Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt ræður framkvæmdastjóra

Stjórn Siðmenntar hefur ákveðið að ráða framkvæmdastjóra til þess að sinna verkefnum félagsins sem hafa vaxið verulega síðan það var stofnað fyrir 25 árum. Einnig verður leigð skrifstofa undir starfsemina á Hallveigarstöðum við Túngötu.

Bjarni Jónsson

Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins verður Bjarni Jónsson en hann mun hefja störf þann 1. september. Hann er einn af stofnfélögum Siðmenntar og hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2000, þar af 5 ár sem varaformaður. Hann hefur haft ábyrgð á mörgum verkefnum Siðmenntar og hefur því mikla þekkingu á málefnum félagsins. Bjarni hefur verið fulltrúi félagsins í samstarfi norrænna samtaka húmanista sem samtals hafa um 100.000 félaga. Þar að auki hefur hann langa reynslu í rekstri hagsmunasamtaka en hann hefur prentiðn sem grunn og hefur bætt við sig námi í markaðsfræðum, rekstrar- og viðskiptum og verkefnastjórnun.

Siðmennt heldur upp á 25 ára afmæli sitt á árinu og hefur starfið tekið gríðarlegum breytingum. Í upphafi var um að ræða fámennan hóp sem fjölgaði hægt en sígandi. Þann 3. maí 2013 hlaut félagið skráningu sem veraldlegt lífskoðunarfélag en breyting á lögum um skráð trú- og lífskoðunarfélög gerði skráninguna mögulega. Þetta varð til þess að eftirspurn eftir veraldlegum og húmanískum athöfnum jókst mjög. Sérstaklega hefur giftingum fjölgað mikið en einnig er fjölgun í nafngjöfum og félagið sinnir einnig útförum.

Við skráninguna voru félagsmenn um 300 en tveimur árum síðar, í maí 2015, eru þeir að nálgast 1.300. Fjölgunin hefur verið langt umfram áætlanir stjórnar félagsins og sýnir þann mikla stuðning sem er við stefnumál siðrænna húmanista sem snúast um trúfrelsi, mannvirðingu, umburðarlyndi, siðferði og þekkingu. Þessi hraða fjölgun félagsmanna hefur flýtt fyrir ráðningu starfsmanns og að félagið komi sér upp eigin skrifstofu en hingað til hefur mest allt starfið verið unnið af sjálfboðaliðum ef undan er skilið starf við borgaralega fermingu.

Nánari upplýsingar veita Sigurður Hólm Gunnarsson í síma 8987585 og Bjarni Jónsson í síma 8968101.

Til baka í yfirlit