Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Mannréttindabrot í íslenskum skólum?

Er brotið á mannréttindum í íslensku skólakerfi? Er lífsskoðun mín, sem húmanista, minna virði en kristin lífsskoðun? Ofuráhersla á kristnar lífsskoðanir í kennslu í opinberum skólum er brot á réttindum foreldra með aðra lífsskoðun en kristna. Alþingi samþykkti á síðasta þingi breytingar á lögum um leik- og grunnskóla þar sem markmiðssetningu  laganna var breytt úr kristilegu siðferði í kristilega arfleið (hvað svo sem það þýðir). Þingmönnum mistókst að hafa mannréttindi allra að leiðarljósi og þrátt fyrir fögur orð um að skólinn sé fyrir alla og að stjórnarskrá tryggi trúfrelsi þá er ljóst að svo er ekki. Þrátt fyrir að eðlilegt sé að börn fái fræðslu um kristni þá ber námsefnið þess greinileg merki að ofuráhersla er á kristni á kostnað annarra lífsskoðana og hlutlaust, gagnrýnið og fræðilegt sjónarhorn skortir í námsefnið. Að auki hefur það viðgengist sums staðar í skólakerfinu að kenna börnum sálma og að fara með bænir sem er hrein trúariðkun. Farnar eru kirkjuferðir og eitthvað er um að skólasetning og/eða slit séu í kirkju og jafnvel að prestur sé hluti af athöfnum. Sett eru upp trúarleg leikrit og börnum gefin trúarrit.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg (MDES) felldi dóm þann 29. júní 2007 í máli norskra foreldra gegn norska ríkinu (Fölgerö ofl. gegn Noregi). Málatilbúningur hófst árið 1995 og var málið dómtekið 1997 og tapaðist það fyrir öllum dómsstigum Noregs þ.m.t. í hæstarétti. Nokkrir foreldrar skutu því fyrir Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem í áliti sínu þann 8. nóvember 2004 studdi málflutning foreldranna. Samtímis var málið rekið fyrir MDES sem felldi sinn dóm á síðasta ári foreldrum í vil.

Krafa foreldranna var að börn þeirra fengju fulla undanþágu frá kristinfræðikennslu þar sem hún bryti á rétti þeirra að ala börn sín eftir eigin lífsskoðun. Stefnt var vegna brota á 9. grein Mannréttindasáttmálans um Hugsana- samvisku- og trúfrelsi. Einnig var stefnt vegna brota á 14. grein sáttmálans um Bann við mismunun auk þess að stefnt var vegna brota á 8. grein um Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og að lokum var stefnt vegna brota á grein 2 í samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmálann en það er Rétturinn til menntunar. Dómstóllinn taldi ljóst að Norska ríkið hafi ekki tryggt að miðlun þekkingar í námsskrá hafi farið fram á hlutlægan, gagnrýnin hátt og í anda margbreytileika eins og lýst er í samningsviðaukanum. Því telur rétturinn að sú ákvörðun að neita foreldrum um fulla undanþágu frá kennslu brjóti gegn mannréttindum samkvæmt samningsviðaukanum en hann hljómar svo:

Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Rétturinn taldi það vera grundvallaratriði menntunar að virða rétt foreldra að hafa eigin trúarlega- og heimspekilega sannfæringu. Gildir fyrri málsgreinin hvort sem er fyrir ríkis- eða einkarekna skóla. Síðari málsgreinin  tryggir möguleika á margbreytileika (pluralism) í kennslu sem er grundvöllur lýðræðislegs samfélags. Grein 2 heimilar ekki að gerður sé mismunur á trúar- og lífsskoðunum. Greinin áleggur ríkinu þá kvöð að virða lífsskoðun foreldra í öllum sínum háttum varðandi menntun. Ekki aðeins gildir það v/innihalds kennsluefnis og kennslu heldur í öllum sínum skyldum gagnvart þegnum sínum. Að auki er í sömum lögum gerð krafa um að ríkisvaldið standi vörð um að kennsla sé hlutlæg, gagnrýnin og margbreytileg. Ríkisvaldinu er BANNAÐ (is forbidden)að innræta lífsskoðun þannig að ekki séu virtar trúarlegar- eða heimspekilegar skoðanir foreldra. Þar eru mörkin dregin.

Fimmtudaginn 9. október kl. 16:00 verður opinn fundur Siðmenntar um dóm Mannréttindadómstólsins frá  29. júní 2007.  Hann verður haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og mun Lorentz Stavrum, lögmaður foreldranna, rekja sögu og eðli dómsins.  Stavrum mun m.a  lýsa hvaða áhrif dómurinn hafði á lög og námsskrá í kristnum fræðum í Noregi.  Eftir erindi sitt mun Stavrum svara fyrirspurnum.  Erindi hans verður á ensku.

Vegna sambærilegrar stöðu á Íslandi og Noregi hvað varðar lög um grunnskóla og námsskrá í kristinfræðum er spurning hvort að yfirvöld menntamála á Íslandi verði að taka tillit til dómsins og breyta námsskrá og þ.a.l. námsefni.  Spurt er hvort Íslendingar þurfi að taka tillit til dómsins eða ekki?  Menntamálaráðherra hefur, í samtali við stjórnamenn Siðmenntar, lýst yfir að engar breytingar verði gerðar – þrátt fyrir dóminn.  Siðmennt hefur ítrekað bent yfirvöldum á að hlíta beri dómnum.

Bjarni Jónsson

Til baka í yfirlit