Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skýrsla formanns 26. febrúar 2008

Ýmislegt markvert átti sér stað á síðasta starfsári Siðmenntar. Félagið fékk nokkrar opinberar viðurkenningar, tók þátt í umræðum um aðskilnað skóla og kirkju auk þess sem Siðmennt hóf að veita nýja þjónustu. Störf Siðmenntar á síðasta ári virðast hafa fallið í góðan jarðveg hjá þjóðinni því félagsmönnum fjölgaði mjög mikið á þessum tíma.

 

Viðurkenningar

 

  1. Siðmennt hlaut viðurkenningu Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins í febrúar 2007 fyrir siðfræðikennslu og uppbyggingu borgaralegrar fermingar.
  2. Félagið hlaut hálfra miljón króna styrk frá Baugi Group og verður styrkurinn notaður til að efla starfsemi Siðmenntar. Þetta er í fyrsta sinn sem Siðmennt fær slíkan styrk frá einkaaðila.
  3. Siðmennt hlaut á árinu Alþjóðlegu Fríþenkjara verðlaun Atheist Alliance International. Verðlaunin voru veitt fyrir að styrkja samfélag fríþenkjara í heiminum með alþjóðlegu ráðstefnu okkar “Jákvæðar raddir trúleysis” í 2006. Það var Samfélag trúlausra eða SAMT sem er umræðuhópur innan Siðmenntar sem hlaut þessi verðlaun.

 

Aðskilnaður trúar og skóla.

 

Siðmennt hefur í mörg ár barist fyrir aðskilnaði trúar og skóla. Í gegnum árin hefur félagið fundað og sent formleg erindi til menntamálayfirvalda og bent á hvað betur mætti fara í opinberum skólum. Félagið hefur til að mynda gagnrýnt að trúboð eigi sér stað í opinberum skólum á Íslandi þrátt fyrir að það sé bannað samkvæmt leik- og grunnskólalögum. Trúaráróður í skólum gengur einnig í berhögg við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur samþykkt. Yfirvöld hafa hingað til falið sig á bak við það ákvæði í lögum að allt skólastarf skuli mótast af “kristilegu siðgæði”.

Í lok október fékk Siðmennt svarbréf frá Menntamálaráðuneytinu við fyrirspurn okkar um hvernig ráðuneytið hyggst bregðast við nýlegum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg gegn Norska ríkinu. En í dómnum er fjallað um mismunun ólíkra lífsskoðana í norskum grunnskólalögum. Í dómnum er framkvæmd kennslu í kristinfræði, trúarbragðafræði og heimsspeki sérstaklega gagnrýnd. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að Menntamálaráðherra væri að leggja fram breytingar á leik- og grunnskólalögum þar sem orðalagið „kristilegt siðgæði“ væri fellt úr lögunum. Í frumvarpinu um leikskóla kemur ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund barna. Í frumvarpi um grunnskóla er, í staðinn fyrir „kristilegt siðgæði“, fjallað um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildum. Að auki var gerð nokkur breyting á aðalnámskrá grunnskóla sem tók gildi 1. ágúst síðastliðinn. Í endurskoðaðri námskrá er lögð aukin áhersla á fræðslu um önnur trúarbrögð en kristni. Menntamálaráðuneytið sagðist vera að leitast við að koma til móts við mismunandi lífsskoðanir. Við lítum á þessar breytingar sem áfangasigur í áratuga baráttu okkar fyrir því að opinberir skólar séu veraldlegar stofnanir lausar við allan trúaráróður.

Síðastliðinn vetur mótmæltum við ásamt fleiri samtökum, Vinaleið Þjóðkirkjunnar í nokkrum grunnskólum. Félagar okkar skrifuðu margar greinar í blöðin og fóru í útvarps- og sjónvarpsviðtöl vegna málsins. Fulltrúar Siðmenntar tóku þátt í tveimur málþingum um Vinaleiðina. Stjórnarmenn í Siðmennt voru jafnframt, ásamt lögfræðingi félagsins, boðaðir á nokkra fundi með menntamálayfirvöldum til að útskýra sjónarmið Siðmenntar. Málflutningur Siðmenntar í Vinaleiðarmálinu varð til þess að félögum fjölgaði talsvert síðastliðinn vetur. Haustið 2007 hættu skólar í Garðabæ að bjóða uppá Vinaleiðina og óháð rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að slík trúarleg starfsemi ætti ekki heima innan veggja opinberra skóla. Þetta var einnig áfangasigur fyrir trúfrelsi og mannréttindi á Íslandi.

Umræðan um trúarlegt starf í skólum hélt áfram allt árið. Í nóvember lýstu menntamálayfirvöld því yfir að grunnskólar megi ekki lengur skipuleggja ferðir í tengslum við fermingarfræðslu Þjóðkirkjunnar á skólatíma. “Slíkt samræmist ekki aðalnámskrá eða grunnskólalögum” sagði í bréfi frá skrifstofustjóra menntamálaráðuneytisins. Siðmennt fagnaði þessari yfirlýsingu enda hefur félagið bent á þetta í mörg ár.

