Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Gunnars Hersveins á BF 2007

Til hamingju með daginn. Ég ætla að biðja ykkur um að lifa ykkur inn í sögu eftir Tolkien. Ég mun ávarpa fermingarbörnin sem hringbera og aðstandendur þeirra sem föruneyti.

Hringadróttinssaga – The Lord of the Rings – eftir Tolkien er leiðarljós fyrir ungt fólk sem gengur í fullorðinna manna tölu. Hún lýsir ferðalaginu sem hefst þegar unga fólkið yfirgefur heimahéraðið. Og hún segir frá hlutverki föruneytis hringsins.


Hringberar þurfa að binda vonir sínar við eigin sálargáfur, hæfileika, dugnað, staðfestu, vilja og áhuga. Ykkur er trúað fyrir miklu og enn er óljóst hvort þið standist raunina. Föruneyti ykkar: nánustu aðstandendur, kennarar og vinir leggja ykkur lið svo þið verðið gott fólk. En munið: þið eru ævinlega þátttakendur í eigin sköpun. Þið eruð vonarberar framtíðarinnar.

Við þessi tímamót hefst nýtt ævintýri í tíðaranda sem streymir áfram og þið þurfið föruneyti sem gefur ráð og leiðbeiningar til að þið sjálf getið metið aðstæður og tekið gifturíkar ákvarðanir. Fylgdarfólk ykkar þarf að taka hlutverk sitt alvarlega og gæta þess að þið missið ekki vonina í aðgangshörðum heimi. Voðinn er vís þegar fylgdin sofnar á verðinum. Þá festir tíðarandinn brennandi auga sitt á ykkur – og miðlar skeytingarlausum áhrifum sínum.

Verkefni ykkar er það sama og í öllum ævintýrum: að læra að greina á milli góðs og ills – og sýna hugrekki, umhyggju og styrk til að velja.

Hlutverk föruneytis hringberanna er að vernda og efla en ekki að ofvernda eða dekra. Gefa hringberunum verkfæri til að takast á við þær hættur sem að steðja. Hlutverkið er ekki að banna eða hindra heldur að byggja upp innri varnir. Námið felst í því að temja hugann. Kenna ykkur að þekkja skemmd epli frá óskemmdum og efla með því gagnrýna skynsemi sem er skapandi og virk.

Hringberar þurfa að geta tjáð hugsanir sínar og skoðanir og læra að vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Föruneytið á æfa hringberana í að draga réttar ályktanir – en til að geta tekið rétta ákvörðun þarf þekkingu á þrennu: sjálfum sér, öðrum og aðstæðum.

Hringberar gera tilraunir á unglingsárum til að yfirgefa Heimahéraðið. Öryggið minnkar en það er ævintýri framundan. Sómi fylgir ykkur að heiman en einnig önnur dulin rödd sem hefur aðra sögu að segja. Efi læðist að um að veganestið sé nógu hollt. Aginn að heiman er góður en nú tekur við nýr tími sjálfsagans þar sem þið mótið ykkur sjálf með þýðingarmiklum ákvörðunum.

Ef föruneytin virða ekki hringberana getur það ekki heldur vænst virðingar þeirra. Sá sem vill njóta virðingar þarf fyrst að sýna öðrum virðingu, það á bæði við um einstaklinga sem þjóðir. Virðingin felst í því að hafa jafnmikinn áhuga á vellíðan annarra og sinni eigin og gera eitthvað til að svo megi verða.

Suma krákustíga er aðeins hægt að fara einn eða ein. En þegar fjallið er klifið og stígurinn stiginn þá finna hringberar heimamund í hjartanu og huganum og jafnvel í nestistöskunni. Þið skynjið ósýnilega förunauta ykkar og hlustið á þá. Þið beitið ykkur aga til að ganga veginn áfram í stað þess að ráfa um vegleysur.

Verkefnið á unglingsárum er viðamikið. Það er áskorun um að yfirgefa hreiðrið um stund, taka flugið og glíma við aðstæður. Í þessum ferðum vaknar innri spurning um hlutverk í heiminum. Föruneytið getur ekki sagt ykkur hvert hlutverkið er, þið þurfið að finna það sjálf og taka hlutverkið að ykkur. Velja, stíga fram og ganga inn í það. Föruneytið þekkir ekki allt ykkar innra líf. Aðeins þið sjálf getið numið ykkar innri rödd, vegið og metið í aðstæður. Svarið um hlutverkið finnst aðeins í spennunni milli sjálfsins og heimsins. Svarið liggur á milli þessara tveggja turna. Engin getur sagt ykkur frá erindi ykkar í heiminn, aðeins veitt vísbendingar – og eflt með ykkur innri varnir. Þið finnið erindi ykkar sjálf. Eftir á að hyggja mynduð þið ekki vilja hafa það öðruvísi.

Áður en þið haldið í eigin ferðir þarf föruneytið að gefa ykkur gjafir; vesti: gert af dverghögum höndum til að verjast þungum höggum. Sverð: til að verjast og sækja fram. Ljós: til að reka burt eitraðar hugsanir. Brauð: sem skemmist ekki. Sóma: sem fyllir ykkur hugrekki, gætni og skilningi á því að enginn geti borið byrðina fyrir ykkur, hversu þung sem hún reynist. Einhverjir geta þó ef til vill lyft undir með ykkur um stund eða lánað snæri til að feta sig um klettótt landslagið.

Á veginum mun efinn læðast að ykkur, en hann er gollragjöfin sem allir verða að þiggja. En eftir að hafa efast verður skyggnið betra.

Eftir að þið hafið stigið út úr síðasta hring æskunnar, snýst sjónarmiðið og leiðin liggur niður fjallið og um dalina. Fróðari snúið þið aftur með Sóma í hjarta.

Augnlokin mega ekki síga því Tíðarandinn snýr alltaf aftur. Samábyrgð ykkar felst í því að vilja standa vörð um þau gildi sem þið lærðið; jafngildi allra manna, virðingu fyrir einstaklingum, umhyggju og sáttfýsi. Þið viljið þroska með ykkur umhyggju fyrir öðrum og láta aðra finna að þið tilheyrið hver öðrum – og vitið að þessu verkefni lýkur aldrei!

Munið að jafnvel á fjallstoppnum eftir allt erfiðið getið þið hikað við að sinna erindi ykkar og ranglega snúist hugur. Þá getur sá ólíklegasti í föruneyti ykkar átt einhverju mikilvægu hlutverki að gegna. Safnið ekki aðeins jábræðrum í kringum ykkur!

Auga tíðarandans getur gripið hugann, en til að standast augnaráðið og vinna giftusamlega úr hughrifunum þarf gott veganesti og föruneyti.

Kæru hringberar, þið eruð fuglarnir sem syngja í dimmunni fyrir dögun
Góða ferð og megi föruneytið fylgja ykkur

Gunnar Hersveinn

Til baka í yfirlit