Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Yfirlýsing frá Siðmennt vegna fyrirhugaðrar byggingar mosku í Reykjavík

Vegna umræðu undanfarna daga um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á lóð fyrir mosku, bænahúss múslima, vill stjórn Siðmenntar taka eftirfarandi fram:

1. Siðmennt styður fullt trúfrelsi og fjölbreytilegt samfélag.

2. Umsókn trúfélags múslima um byggingu mosku í Reykjavík hefur verið að velkjast í borgarkerfinu í vel á annan áratug og verður að teljast einstakt afrek að ekki hafi tekist að afgreiða beiðni þeirra á skemmri tíma. Siðmennt fagnar því að loks sér fyrir endann á þrautargöngu aðstandenda umsóknarinnar. Í lýðræðissamfélagi er lágmark að öllum lífsskoðunum sé gert jafn hátt undir höfði.

3. Siðmennt telur þó að það sé ekki hlutverk opinberra aðila, það er ríkis og sveitarfélaga, að úthluta ókeypis lóðum fyrir trúar- og lífsskoðunarfélög. Stjórn Siðmenntar er almennt þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi ekki að skipta sér að trú- og lífsskoðunum fólks nema með því að tryggja trúfrelsi.

Siðmennt hvetur því sveitarfélög og ríkið eindregið til að hætta að verja skattpeningum og almannagæðum í rekstur trúfélaga. Siðmennt telur að það sé hlutverk félagsmanna að standa straum af slíkum kostnaði.

Þess skal getið að Siðmennt, sem er skráð lífsskoðunarfélag, hefur ekki og mun ekki leita til ríkis eða sveitarfélaga um lóðir eða fjármagn til þess að byggja hús undir starfssemi félagsins.

Til baka í yfirlit