Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðfræðikennsla í rúm 20 ár

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 1. maí.

Í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að efla hlut gagnrýnnar hugsunar og siðfræði í skólum landsins og samfélaginu almennt. Svo sannarlega er kominn tími til og sætir það furðu hversu yfirvöld menntamála hafa sofið á verðinum alla tíð. Ekki eru þetta þó nýjar uppgötvanir fyrir alla. Frá árinu 1989 hefur Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi lagt megináherslu á kennslu siðfræði og gagnrýnnar hugsunar á undirbúningsnámskeiðum sínum fyrir borgaralega fermingu, en alls hafa tæplega 1500 ungmenni sótt námskeið Siðmenntar. Siðmennt hefur margoft bent yfirvöldum menntamála á mikilvægi gagnrýnnar hugsunar og siðfræði í skólastarfi en því miður iðulega talað fyrir daufum eyrum ráðamanna. Einnig hefur félagið margoft komið með ábendingar um það sem betur má fara og lítur beinlínis að mannréttindum.

 

Fyrir rúmu ári síðan sendi félagið erindi til menntamálaráðherra þar sem ráðherrann er hvattur til þess að grípa til aðgerða til að rétta hlut þeirra fjöldskyldna sem beittar eru ranglæti í skólum landsins vegna trúar- eða lífsskoðana sinna. Skólastjórnendur virðast mega gera nánast hvað sem er í skólum landsins án þess að nokkur gagnrýnin hugsun komi þar nærri og án þess að yfirvöld menntamála hafi á því nokkra skoðun. Eflaust kallast þetta í ráðuneytinu frelsi eða sjálfstæði skóla, en er í raun ekkert annað en skeytingarleysi gangvart því sem erlendis hefur verið talið til mannréttindamála. Þetta er sambærileg vitleysa og viðgekkst á milli stjórnvalda og fjármálaheimsins þar sem frelsi þýddi í raun ekkert annað en skeytingarleysi. Staðfesting á slíku skeytingarleysi af hálfu ráðuneytisins um starfsemi skólanna barst síðan félaginu sem svar við erindinu sem áður er greint frá, en þar segir m.a. að dregist hafi að svara erindinu vegna anna. Mannréttindamálin frestast vegna anna í heilt ár! Og svo er talað um skort á siðferðilegri ábyrgð á Íslandi. Hverjar eru fyrirmyndirnar ef ekki stjórnvöld á hverjum tíma?

Ég lýsi eftir pólitískri ábyrgð, siðferðilegum heilindum gagnvart þeim sem í hlut eiga og ríkari áhuga á mannréttindamálum í ráðuneyti menntamála í stað skeytingarleysis.

Jóhann Björnsson, stjórnarmaður í Siðmennt.

Til baka í yfirlit