Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Kristínar Elvu Viðarsdóttur við borgaralega fermingu á Akureyri, 5. júní 2021

Ræða Kristínar Elvu Viðarsdóttur við borgaralega fermingu á Akureyri, 5. júní 2021

Kristín Elva Viðarsdóttir hélt ræðu við borgaralega fermingu á Akureyri þann 5. júní 2021. Kristín er sálfræðingur hefur víðtæka reynslu af því að vinna með börnum og unglingum. Hún er einnig stundakennari við Háskólann á Akureyri.

 

Til hamingju með daginn, fallegur og stór dagur! 

Mikið er ég glöð að fá að standa hérna og óska ykkur til hamingju með þennan áfanga í lífinu og deila honum með ykkur. Ég heiti Stína og ég er barna- og unglingasálfræðingur. Ég vinn sem sagt við það að tala við börn og unglinga allan daginn… og starfið mitt er besta starf í heimi, því þið– þið eruð mögnuð. Ég er því mjög þakklát fyrir að fá að segja nokkur orð hér í dag. Þakklát fyrir að fá að koma með heilræði – sem sagt ráð fyrir ykkur inn í framtíðina. Því þið standið svo sannarlega á tímamótum og framtíðin blasir við ykkur.

En af hverju ferming? – það er vel þess virði að minna sig á það núna, í dag… því þið eruð jú að fermast. Markmiðið er að styrkja sjálfsmynd ykkar, metnað og uppbyggilegt hugarfar. Við þurfum að rækta með okkur ábyrgðarkennd á eigin velferð og þeirra sem eru í kringum okkur. Sem sagt að muna að við sjálf getum haft með það að gera hvernig okkur gengur í lífinu og hvernig okkur líður. Við eigum því að hugsa um okkur sjálf og aðra í kringum okkur. 

Við þurfum líka að spá í hvað gefur lífinu gildi, hvað vil ég fá út úr lífinu – það er þessi stóra spurning „í hverju felst lífshamingjan?“ Sálfræðingar hafa rannsakað hjá eldra fólki, þegar það hugsar til baka – hvað það hefði helst viljað fá út úr lífinu. Svarið er – að það hafi upplifað að það væri hamingjusamt! Það er margt sem við sjálf getum gert til að auka líkurnar á því að við verðum hamingjusöm í lífinu. Í raun er tvennt sem skiptir miklu máli  – annað er að vita það og muna alltaf eftir því að það er í lagi að vera öðruvísi. Það er í lagi að skera sig úr fjöldanum, að t.d. hafa aðrar skoðanir en margir, að líta öðruvísi út, að klæða sig eins og maður sjálfur vill, að trúa því sem maður vill, að vera skotin í þeim sem maður vill af hvaða kyni sem er o.s.frv. 

Hitt – tengist þessu – en það er að vera trúr sjálfum sér og öðrum. Að vera heiðarlegur í samskiptum og segja alltaf satt og rétt. Það er þess virði að rifja upp þessi gildi hér í dag á þessum stóra degi. Það hefur líka verið sýnt fram á með rannsóknum að það eru margir litlir hlutir sem við getum gert sem geta aukið líkurnar á því að við verðum hamingjusöm. 

Eitt er t.d. að sýna þakklæti. Ef við tökum okkur smá stund á hverju kvöldi til að þakka fyrir eitthvað þá eru auknar líkur á að við verðum aðeins hamingjusamari. Stundum má þakka fyrir það sama dag eftir dag en svo er kannski eitthvað sérstakt sem gerðist þann og þann daginn sem við erum þakklát fyrir. Ég þakka t.d. alltaf fyrir foreldra mína, dásamlegu konuna mína, börnin okkar og fjölskyldu en ég mun líka þakka fyrir þessa stund með ykkur, í kvöld þegar ég fer að sofa.