Ekki voru allir á eitt sáttir við umræddar breytingar á tengslum skóla og trúar. Málflutningur Siðmenntar mætti þannig töluverðri andstöðu og varð félagið fyrir ómaklegum árásum í fjölmiðlum. Mikið var um rangfærslur og útúrsnúninga um stefnu Siðmenntar í fjölmiðlum og ekki síst í bloggheimum. Erfitt reyndist að fá prentmiðlana til að birta áríðandi fréttatilkynningar okkar með leiðréttingum. Áróðurinn gegn Siðmennt náði nýjum hæðum þegar Karl Sigurbjörnsson, biskup þjóðkirkjunnar kallaði félagið „hatrömm samtök“ í dagblaði í nóvember og hvatti fólk til að risa upp gegn Siðmennt. Í kjölfar orða biskups fékk ég nokkur dónaleg hatursbréf og vægast sagt óviðeigandi símtöl og verð ég að viðurkenna að þessi orrahríð tók mikið á mig persónulega.

Siðmennt sendi biskupi bréf þar sem hann var beðinn um að leiðrétta, draga til baka og biðjast afsökunar á tilhæfulausum ummælum sínum. Skemmst er frá því að segja að hann varð ekki við þeirri ósk. Siðmennt og stuðningsaðilar víða í þjóðfélaginu héldu áfram að berjast fyrir því að ofangreint frumvarp fengi fram að ganga. Fulltrúar Siðmenntar fóru t.a.m. á fund Menntamálaráðherra til að ítreka stuðning sinn og leiðrétta um leið þær rangfærslur sem fram höfðu komið í fjölmiðlum um afstöðu Siðmenntar. Varaformaður félagsins Bjarni Jónsson, fór víða í viðtöl í fjölmiðlum og félagið keypti með dyggum stuðningi fjölda félagsmanna, heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu til að árétta stefnu Siðmenntar og stuðning við frumvarpið.

Þrátt fyrir háværar óánægjuraddir er ljóst að stór hluti landsmanna styður stefnu Siðmenntar í þessu máli. Gríðarleg aukning félagsmanna ber vitni um þennan stuðning. Um 22% fjölgun varð á fjölda félaga á einum mánuði og á árinu í heild fjölgaði félagsmönnum um 42% (um 80 manns). Þetta er langmesta fjölgun félagsmanna í 18 ára sögu félagsins. Félagsmenn eru nú nær þrjú hundruð talsins. Félagið hefur ekki staðið fyrir sérstöku átaki til að fá fólk til liðs við sig og því virðist sem málefnaleg og friðsöm barátta félagsins laði að sér æ fleira fólk sem hefur svipaðar lífsskoðanir.

Veraldleg athafnastjóraþjónusta – tímamót

Við erum að nálgast mjög stór tímamót í sögu félagsins. Með vorinu ætlum við að bjóða upp á þjónustu á öllum tímamótum í lífi fólks: nafngjöf, ferming, gifting og útför. Þessi draumur er loksins að verða að veruleika. Siðmennt tók snemma að sér að kynna fyrir fólki hvernig hægt er að standa að veraldlegum athöfnum. Fyrstu starfsárin var saminn bæklingur um borgaralega útför og fóru fróðir menn um lög og reglur gaumgæfilega yfir efni hans. Síðar gaf félagið út bækling um veraldlega nafngjöf til að leiðbeina þeim sem ekki láta skíra börn sín.

Í mars 2007 fékk félagið til sín reyndan athafnarstjóra (celebrant) frá systurfélagi okkar í Noregi og hélt hann námskeið fyrir lítinn hóp félaga sem vildu læra athafnarstjórnun við veraldlegar athafnir. Áhersla var lögð á að kunna góð skil á veraldlegum útförum. Þátttakendur voru nokkrir stjórnarmenn Siðmenntar og einnig fólk sem hefur verið fermingastjórar hjá okkur. Þetta var fagmannleg þjálfun og stórkostlegt að fá svona fræðslu ókeypis!

Útfarahópurinn kom saman nokkrum sinnum yfir sumarið. Þjálfun okkar var fylgt eftir í október með vel heppnuðu námskeiði í framsögn á texta og bundnu máli. Sigurður Skúlason leikari stjórnaði seinna námskeiðinu og er hann afbragðs kennari í þessu fagi enda að baki heil starfsævi við framsögn. Þetta námskeið verður hluti af þjálfunarprógrammi athafnarstjóra framtíðar. Við fengum einnig veglega gjöf frá British Humanist Association, úrval af handbókum um húmaníska nafngjöf, giftingar og útför.

