Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Veðurblíða í Vatnsmýrinni

Veðrið lék viðgesti alþjóðlegrar ráðstefnu Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, sem bar yfirskriftina What are the Ethical Questions of the 21st Century? og fór fram í Öskju, Háskóla Íslands, 1. júní 2019. Ráðstefnan skiptist í fjóra hluta;

Umhverfi

Framsaga: Auður Önnu Magnúsdóttir, Siân Berry, Guðbjörg R. Jóhannesdóttir

Flóttafólk

Framsaga: Þórunn Ólafsdóttir, Wilfried Buchhorn, Íris Björg Kristjánsdóttir

Efnahagslegt óréttlæti

Framsaga: Guðmundur Ævar Oddsson, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Polly Toynbee

Lýðræði

Framsaga: Jón Ólafsson, Torbjörn Tännsjö, Brian Klaas

Vissulega mikilvæg viðfangsefni, en vísast ómögulegt að afgreiða á einum degi. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, vakti mikla lukku með kankvísi sinni.
Myndræn fundarritun: Elín Elísabet

Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Alþjóðasamtök Húmanista og Evrópusamtök Húmanista en bæði samtökin halda aðalfundi sína á Íslandi þessa sömu helgi. Sú hefð hefur skapast í alþjóðlegu samstarfi húmanista að þau samtök sem hýsa aðalfundina hverju sinni bjóði samhliða upp á alþjóðlega ráðstefnu.

Guðni fór með sjómannasálm

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson setti ráðstefnuna og mun þetta vera í fyrsta skipti í sögunni sem þjóðhöfðingi ávarpar slíka ráðstefnu. Guðni fór víða í setningarræðu sinni; vísaði jafnt í bíómyndir og Íslendingasögur, og tvinnaði á skemmtilega hátt saman inntak söguþráðar hinnar sígildu Being there við sögu kristnitöku á Íslandi. Í hugleiðingu um tengsl trúar, sögu og samfélags skemmti hann húmoristum í salnum með því að fara með brot úr gömlum sjómannasálmi. Svaraði ekki beint spurningum um eigið innra trúarlíf en lýsti yfir samúð með sjónarmiðum þeirra sem aðskilja vilja ríki og kirkju. Guðni óskaði ráðstefnugestum jafnframt þess að enda daginn full vonar; vonar um bjarta framtíð, betri tíð, blóm í haga og að allt verði einhverntímann gott. Hope Knútsson, stofnandi Siðmenntar á Íslandi og frumkvöðull í félagsstarfi húmanista hér á landi tekur undir það.

Auður Önnu spurði fundargesti hvort þeir hefðu kolefnisjafnað ferðalög sín til Íslands.

Lífkerfið sjálft er undir

Í erindum morgunsins voru hugtökin samúð og skilningur einmitt lykilorð í framsögum allra. Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umhverfinu og í honum fluttu erindi þær Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar, Siân Berry í forystu græningja í Englandi og Wales og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir doktor í umhverfisheimspeki. Þær nálguðust viðfangsefnið úr afar ólíkum áttum.

Sian Berry er samleiðtogi Græningja í Bretlandi og hefur sterkar skoðanir á umhverfismálum.

Í erindi Auðar kom fram að GDP (verg landsframleiðsla) er ónýtur mælikvarði sem þjónar einungis fámennum hagmunahópum, sem þar að auki hafa allt of greiðan aðgang að stjórnkerfinu. Auður vill hætta að tala um vonina en grípa til aðgerða ekki síðar en strax.

Siân segir umhverfismálin kjarna allra annarra siðferðilegra mála og finnur styrk í afli ungs fólks sem stígur sterkar fram með hverjum deginum og krefst aðgerða. Þeirra framtíð sé í húfi og Siân segir ábyrgð ungra stjórnmálamanna á borð við hana sjálf vera gríðarlega.

Guðbjörg fjallaði um tilfinningalegt samband sitt við jökulinn.

Hún segir þörf á víðari sýn og stærra samhengi; við verðum að hætta að blekkja okkur með því að við séum raunverulega að gera eitthvað með því að halda áfram að gera vonda hluti, bara aðeins hægar. Almenningur er sorgmæddur yfir einstaka tegundum í útrýmingarhættu en virðist ekki skilja að lífkerfið sjálft er undir og þar með líf okkar sjálfra. Hún segir þörf á kerfisbreytingu og þar komi kjósendur og almenningur inn og beri ábyrgð; fólk verði að velja sér leiðtoga sem hafa hugrekki og sýn til að takast á við vandann.

Sýn Guðbjargar á viðfangsefnið er áhugaverð og af öðrum toga. Hún leggur áherslu á að hluti vandans felist í þeim tengslarofum sem orðið hafa á milli manns og náttúru og þess vegna skynjum við ekki tengslin á milli afkomu jarðarinnar og okkar sjálfra. Eflum við tengslin við náttúruna á ný lærum við aftur að tileinka okkur þau nauðsynlegu mörk sem við verðum að setja okkur í umgengni um hana og lærum að finna til með náttúrunni á ný.

Þórunn Ólafsdóttir heimsótti Lesbos og hefur í kjölfarið helgað líf sitt flóttafólki.

Falskar upplýsingar mesta ógnin

Afdrifarík heimsókn Þórunnar Ólafsdóttur til Lesbos árið 2015 kom til af einskærri forvitni. Hún var forvitin um stöðu mála og hugðist jafnvel skrifa grein. En hún endaði með að gera miklu meira en það. Við lendingu á Lesbos vék hún sér að fyrsta manni og spurði hvað hún gæti gert til aðstoðar og var send heim til þorpsbúa að smyrja samlokur. Hráefni var af skornum skammti og þegar samlokurnar voru tilbúnar var þeim dreift til valinna því ekki var nóg fyrir alla. Hún áttaði sig fljótt á því að þótt fréttir af flóttamönnum á Lesbos væru frekar nýlegar hafði straumur þeirra legið miklu lengur til Lesbos. Að hennar mati er ein mesta hættan falin í ónæmi okkar hinna gagnvart vandanum; við lítum á flóttafólk sem ógn þótt mesta ógnin í samskiptum okkar við þau stafi í raun af okkur sjálfum. Flóttamannakrísan er tilbúningur stjórnmálanna en þó er hvorki kerfinu einu né stjórnmálamönnum um að kenna því við verðum að byrja á sjálfum okkur, til dæmis með því að kjósa aðra stjórnmálamenn til valda eða einfaldlega sýna fólki samúð og hlýju. Mesta ógn fólks á flótta eru falskar upplýsingar og mikilvægast af öllu er að senda fólki þau skilaboð að það sé velkomið. Möo. mennskan er mikilvæg og tengingar milli fólks.

Wilfried Buchhorn starfar fyrir UNHCR – Alþjóðaflóttamannastofnunina

Við verðum að átta okkur á því að í hverfulum heimi vitum við ekki nema við sjálf verðum á flótta á morgun; skilaboð Þórunnar eru einföld: Lesið greinarnar, hlustir á frásagnir, trúið fólki! Verjið fólk, standið með fólki, ekki flýja samtalið, við berum ábyrgð á umræðunni. Það eina sem flóttafólk biður um er að fá að lifa og búa í friði. Eitthvað sem okkur finnst flestum sjálfsagt.

Wilfried fjallaði um aðferðafræði Sameinuðu þjóðanna og markmið þeirra, sem felst fyrst og fremst í því að sjá fólki á flótta fyrir aðstoð og vernd, vettvangi til skoðanaskipta og þar sem það á möguleika á að finna öryggi. Hann bendir á að undanfarin ár hafi öll met verið slegin í fjölda þeirra sem eru á flótta í heiminum, og nú sé áætlaður fjöldi flóttamanna 25 milljónir, helmingur hverra enn á barnsaldri. Í raun sé flóttamannavandinn jafnframt staðbundin krísa því um 57% þeirra koma frá einungis þremur löndum; Afganistan, Sómalíu og Sýrlandi og 10 lönd hafi veitt 80% fólks á flótta skjól. Pólitískur vilji sé allt sem þarf og ljóst er að yrði brugðist við ástandinu í þessum löndum hefði það gríðarleg áhrif til bóta. Wilfried leggur áherslu á hættuna sem stafar af auknum popúlistískum áhrifum; fólk á flótta sé ekki ógn í sjálfu sér heldur einfaldlega einstaklingar í leit að öryggi og frelsi sem þurfa að fá tækifæri til að verða hluti af samfélaginu. Það sé á okkar ábyrgð að gera þeim það kleift, meðal annars með því að sýna því virðingu og umhyggju.

Íris Björn starfar í Tyrklandi og vinnur verkefni sem valdeflir kvenkyns flóttafólk.

Íris tekur undir með bæði Þórunni og Wilfried og ítrekar mikilvægi samúðar og skilnings. Fólk á flótta sé einmitt það; fólk! og einn stærsti vandinn sé almennur skortur á samkennd(), skilningi og þekkingu á reynslu og aðstæðum annarra. Skortur á einingu á milli landa um hvernig bregðast skuli við aðstæðum, bæti ekki úr skák, efnahagslegar aðstæður hafi of þungt vægi í samhengi við mannhelgi og -virðingu og séu beinlínis metnar á röngum forsendum. Að hennar mati þarf að gera þá sem taka ákvarðanir og setja lög ábyrga fram í tímann fyrir mögulegum afleiðingum ákvarðana sinna og stuðla að stefnumótun og ákvarðanatökum sem byggjast á mannskilningi frekar en hagskilningi. Íris gefur að auki lítið fyrir meintan menningarlegan mun sem ástæður vandans; sá munur sé oftar en ekki ýktur og beinlínis rangur og það ofmat jafnvel í sjálfu sér ástæða árekstra frekar en munurinn sjálfur. Við erum öll fólk og það sem meira er; sögur af fólki hafa áhrif á ákvarðanatökur í stjórnkerfunum. Mikilvægi þess að tala og tengja og upplýsa er því gríðarlegt í málefnum flóttafólks.

Samhljómur var í málflutningi Þórunnar, Wilfrieds og Írisar og sú hugmynd að samkennd, skilningur, tengsl, nánd og breyttir mælikvarðar séu í kjarna þeirra aðgerða sem nauðsynlegt er að grípa til í baráttunni gegn flóttamannavandanum, sem séu jafnframt grundvallaraðgerðir til að takast á við hamfarahlýnun.

Guðmundur Ævar vill að fólki rísi upp og heimti sanngjarnari skiptingu auðs.

Heimspeki peninganna stuðlar að óréttlæti

Guðmundur Ævar útskýrir muninn á efnahagslegu óréttlæti annar vegar og efnahagslegum ójöfnuði hins vegar. Guðmundur nefnir þrjú lykilatriði sem hafa áhrif á líf og lífsgæði einstaklingsins;

  • Hvar fæðist hann?
  • Hvenær fæðist hann?
  • Hverra manna er hann (eða inn í hvaða aðstæður fæðist hann)?

Allt tal um að einstaklingurinn sé sjálfskapaður og dugnaður og gjörvileiki hvers og eins ráði mestu um farsæld hans, velgengi og aðstæður í lífinu sé ofureinföldun, því ofangreint hafi óhjákvæmilega áhrif og það sé auðvelt að skilja hvernig. Það er ljóst að síaukin misskipting heimsins gæða sé ósanngjörn og ekki stóra meirihlutanum í hag. Brögð séu í tafli og fólk verður að rísa upp og heimta breytingar til að af þeim verði en hætta að halla sér að mýtum um að fólk verðskuldi ólíka hlut og uppskeru.

Eyja Margrét fjallaði um verðleikasamfélagið og heimspeki peninganna.

Eyja Margrét tekur undir með Guðmundi og segir sannarlega brögð í tafli og fólki sé talin trú um að samfélagið sé sanngjarnt, sem það sé ekki. Í hinu svokallaða verðleikasamfélagi (meritocracy) ráði heimspeki peninganna sem stuðlar að óréttlæti. Við erum þjálfuð í því að meta fólk eftir því sem við köllum gæði og heftur verið ákveðið fyrir okkur að teljist til gæða og að þeir sem eru góðir eða betri en aðrir á einhvern hátt, eigi þar af leiðandi betra skilið. Þessi hugmynd gerir ekki ráð fyrir ólíkum aðstæðum einstaklinganna, ólíkum möguleikum og upplagi og er fyrir vikið ósanngjörn í sjálfu sér. Það sem gerir stöðuna enn flóknari er sú staðreynd að við erum alin upp við þessa hugmynd, burtséð frá þeim gæðum sem við búum yfir eða fæðumst við, og erum því öll haldin ranghugmyndum um á hverju okkar eigið og annarra ágæti grundvallast og hvað við verðskuldum í lífinu. Hugmyndin dregur tennurnar úr fólki í baráttunni fyrir betra og sanngjarnara samfélagi. Mælikvarðarnir eru takmarkaðir og taka ekki til greina gæði og verðmæti af ólíkum toga. Grunnhugmyndin um að einhver geti talist betri eða verri en annar er röng og hefur ekkert með hæfileika okkar að gera og ólíkt upplag. Hún getur aldrei orðið neins konar grunnur að mati á virði manneskjunnar því allar manneskjur eru jafnar í sjálfu sér.

Polly Toynbee rakti ferlið fram að Brexit.

Polly segir gestum ráðstefnunnar frá Brexit og gerir heiðarlega tilraun til að útskýra hvað í ósköpunum gerðist eiginlega í heimalandi hennar í aðdraganda Brexit. Hún segir ástandið hafa leitt í ljós þvílíkt gap sé á milli stétta í landinu; meira menntaðir íbúar þéttbýlis hafi kosið gegn samningnum en minna menntaðir íbúar strjálbýlis með; skortur á upplýsingum og getunni til að meðtaka upplýsingar eigi því umtalsverða sök í málinu. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem unga kynslóðin sé verr sett en foreldrar hennar voru á sama aldri; einungis 25% fólks undir 25 ára er flutt að heiman og aðeins ⅓ hefur sambærilegar tekjur og foreldrar þeirra höfðu á sama aldri. Bilið á milli stétta hafi aldrei verið meira áberandi og aukinn ójöfnuður skapi verra samfélag og verri líðan, fleiri glæpi, hærri sjúkdómatíðni, minni hamingju fyrir alla íbúa samfélagsins, ekki aðeins þá verr stöddu. Þessi ójöfnuður muni jafnframt hafa miklar afleiðingar fyrir umhverfið og hamfarahlýnun, því það geri mannkyni erfiðara fyrir í að sameinast í baráttunni. Að mati Polly er nauðsynlegt að endurskipuleggja hvernig auðnum er útdeild sem og endurmeta virði alls.

Jón Ólafsson er hræddur um að popúlisminn gangi að lýðræðinu dauðu.

Lýðræðið krefst raunhæfrar skynjunar á veruleikanum

Samkvæmt því sem fram kom í máli Jóns Ólafssonar stendur lýðræðið frammi fyrir fjölmörgum siðferðilegum áskorunum, með populisma fremstan í broddi fylkingar. Hann veltir þeim möguleika upp að popúlisminn geti hreinlega gengið af lýðræðinu dauðu. En, popúlískar hugmyndir eru ekki sjálfsprottnar; þær eru viðbragð við ástandi í samfélaginu, einhverju sem ekki virkar. Jón segir frá grunnhugmyndum í frjálslyndisstefnu (liberalism); um að sannleikur, rökhyggja, regla og samkvæmni séu lykilatriði; að samræður skuli byggja á rökum ekki tilfinningu, traust ríki á kerfum samfélagsins og vald sé skilgreint og skýr mörk sett. Andfrjálslyndi(anti-liberalism) boðar sannleika sem leggur áherslu á heildina ekki smáatriði, ástríður og tilfinningar eru í forgrunni og hugmyndin um afætuna sterk. Tortryggni ríkir í garð ríkjandi kerfa og takmarkanir valds mikilvægari en að fara með það.

Torbjörn Tännsjö sér fyrir sér heimsþjóðastjórn sem lausn á áskorunum plánetunnar.

Torbjörn setur fram hugmynd um að einhverskonar þjóðastjórn sé fýsilegur kostur í því skyni að ná tökum á hamfarahlýnun, flóttamannavandanum og vaxandi lýðræðiskrísum heimsins. Ógnin við tilvist mannskyns sé sameiginleg ógn okkar allra og henni verði einungis mætt með sameiginlegu kerfi okkar allra, helst með styrkar stoðir í lýðræðinu. Að mati Torbjörns er þessi nálgun ekki bara hagkvæm heldur beinlínis best til þess fallin að binda endi á stríð, koma á reglu í heiminum og skapa sjálfbær samfélög. Í framhjáhlaupi bendir hann á þá augljósu staðreynd að komi til útrýmingar mannkyns verði fáir eftir til að kvarta.

Brian Klaas hefur áhyggjur af því að kjósendur séu ekki lengur óupplýstir, heldur rangt upplýstir.

Lokaerindið er flutt af Brian Klaas sem bendir á að fólk um allan heim berjist fyrir að skapa sér sanngjörn lífsskilyrði og strangt til tekið séu Evrópubúar með þeirra sem hafa það best. