Fara á efnissvæði

Fyrir fermingarbörn

Ferming markar stór tímamót í lífi hvers og eins.

 

Hér getur þú, kæra fermingarbarn, kynnt þér af hverju við bjóðum þér upp á að fermast borgaralega, hvað þú munt læra á fermingarnámskeiði Siðmenntar og hvernig þú skráir þig í borgaralega fermingu.

Af hverju að fermast borgaralega?

Á flestum stöðum í heiminum er haldin athöfn þegar fólk fer úr því að vera börn yfir í að vera fullorðin.

 

Í aldanna rás hefur þessi athöfn á Íslandi snúist um að staðfesta skírnina sína – að segja að þú ætlir að halda áfram að trúa á guð út ævina. En heimurinn er að breytast mjög hratt og samfélög orðin fjölbreyttari og frjálsari.

Ekki allir unglingar trúa á guð eða eru tilbúnir til að taka svona stóra ákvörðun strax. Siðmennt vill bjóða ungmennum upp á að ganga í fullorðinna manna tölu án þess að það tengist trúarbrögðum eða öðrum skoðunum.

 

Borgaralega ferming felur í sér fermingarnámskeið og þegar námskeiðinu er lokið er hátíðleg fermingarathöfn.

Hvað læri ég í borgaralegri fermingarfræðslu?

Í borgaralegri fermingarfræðslu muntu fá tækifæri til þess að velta fyrir þér spurningum sem manneskjan hefur spurt sig að í mörgþúsund ár. Margar þessara spurninga snúast um þá ábyrgð sem fylgir því að vera fullorðin, en sumar snúast um lífið og tilveruna og hafa kannski ekkert eitt rétt svar. Dæmi um spurningar má finna hérna til hliðar.

Umræðuefnum námskeiðsins er skipt upp í fjóra hluta.

Fyrsti hluti fjallar um stofninn, samband okkar við grundvöll tilverunnar.

Annar hluti fjallar um sjálfið, samband okkar við okkur sjálf.

Þriðju hluti fjallar um samfélagið, sambandið okkar á milli.

Fjórði hluti fjallar um samhengi, samband okkar við náttúruna og umheiminn.

Hér fyrir neðan getur þú lesið nákvæmari lýsingar á hverjum hluta.

Af hverju erum við öll hér?

Hefur lífið tilgang?

Hvað er hamingja?

Hvernig öðlast ég sjálfstraust?

Hvað er kyngervi og kynhneigð?

Hvað finnst mér rétt?

Hvað finnst mér rangt?

Af hverju finnst mér eitthvað rétt og eitthvað annað rangt?

Hvernig finnst mér að samfélaginu eigi að vera stjórnað?

Hvernig vil ég koma fram við annað fólk, dýr og plánetuna okkar?

Meginstoðir húmanískrar fermingarfræðslu

Stofninn

Stofninn

 

Til að byrja námskeiðið með krafti fjöllum við um lífið sjálft! Í stofninum ræðum við það sem er ómögulegt að vita – tilgang lífsins og það hvernig heimurinn varð til. Þessar spurningar kallast oft frumspekilegar spurningar, því þetta eru spurningar sem fjalla um upphafi heimsins. Í stofninum gerum við okkur líka tilbúin til þess að læra um önnur flókin umræðuefni námskeiðsins með því að æfa okkur í gagnrýnni og sjálfstæðri hugsun. 

Sjálfið

 

Mikilvægasta sambandið okkar er sambandið við okkur sjálf. Í þessum hluta námskeiðsins vinnum við að því að styrkja sjálfsmyndina með leikjum og fræðslu. Við fáum til okkar kynfræðslu og jafningafræðslu og lærum um hinsegin málefni. Við veltum því fyrir okkur hvað raunverulegt sjálfstraust er og hvernig hægt sé að byggja það. Einnig pælum við í því hvaðan skoðanir okkar koma og hvað það er sem hefur áhrif á hugsunarháttinn okkar.

Samfélagið

 

Við búum í samfélagi, sem þýðir deilum heiminum með öðru fólki. Því fylgja margir kostir en það getur líka verið flókið og vakið upp margar spurningar. Í þriðja hluta námskeiðsins fjöllum við um þessar spurningar og ræðum hugtök á borð við réttlæti, frelsi, samfélagsmiðla og jafnrétti. Með þessari fræðslu fáið þið vonandi innsýn í það sem pólitík snýst um á skemmtilegan og áhugaverðan hátt.

Samhengið

 

Í seinasta hluta námskeiðsins fjöllum við um stóra samhengið: allan heiminn og hlutverk okkar í honum. Þar er margt sem hægt er að ræða en helst munum við fara yfir loftlagsmál, náttúruvernd og dýrasiðfræði. Markmiðið verður að við gerum okkur grein fyrir því hvernig við lítum á manneskjur sem þátttakendur í heiminum. Er allt í heiminum hér fyrir okkur til að nota? Eða erum við hluti af einhverju stærra kerfi sem við þurfum að bera meiri virðingu fyrir en við erum að gera nú þegar?