Skipaður var umsjónarmaður (Svanur Sigurbjörnsson) með frekari þróun og uppbyggingu á athafnastjóraþjónustu fyrir Siðmennt haustið 2007 og fór hann til Englands á ráðstefnu um veraldlegar athafnir á vegum British Humanist Association og gaf stjórninni skýrslu um það. Siðmennt var boðið að skrifa kafla í bók um útfarasiði sem Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæmi er að gefa út í vor.

Frá og með vorinu 2008 stendur til að félagið bjóði uppá athafnastjórnun við veraldlegar eða húmanískar nafngjafir, giftingar og útfarir. Sá ánægjulegi viðburður átti sér stað í september 2007 að fyrsta veraldlega giftingin var haldin á vegum félagsins undir umsjón Jóhanns Björnssonar athafnastjóra Siðmenntar. Brúðurin fermdist borgaralega á sínum tíma og er félagi í Siðmennt. Parið gifti sig hjá sýslumanni hálftíma á undan athöfn Siðmenntar.

Nú síðastliðið ár er félagið að hverfa frá því að nota lýsinguna borgaraleg um afhafnir félagsins, að fermingunum undanskildnum. Ástæðan er sú að t.d. borgaraleg gifting á betur við um þær athafnir sem sýslumenn framkvæma og er lagalegs eðlis. Það á betur við að nota orðin veraldleg (secular) eða húmanísk í þessum tilgangi. Orðið veraldlegur þýðir einfaldlega „án trúar eða aðskilin frá trú“ en húmanískur gefur til kynna meiri áherslu á húmanísk gildi og á því sérstaklega við um athafnir fyrir félagsmenn Siðmenntar.

Ákveðið hefur verið að félagsmenn munu greiða aðeins lágmarksgjald fyrir þessar nýju veraldlegu athafnir.

 

Bætt þjónusta

 

Frá stofnun félagsins gaf stjórnin út fréttabréf á prentuðu formi nokkrum sinnum á ári allt þar til í febrúar 2003. Kostnaðurinn var þá orðin mjög hár og urðum við að hætta því. Við vissum að stór meirihluti félaga var kominn með netföng og höfðum við áhuga á að senda rafræn fréttabréf í staðinn. En verkefnum okkar fjölgaði og var erfitt að sinna þeim öllum í sjálfboðavinnu. Við reyndum að byggja upp öfluga heimasíðu til að brúa bilið þangað til við gátum hafið fréttabréfsútgáfu á ný. Við höfum haft áhuga á að safna öllum netföngum í mörg ár en ekki getað sinnt því fyrr en nýlega. Með fjárhagsstyrki frá Baugi var ákveðið að gera tilraun, á vegum Siðmenntar, með að hafa tvo starfsmenn á launum til þess að sinna ákveðnum verkefnum til þess að efla þjónustu okkar. Sigurður Hólm Gunnarsson hefur verið að endurhanna og byggja upp vefsíðu félagsins sem er gríðarlega stórt verkefni. Svanur Sigurbjörnsson hefur verið að hringja út til félagsmanna og safna netföngum og í október tók hann að sér að semja og senda rafræn fréttabréf Siðmenntar nokkrum sinnum á ári. Við teljum þetta mikilvægt framtak til að bæta þjónustu og efla upplýsingaflæði til félagsmanna. Eitt helsta verkefni Svans er þó að undirbúa kynningu á athafnastjórnun félagsins.

 

Barátta fyrir jafnri stöðu lífsskoðunafélaga

 

Siðmennt er enn og aftur að berjast fyrir að fá jafna stöðu við trúfélög eins og systursamtök okkar víða erlendis hafa lengi verið með. Dómsmál okkar gegn ríkisstjórn Íslands var í undirbúningi þegar við urðum svo óheppin að missa þriðja lögfræðing okkar á jafn mörgum árum af óviðráðanlegum orsökum. Við höfum ákveðið að fara “lobbýismaleiðina” einu sinn enn fyrst það er komin ný ríkisstjórn síðan við gerðum þetta síðast. Helst viljum við fá lög um skráð lífsskoðunafélög sem mun tryggja sömu lagalega og fjárhagslega réttindi og trúfélög. Þannig gætu félagar í Siðmennt látið “sóknargjöldin” renna til Siðmenntar og þá gætum við þróað og eflt þjónustu okkar til muna.

 

Erlendir gestir

 

Siðmennt fær árlega nokkra gesti sem heimsækja stjórnina og/eða SAMT fundi. Frægasti gestur síðasta árs var Maryam Namazie mannréttindafrumöður frá Íran. Hún starfar hjá British Humanist Association og er formaður Félags fyrrverandi Múslima í Bretlandi. Við skipulögðum tvo mjög vel sótta opinbera fyrirlestra í byrjun september í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Skeptikus og Kvenréttindafélag Íslands. Maryam talaði um pólitiskt Íslam og algild mannréttindi. Hún kom fram í fjölmiðlum, vakti mikla athygli og varð mikil umræða um málflutning hennar í þjóðfélaginu. Þetta var mikilvægt skréf fyrir Siðmennt bæði vegna þess samstarfs sem félagið byggði upp við áðurnefndar stofnanir og þá orðstírsuppbyggingu sem fylgdi í kjölfarið og einnig vegna þess að við viljum vera þekkt fyrir tengsl okkar við mannréttindamál. Einnig var haldinn fámennari fundur með Maryam og nokkrum félögum í Siðmennt um athafnastjórnun og reynslu British Humanist Association af þjálfun athafnastjóra.

 

Fastir liðir

 

SAMT grillveislan var haldinn í Heiðmörk eins og venjulega á sumrin og mættu 30 manns. Stjórnarmenn og nokkrir félagsmenn komu fram í fjölmiðlum allt árið, bæði hér á Íslandi og í erlendum fjölmiðlum. Mjög margir skrifuðu greinar í fjölmiðla. Sænska félagið Humanisterna birti forsíðuviðtal við mig. Jóhann Björnsson var í útvarpsviðtali á Rás 1, í þættinum “Laufskálinn” um Borgaralega fermingu. Ég var í útvarpsviðtal hjá Felix Bergssyni á Rás 2 um Siðmennt, Borgaralega fermingu og trúfrelsi. Viðtal var við Sigurð Hólm Gunnarsson í Viðskiptablaðinu. Í júlí tóku Dan Barker og Annie Laurie Gaylor (Þessi hjón eru bæði forsetar Freedom From Religion Foundation í BNA) viðtal við mig í vikulega útvarpsþætti þeirra í Bandaríkjunum sem heitir Freethought Radio. Bjarni Jónsson kom fram nokkrum sinnum í útvarpi, sjónvarpi og blöðunum á meðan deilan um trúarlega starfsemi í skólum stóð sem hæst í lok nóvember og byrjun desember. Einnig hélt ég kynningu á Siðmennt hjá MultiKulti. Fjórir stjórnarmenn kynntu húmanisma og Siðmennt fyrir trúfræðsluhóp í Laugarneskirkju í boði Séra Bjarna Karlssonar í janúar.

Siðmennt fær yfirleitt nokkra nýja meðlimi í hvert skipti sem við fáum tækifæri til að kynna félagið. Þess má geta að ritstjóri “24 Stunda” hefur boðið Siðmennt að senda inn 8-10 greinar í greinaröð til að kynna sögu húmanisma og afstöðu húmanista til ýmissa málefna. Þetta er í vinnslu.

Í janúar 2008 fór ég á opnunarráðstefnu Center for Inquiry í London.

Borgaraleg ferming er haldin í tuttugasta sinn í ár. Síðan 2006 fáum við alltaf rúmlega 100 ungmenni árlega og bjóðum við upp á fimm námskeið plús fjarnám og tvær glæsilegar athafnir. Í tilefni þessa 20 ára afmælis Borgaralegrar fermingar á Íslandi, höfðum við samband við nokkra þátttakendur úr allra fyrsta BF hópnum og báðum þá um að lýsa því hvaða áhrif borgaraleg ferming hefði haft á þá. Voru þessar lýsingar svo notaðar í undirbúningsnámskeiðinu í ár.

Konsúllinn hjá sendiráði Bandaríkjanna tók langt viðtal við mig vegna árlegrar skýrslu sem bandaríska ríkið semur um trúfrelsi og mannréttindi í hverju landi fyrir sig. Sérstaklega var spurt um Vinaleið, jafna stöðu lífsskoðunarfélaga, og samráð trúfélaga og hvers vegna Siðmennt sé ekki í því. Hann sagði að það væri áhyggjuefni hvernig kristinfræði sé háttað í íslenska skólakerfinu, og að það virðist jaðra við mannréttindabrot.

Í nóvember veitti Siðmennt í þriðja skipti húmanistaverðlaun sín fyrir störf að mannréttindum og í anda húmanisma. Í þetta skiptið veitti Siðmennt Tatjönu Latinovic viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf og sjálfboðastarf við málefni sem snerta mannréttindi, kvennréttindi og innflytjendamál. Athöfn var haldin Tatjönu til heiðurs þar sem ég flutti stutt ávarp og afhenti Tatjönu viðurkenningaskjöld og færði henni tvær bækur auk þess sem Hörður Torfason flutti tvö lög.

 

Lokaorð

 

Það eru góðir tímar framundan fyrir Siðmennt og stjórn félagsins er bjartsýn á að komandi ár muni verði farsælt og þjónusta þess muni vaxa og veita mörgum dýrmætar stundir.

 

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit