Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmenntarannáll 2020

Siðmenntarannáll 2020

Árið sem nú er að líða var húmanistum sannarlega áskorun eins og öðrum. Siðmennt átti þrítugsafmæli á árinu og í stað þess að sletta ærlega úr klaufunum eins og efni stóðu til, var fjarfundað úr sóttkví og fjargviðrast yfir upplýsingaóreiðunni sem var skipuleggjendum ferminganna til trafala. En þrátt fyrir þetta gerðist ýmislegt gott og hér verður farið yfir helstu þætti í starfi félagsins á árinu sem við kveðjum nú, ansi fegin yfir því að það sé að baki.

Blásið til Siðmenntarþings í fyrsta skipti

Í tilefni að þrjátíu ára afmæli félagsins var ákveðið að efna til Siðmenntarþings í fyrsta skipti, þar sem fram færi stefnumótun í bland við almenn aðalfundarstörf. Þingið fór fram á sal Garðyrkjufélags Íslands í Síðumúla og bar upp á afmælisdag félagsins; 15. febrúar. Jafnframt bauð félagið upp á málþingið „Má njóta níðinga?“ þar sem fjallað var um mörk listar og listamannsins og siðferðileg álitamál því tengd. Húsfyllir var á málþinginu og greinilegt að málefnið er mörgum hugleikið. Þá voru viðurkenningar félagsins veittar: Stígamót hlutu húmanistaviðurkenninguna og Rósa Björg Jónsdóttir, bókasafnsfræðingur og verkefnastjóri bókasafns Móðurmáls, hlaut fræðslu- og vísindaviðurkenningun. Um kvöldið var svo haldin fyrsta árshátíð félagsins með glæsibrag og þótti dagurinn takast vel til. Óvíst er hvort þetta fyrirkomulag sé komið til að vera; -endilega segið ykkar skoðun í athugasemdum!

Fermingar á faraldurstímum

Faraldurinn setti brag sinn á fermingarathafnirnar, sem áttu að fara fram á vormánuðum. Með örskömmum fyrirvara þurfti starfsfólkið okkar að færa athafnir, gera viðbragðsáætlanir og reyna að spá til um framtíðina, sem fáum hefur tekist. Til að setja ekki öll eggin í sömu körfu var boðið upp á athafnir í júní, ágúst og október, sem reyndist ágætis gisk á þróun faraldursins, en bæði tókst að halda athafnir á þjóðhátíðardaginn og í lok ágúst, sem stóð samt ansi tæpt. Októberathafnirnar gengu þó ekki upp, en foreldrar og fermingarbörn sýndu því mikinn skilning. Vonandi gengur vorið betur upp en starfsfólk Siðmenntar og kennsluráð sitja nú sveitt yfir skipulagningu á sveigjanlegri fermingarfræðslu sem jafnvel mun fara fram í fjarkennslu að einhverju leyti og yfirlegu á heppilegum dagsetningum fyrir athafnir.

Kennsluráð skipað

Umfang borgaralegrar fermingar hefur aukist mikið á síðustu árum, en nú sækja um 13% hvers árgangs fermingarfræðslu Siðmenntar. Fyrirkomulagi húmanískrar fermingarfræðslu var breytt í ár, þar sem sérstakt kennsluráð tók við af stöðu kennslustjóra. Ráðið hefur sett saman námskrá, undirbúið kennsluefni og séð um ráðningu og þjálfun nýrra leiðbeinenda. Í ráðinu sitja Unnur Hjaltadóttir, Stefanía Pálsdóttir, Karl Ólafur Hallbjörnsson og Sigurður Hólm Gunnarsson en verkefnastjóri borgaralegra ferminga, Heiðrún Arna Friðriksdóttir, starfar einnig með ráðinu. 

Upp með pennann!

Þá hafa fulltrúar félagsins stungið niður penna, hvort heldur sem er til að fjalla um veraldlegt samfélag og borgaralegar fermingar, svara greinum frá kirkjunnar fólki, deila okkar sýn á mál sem liggja fyrir Alþingi í formi umsagna eða til að minna á þjónustu Siðmenntar. 

Góðgerðamál

Stofnaður var sérstakur góðgerðasjóður til að bregðast við kórónuveirufaraldinum og einni milljón króna varið í að styðja við starfsemi sem á einhvern hátt aðstoðaði fólk við að takast á við heimsfaraldurinn. Kallað var eftir ábendingum frá félagsfólki og varð úr að Samtök um kvennaathvarf, PIETA samtökin og Andrými fengu stuðning.  Að auki studdi félagið við herferð Humanists International til að frelsa Mubarak Bala, sem situr í fangelsi í Nígeríu vegna húmanískra lífsskoðanna sinna og veitti einnig styrk í COVID-19-sjóð alþjóðasamtakanna. Þá bauð félagið upp á jólastund í neyðarskýlum Reykjavíkur, í anda listagjafarinnar, en markmiðið var að styðja við listafólk sem hefur orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu vegna faraldursins og færa þjónustuþegum neyðarskýlanna örlitla jólastemmingu. Félagið þakkar Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Svavari Knúti, Valdimar og Hljómsveitinni Evu fyrir samstarfið. 

Aukning í útförum

Útförum félagsins fjölgaði talsvert á árinu sem er að líða, úr 14 árið 2019 í 22 á þessu ári. Jafnframt bættust 8 athafnarstjórar í hóp þeirra athafnarstjóra sem sinna útförum og hafa flestir þeirra nú lokið þjálfun að mestu leyti. Öðrum athöfnum fækkaði í ár vegna COVID, en í upphafi árs stefndi í metár. Það verður fróðlegt að sjá hvernig árið 2021 spilast.

…og svo ýmislegt smálegt

Þá hefur ýmislegt annað drifið á daga félagsins á árinu. Fyrsta opna húsið var haldið í janúar, en yfirskrift þess var Frá vöggu til grafar. Arnar Snæberg, ötull athafnarstjóri félagsins, fjallaði um húmanískar nafngjafir og Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir fjallaði um Tré lífsins, frumkvöðlaverkefni um valmöguleika við lífslok. Maskína gerði svo könnun á lífsskoðunum Íslendinga fyrir hönd félagsins, en þar kemur skýrt fram að Íslendingar sætta sig ekki við óbreytt ástand þar sem ekki ríkir jafnræði á milli trúarskoðana. Félagið tók svo þátt í aprílgabbi Þjóðkirkjunnar, mörgum til mikillar skelfingar en fleirum til ómældrar ánægju. Í sumar héldum við svo fjölskylduhátíð í tilefni að afmæli félagsins, en boðið var upp á pylsur, töfra og hoppukastala á Klambratúni, einn góðviðrisdag í júní. Þá var jólahugvekja Siðmenntar á sínum stað á X-inu á aðfangadagskvöld, en í ár var það Tryggvi Gunnarsson, athafnarstjóri, sem fjallaði um vetrarsólstöður, epli og árið sem kemur aldrei aftur. Það er svo gaman að geta þess að nýr vefur félagsins mun líta dagsins ljós á fyrstu vikum ársins, en sú vinna hefur staðið yfir góðan part úr ári. 

Já, þrátt fyrir ófyrirsjáanlegar áskoranir hefur ýmislegt á daga okkar drifið. Við kveðjum árið 2020 og hlökkum yfir því að það komi aldrei aftur, en tökumst bjartsýn á við nýtt ár sem nú er handan við hornið. Félögum okkar færum við kveðjur, nú þegar sól hækkar í lofti og óskum þeim farsældar, ekki farsóttar, á komandi ári.

Með húmanískri kveðju,

Inga Auðbjörg K. Straumland,
formaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit