Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Stjórn Heimilis og skóla ályktar um vinaleið

Stórn Heimilis og skóla hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem samtökin svara skólanefndum Álftaness, Garðabæjar og Mosfellsbæjar um þjónustuna Vinaleið.

Í fréttatilkynningunni segir m.a.

„Með tilliti til jafnræðissjónarmiða og með vísan í 2. grein grunnskólalaga, telur stjórn Heimilis og skóla eðlilegra að til framtíðar standi sálgæsluþjónusta Þjóðkirkjunnar börnum og forsvarsmönnum þeirra til boða utan húsakynna skóla, eftir að skóladegi lýkur.“


FRÉTTATILKYNNING

Viðbrögð stjórnar Heimilis og skóla við svörum skólanefnda Álftaness, Garðabæjar og Mosfellsbæjar um þjónustuna Vinaleið.

Þann 11. nóvember 2006 sendi stjórn Heimilis og skóla erindi til skólanefndar Álftaness, Garðabæjar og Mosfellsbæjar um fyrirkomulag Vinaleiðar í viðkomandi sveitarfélögum. Skemmst er frá því að segja að það tók skólanefndirnar rúma tvo mánuði að svara erindinu en þess var óskað að svör bærust innan hálfs mánaðar enda mikil umræða um þjónustuna í samfélaginu. Í ljósi þeirra svara sem stjórninni bárust vill hún koma eftirfarandi á framfæri:

Umræðan sem þjónustan Vinaleið hefur skapað í samfélaginu kallar á að sveitarfélög taki af öll tvímæli um hvers eðlis þjónusta í skóla eigi að vera og á hvers vegum. Stjórn Heimilis og skóla telur nauðsynlegt að sveitarfélög í fullu samráði við hagsmunaaðila marki sér almennar starfsreglur og taki sameiginlega ákvörðun um tilboð um viðbótarþjónustu sem alla jafna er ekki hluti af hefðbundnu skólastarfi eða stoðþjónustu, s.s. kostun á einhverju verkefni eða þjónustu eins og Vinaleið.

Stjórn Heimilis og skóla telur enga ástæðu til að ætla að tilgangur með þjónustu Vinaleiðar sé trúboð í skólum. Þeim misskilningi þarf að eyða í hugum starfsmanna skóla, foreldra og annarra í samfélaginu. Að sama skapi hefði í upphafi átt að gera forsjármönnum barna með skýrum hætti ljóst að um valkvæða þjónustu er að ræða og að þeir gætu tekið ákvörðun um að segja barn sitt frá þjónustunni.

Vinaleið er hugsuð sem stuðningur við börn en ekki meðferðarúrræði. Á sama tíma og það er mikilvægt að tala ekki niður stuðning við börn telur stjórn Heimilis og skóla brýnt að sveitarfélög endurskoði almennt stoðþjónustu skóla og þörf barna og forsvarsmanna þeirra fyrir slíka þjónustu. Ætla má að í einhverjum tilfellum hafi Vinaleið komið í staðinn fyrir aðra sérfræðiþjónustu en ekki er ljóst hvort þeir sem sinna henni hafi til þess tilskilda menntun sbr. reglugerð um sérfræðiþjónustu í skólum.

Grunnskóla er ætlað að stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers barns. Mikilvægt er að friður ríki á hverjum tíma um þá þjónustu sem býðst innan skólans. Með tilliti til jafnræðissjónarmiða og með vísan í 2. grein grunnskólalaga, telur stjórn Heimilis og skóla eðlilegra að til framtíðar standi sálgæsluþjónusta Þjóðkirkjunnar börnum og forsvarsmönnum þeirra til boða utan húsakynna skóla, eftir að skóladegi lýkur.

F.h. stjórnar Heimilis og skóla
María Kristín Gylfadóttir, formaður

Til baka í yfirlit