Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fyrir hverja er borgaraleg ferming?

UNDANFARIN tólf ár hefur íslenskum ungmennum staðið til boða að fermast borgaralega. Um fimmtíu ungmenni hafa valið þennan kost á hverju ári undanfarin fjögur ár. Allnokkur umræða hefur farið fram um ágæti og réttmæti borgaralegrar fermingar og hefur sú umræða iðulega snúist um hvort rétt sé að kalla viðburð þennan fermingu eður ei. Minna hefur hinsvegar verið rætt um það sem mestu máli skiptir þ.e. fyrir hverja borgaraleg ferming er og hvað er gert á undirbúningsnámskeiðunum.

 

Það sem hefur verið ánægjulegt að sjá á þeim fjórum árum sem ég hef verið leiðbeinandi á námskeiðum fyrir borgaralega fermingu er hversu fjölbreyttur hópur ungmenna að lífsstíl og lífsskoðunum hefur valið þennan kost. Til okkar sem að þessu stöndum hafa komið einstaklingar sem enn hafa ekki gert upp hug sinn til trúmála og vilja fá frekari tíma til að hugsa sig um. Þar á meðal hafa verið einstaklingar sem telja sig trúlausa, eru meðlimir í þjóðkirkjunni en vilja af einhverjum ástæðum ekki fermast kirkjulegri fermingu. Mikið hefur verið um ungmenni sem eru í söfnuðum sem ekki eru stórir hér á landi og man ég eftir búddistum, vottum jPMóva, meðlimum í ásatrúarfélaginu svo aðeins örfá dæmi séu tekin. Án efa hafa einstaklingar úr öðrum söfnuðum einnig verið á meðal þátttakenda án þess að ég viti, enda er engum gert að segja hvort viðkomandi aðhyllist trúarbrögð eður ei.

Skiptir máli hvaðan gott kemur?
Meginmarkmið námskeiðsins er að þátttakendurnir leitist við að verða góðar og ábyrgar manneskjur. Litið er svo á að allir geti orðið að heilsteyptum og góðum manneskjum án tillits til trúar eða lífsskoðana. Þátttakendur rækta með sér ábyrgðarkennd á eigin velferð sem og samborgara sinna. Ekki veitir af að leggja áherslu á þennan þátt í fari fólks á tímum þar sem of mikð er af fréttum af slæmri umgengni í samskiptum fólks, ofbeldi og fíkniefnanotkun. Þessir þættir eru ræddir á námskeiðinu ásamt fjölmörgum öðrum svo sem: mismunandi lífsskoðanir fólks, hvað gefur lífi okkar gildi, í hverju felst hamingjan, trúarheimspeki, mannréttindi, skaðsemi vímuefna, einelti, samskipti kynjanna og að bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Síðastliðinn vetur var tekið upp nýtt efni sem fjallar um það að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi og mæltist það vel fyrir hjá þátttakendum enda margir undir þrýstingi að láta sitt ekki eftir liggja í lífsgæðakapphlaupinu. Einn tími undir lok námskeiðsins fer fram með virkri þátttöku foreldra eða forráðamanna og er þá rætt um samskipti unglinga og fullorðinna. Ýmislegt fleira er að sjálfsögðu gert á námskeiðinu sem ekki verður talið upp hér.

Heiðarleikinn umfram allt
Á námskeiði sem þessu þar sem margir mjög ólíkir einstaklingar koma saman er gengið út frá tveimur meginreglum sem öllum ber að virða: Annarsvegar má vera öðruvísi og hinsvegar ber ávallt að segja satt. Það sem átt er við með að mega vera öðruvísi felst í því að þátttakendur hafa allir sinn rétt á að skera sig úr fjöldanum ef þeim svo sýnist; þeir mega hafa mismunandi skoðanir, líta öðruvísi út og klæða sig eftir eigin höfði svo dæmi séu tekin.

Hin reglan um að ávallt beri að segja satt er mjög mikilvæg enda grundvallarforsenda heiðarlegra samskipta. Þó verður að taka fram að þó svo að samræður séu algengar á námskeiðinu þá er engum skylt að segja neitt enda felst virk þátttaka ekki síður í virkri hlustun.

Þeim sem vilja kynna sér málin frekar er bent á heimasíðu siðmenntar www.sidmennt.is.

Höfundur er MA í heimspeki og leiðbeinandi hjá Siðmennt, félagi áhugafólks um borgaralegar athafnir.

Morgunblaðið 19. september, 2000

Jóhann Björnsson

Til baka í yfirlit