamanna. Hún er formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi síðan 2004, er í stjórn Alþjóðahússins og Kvennaathvarfsins auk þess sem hún á sæti í innflytjendaráði í félagsmálaráðuneytinu.

Tatjana hefur skrifað greinar og pistla í fjölmiðla sem tengjast málefnum innflytjenda og þátttöku þeirra í íslensku samfélagi.

Tatjana hefur unnið við að styrkja menningartengsl milli heimalanda sína með þátttöku í skipulagi Daga íslenskar menningar í Serbíu, en í tengslum við þetta verkefni þýddi hún bók „Skugga-Baldur“ eftir Sjón á serbnesku sem gefin var út í Belgrad og fékk mjög góðar viðtökur.

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar er fyrst og fremst táknræn og samanstendur af viðurkenningarskildi en að auki færum við Tatjönu tvær bókagjafir. Sú fyrri er ritsafn tekið saman af Annie Laurie Gaylor sem heitir Women Without Superstition og er safn ritverka fimmtíu og einna sterkra, fríþenkjandi kvenna frá nítjándu og tuttugustu öldinni. Annie Laurie hefur áritað bókinni til Tatjönu sem hér segir: „To Tatjana Latinovic, Humanist of the Year 2007. A courageous champion of human rights. With best personal wishes, Annie Laurie Gaylor”. Annie Laurie Gaylor er forseti stærsta félags í Bandaríkjunum sem berst fyrir að halda ríki og kirkju aðskilinni eins og stjórnarskrá Bandaríkin gerir ráð fyrir. Hin bókin heitir „Billions and Billions” og er eftir Carl Sagan, einn fremsta stjörnufræðing tuttugustu aldarinnar. Hann skrifaði margar metsölubækur um undur alheimsins, var mjög vinsæll og þekktur vísindahöfundur sem vann Pulitzer verðlaunin og framleiddi sjónvarpsþættina „Cosmós” sem fjallaði um upphaf lífsins og það sem er vitað um alheiminn. Hann tók þátt í uppbyggingu SETI verkefnisins (Leitin að ójarðnesku vitsmunalífi). Hann var ótrúlega mælskur, algjör snillingur sem átti mjög auðvelt að hrífa fólk með mjög skýra og ljóðræna fræðslu um vísindi og leyndardóma lífsins. „Billions and Billions” var síðasti bók hans áður en hann dó fyrir rumlega áratug síðan og eru hugrenningar hans um lífið og dauðann. Carl Sagan var fríþenkjari og Húmanisti.

Okkur finnst við hæfi að færa Tatjönu þessarar bækur vegna þess að við teljum hana starfa í anda þessara brautryðjandi baráttukvenna. Ekki skemmir fyrir að hún vinnur hjá fyrirtæki sem byggir framleiðslu sína á vísindalegri þekkingu.

Til hamingju Tatjana! Við fögnum innilega því góðverki sem þú hefur unnið fyrir íslenskt samfélag í yfir áratug.
—-

Það var sérlega ánægjulegt að Hörður Torfason tónlistarmaður og félagi í Siðmennt tók tvö lög í lok athafnarinnar við góðar undirtektir allra gesta.

Stjórn Siðmenntar óskar Tatjönu hjartanlega til hamingju um leið og félagið þakkar henni fyrir framúrskarandi störf í þágu mannréttinda á Íslandi.

Til baka í yfirlit