Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Sigurbjargar Lovísu við borgaralega fermingu 2019

Sigurbjörg Lovísa, leiklistarnemi, flutti eftirfarandi ræðu við borgaralega fermingu á Neskaupsstað 8. júní 2019.

Kæru ungmenni, mig langar til að byrja á að óska ykkur hjartanlega til hamingju með daginn.

Þetta er ákveðin áfangi sem þið ljúkið, eða hefjið, eftir því hvernig þig lítið á það og framtíðin ykkar er full af tækifærum!
Nú eru ekki mörg ár síðan ég fermdist sjálf, en ég hef þó lært ansi margt á þessum tíma.
Mig langar því að gefa ykkur nokkur góð ráð út í næstu þrautir í lífi ykkar og vona ég að þær nýtist ykkur vel.

Þið eruð nefnilega tímamóta kynslóð!

Þið eigið eftir að upplifa breytingar í heiminum sem munu vonandi vera til hins betra, og þið eruð líka kynslóðin sem fær að leiða þessar breytingar, þið eruð leiðtogar framtíðarinnar!

Og þetta skref sem þið takið í dag er enn eitt skrefið í átt að sjálfstæðum einstaklingum og framtíðar leiðtogum okkar lífs.

Ég segi leiðtogar því að ég trúi því að í framtíðinni okkar ríki jafnrétti allra. Og með því meina ég að enginn þurfi að berjast fyrir því að mega hafa áhrif. Engin er yfir einn eða annan hafin og þar með ætti engin þarf að þjást.

Þegar ég var að keyra hingað þá fór ég eins og svo oft áður að hugsa um hvaðan orðin koma. Og með ræðuna á heilanum þá var það alltaf orðið Leiðtogi sem kom aftur til mín. Leiðtogi. Þetta er alveg virkilega fallegt orð. Án þess að hafa leitað eitthvað sérstaklega í orðabók þá tók ég mér það leyfi að skilgreina orði bara sjálf.

Leiðtogi hlýtur að vera einstaklingur, af hvaða kyni sem er, sem leiðir félaga sína og togar þau áfram. Svona ef ég tek orðinu alveg bókstaflega.

Það sem er mjög mikilvægt fyrir leiðtoga að vita er að hann er ekki stjórinn, heldur er hann til staðar og styður félaga sína áfram, engin er yfir einn hafin og samvinnan ræður öllum ríkjum.

Þið kannist eflaust við þetta, að vinna í hóp og þurfa að hugsa á hugmyndir allra og komast að niðurstöðu sem allir hafa unnið eitthvað að og eru sáttir með. Þetta er ein birting jafnréttis.

Það er mikilvægt að gæta jafnréttis, að allir fá að láta ljós sitt skína.

Ég hvet ykkur, sem leiðtoga til þess að hlusta á félaga ykkar og virða þeirra skoðanir og munið eftir því að hvetja hvort annað áfram. Það er fátt betra en að vita að vinir manns standa við bakið á manni!

Þetta hljómar kannski eins og mesta jákvæðnis klisja sem ég gæti kastað út úr mér. Þetta er kannski sama klisjan og í Dýrin í hálsaskógi sem 1 árs frænka mín hlustar nú á, á meðan ég rifja upp minningar úr eigin barnæsku… Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir….  Ég veit ekki hversu oft ég hef leitt þessa setningu hjá mér og sleppt því að pæla eitthvað sérstaklega í henni. En klisjur eru klisjur vegna þess að þær virka. Ef þið eruð samtaka og styðjið hvort annað, og notið jákvæða gagnrýna hugsun, eru ykkur allir vegir færir.

Annað sem einkennir góðan leiðtoga, og raunar alla einstaklinga, er staðfestan í því að leyfa manni sjálfum að vera maður sjálfur og bera virðingu fyrir öðrum sem eru líka að berjast við að vera þeir sjálfir.

Þegar við leyfum okkur að vera við sjálf höfum við svo ótrúlega mikið tjáningafrelsi. Okkur má líða eins og okkur líður. Við megum gera mistök og við þurfum ekki að vera fullkomin!

Við höfum í mörg hundruð ár alist upp við að vera svona og hinsegin, í staðin fyrir að fá að nota gagnrýna hugsun og spurja okkur sjálf “hver er ég, hvað vil ég?”. Þegar við lesum ævisögur framúrskarandi einstaklinga kemur það oftar en ekki í ljós að þau náðu langt á sínu sviði því þau stóðu með sjálfum sér og því sem þau trúðu á!