Við eigum að vera dugleg að hrósa – það gefur okkur lífshamingju. Við getum hrósað vinum okkar, eða bara sagt takk fyrir daginn við þá sem við vorum með þann og þann daginn og þá erum við að hrósa viðkomandi, kannski fyrir það að vera skemmtilegur eða bara fyrir að vera til staðar. 

Við þurfum líka stundum að vera dugleg að fylgjast með því hvað við erum að hugsa. Einhverjum snillingnum út í heimi tókst að finna það út að við erum með 70þúsund hugsanir á dag. 70þúsund hugsar kannski einhver núna! Það er slatti. Og við sálfræðingar vitum að það sem við hugsum – það hefur áhrif á hvernig okkur líður. Ef við hugsum að við séum leiðinleg eða að við getum ekki eitthvað þá líður okkur ekki vel. Við eigum frekar að tala fallega til okkar – að vera með jákvætt sjálfstal – og reglan er! Hlustið nú! Það sem við myndum ekki segja við bestu vinkonu okkar eða besta vin – það segjum við heldur ekki um okkur sjálf. 

Við eigum sem sagt að vera góð við okkur sjálf líka. Það er þannig – að ef við föðmum einhvern í 20 sekúndur þá myndast hormón sem seitlar út í líkamann og gerir að verkum að okkur líður aðeins betur. Það heitir oxytósin og það er oft kallað vellíðunarhormónið. Það sem er líka svo gott í þessu er að við getum faðmað okkur sjálf. Við gerum það með því að leggja höndina á hjartað okkar – og eftir 20 sekúndur fer þetta sama hormón að myndast og seitla út í líkamann. 

Við verðum líka að passa að hreyfa okkur reglulega, hvernig sem við viljum gera það, borða hollt og passa upp á svefninn okkar. 

Stundum verðum við hrædd í lífinu. Hrædd við að gera hluti, við þorum ekki. Ég skora á ykkur, ekki sleppa einhverju af því þið eruð hrædd. Ekki vera í menntaskóla og sleppa því að sækja um að komast í gettu betur liðið, svo dæmi sé tekið. Verið hugrökk, sýnið þor. Stundum verðum við það hrædd að það er eins og fárviðri geysi með miklum stormi. En við sem eldri erum vitum að stormurinn varir ekki að eilífu og það þarf að standa hann af sér. Við vitum líka að til að standa storm af sér er oft gott að standa með einhverjum sem heldur í mann þannig að maður fjúki ekki. Vinátta er gríðarlega mikilvæg – á öllum ævistigum en aldrei jafn mikilvæg eins og á unglingsárunum. Að rækta vináttu skiptir öllu máli.

Ég ætla þá að enda á orðum Steingríms Arasonar sem er löngu dáinn en var frumkvöðull í menntamálum á Íslandi og uppeldissálfræðingur. Hann flutti þetta ávarp til nemenda sinna þegar þau voru að útskrifast úr skóla, ungt fólk eins og þið á tímamótum. Þetta hét andleg erfðaskrá til íslensku þjóðarinnar:

Reynið að temja ykkur að sjá allt með ástaraugum. Reynið að hugsa aðeins ástríkar hugsanir. Reynið að tala aðeins elskurík orð. Til þess þarf árvekni, mikla gætni og getu til að setja sig í spor annarra, því að skilja er að fyrirgefa. Takist þetta, vera straumhvörf í lífi ykkar. Það verður fullt af hamingju og gleði. Þá verðið þið langtum heilbrigðari, því elskan er heilsugjafi. Ástúð er mönnum eðlileg. Takist þetta verðið þið líka langtum fallegri, því ólund, óvild og hræðsla gera menn súra á svipinn og gamla fyrir aldur fram. Með kærleiksríkum huga getum við haldið áfram vera ung, hve oft sem jörðin hringsólast frá fæðingu okkar. Þetta er leyndardómur lífsins, eins óbrigðull og hann er einfaldur og þúsund sinnum þýðingarmeiri en það sem við sækjumst venjulegast eftir.

Til hamingju elsku þið öll og takk fyrir mig

Til baka í yfirlit