Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðmennt styður afnám laga um guðlast

Siðmennt styður frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940,
með síðari breytingum (guðlast).

Félagið sendi Alþingi eftirfarandi umsögn þann 19. febrúar 2015

___

Siðmennt styður framlagt frumvarp til laga um almenn hegningarlög (guðlast).

Í bréfi sem Siðmennt sendi þingmönnum 16. október 2014 segir meðal annars orðrétt:

„9. Lagt er til að 125 gr. í lögum nr. 19/1940 verði afnumin en sú grein fjallar um guðlast

Lögin eru óþörf og óviðeigandi. Þau hefta tjáningar- og skoðunarfrelsi fólks. Í könnun sem Pew Research Centre gerði árið 2012 kemur fram að lög gegn guðlasti eru í tæpum fjórðungi ríkja heims og sérstök lög sem banna fólki að skipta um trú (apostasy) eru í 11% ríkja.

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út árið 2012 „Rabat aðgerðaráætlunina“ (Rabat plan of Action) um bann við hatursorðræðu á grundvelli þjóðernis, kynþátta eða trúarlegs haturs sem hvetur til mismununar, óvildar eða ofbeldis. Þar er hvatt til þess að lög eða lagaákvæði um guðlast verði afnumin.

Oft eru ríki þar sem skortur er á lýðræði og frelsi gagnrýnd fyrir að refsa fólki fyrir guðlast og þá jafnvel með dauðadómi. Þegar þessi ríki eru gagnrýnd benda talsmenn þeirra oft, réttilega, á að sambærileg lög séu einnig í gildi í „vestrænum“ lýðræðisríkjum. Því eru það mikilvægt skilaboð til umheimsins að afnema lög um guðlast á Íslandi. Ríki sem beita slíkum lögum með alvarlegum afleiðingum eiga ekki að geta bent til að mynda á Ísland og sagt að svona sé þetta nú líka þar.“

Afnám 125. greinar laga nr. 19/1940 er því í fullu samræmi við stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum.

___

Til baka í yfirlit