Þegar við leyfum okkur að vera við sjálf gefum við frá okkur orku sem er engri lík. Í samfélagi þar sem allir leitast við að vera eins, er orkan í því umhverfi eftir því.

En EF við gefum okkur sjálfum pláss til að stækka okkur sjálf, standa með okkur sjálfum og gefa frá okkur góða strauma verður samfélagið um leið miklu litríkara, skemmtilegra og áhugaverðara. Þá ert þú líka búin að ryðja brautina fyrir aðra einstaklinga sem eiga í basli með það.

Ég vona að þið séuð að fylgja mér í þessari orku og stækkun á ykkar fallegu einstaklingssálum. Þegar ég tala um stækkun meina ég að við stækkum upp í plássið okkar, við dreifum ekki úr okkur um allt gólfið svo engin annar geti labbað, heldur stækkum við upp í loftið! Og hjálpum öðrum að komast þangað upp með okkur!

Nú veit ég ekki hvernig dagskráin hjá ykkur er í dag en ég veit að þetta er stór dagur. Á svona stórum dögum er mikilvægt að muna eftir sjálfum sér.

Mig langar að gefa ykkur nokkrar sekúndur til að færa athyglina inná við, taka djúpan andardrátt. Taka eftir því hvernig ykkur líður, hvernig ætlið þið að standa með ykkur sjálfum í dag og hvernig ætlið þið að vera leiðtogar í eigin lífi.

Það sem einkennir líka marga leiðtoga er að þeir eru ákveðnar fyrirmyndir. Þið eigið ykkur eflaust einhverjar fyrirmyndir. Kannski eru það mamma og pabbi, annar fjölskyldumeðlimur eða einhver afrekseinstaklingur.

Ein mín helsta fyrirmynd er stelpa sem er 2 árum eldri en þið. Hún heitir Greta Thunberg. Hún býr í Svíþjóð og hefur á undir ári náð að hafa meiri áhrif á viðhorf heimsins til umhverfismála en stærstu ríkisstjórnir heims.

Greta hafði mikinn áhuga á því að bæta umhverfið og náttúruna og henni blöskraði hversu lengi stjórnvöld væru að taka í taumana. Hún fór því að skrópa eftir hádegi á föstudögum í skólanum og mótmælti, ein, fyrir framan stjórnarráðið. Núna, tæplega ári síðar er hún ein áhrifamesti leiðtogi heimsins. Fólk flykkjast um götur borga og bæja með henni og berjast fyrir bættum umhverfisáherslum. Nú er ég alls ekki að hvetja ykkur til að skrópa í skóla, mennt er máttur. En þið skiljið vonandi hvert ég er að fara með þetta.

Ástæðan fyrir að hún er fyrirmyndin mín, er vegna þess að hún stóð upp fyrir einhverju sem hún trúði á og lét aðra ekki segja sér hvernig hún ætti að vera. Hún stóð með eigin sannfæringu og gafst aldrei upp.

Ég hefði eflaust getað reynt að segja ykkur hvernig á að sigrast á gróðurhúslofttegundum, eða ofbeldi í heiminum, eða hverju því ójafnrétti sem við heyrum af. En.. það er nefnilega eitt sem þau eiga öll sameiginlegt, þessar vondu aðstæður sem eru út um allt. Þær eiga það sameiginlegt að okkur vantar leiðtoga.

Leiðtoga sem hlustar á félaga sína, leiðtoga sem styður félaga sína. Leiðtoga sem lítur á alla sem félaga sína.

Þannig gætum við jafnréttis, og þannig komumst við áfram. Skref fyrir skref.

Til að ljúka þessum orðum þá langar mig bara enn og aftur að óska ykkur til hamingju og ítreka það sérstaklega að þið eruð leiðtogar í eigin lífi! Og hver einasta manneskja hér inni getur haft áhrif, orkan hérna inni er orka ykkar allra. Þið stjórnið ykkar för og öll eruð þið alveg ótrúlega kröftug. Ég vona að þessi dagur verði ykkur góður, líkt og aðrir dagar, og þið lítið björtum augum á framtíðina sem blasir við ykkur.

Til hamingju og gangi ykkur vel!

Til baka í yfirlit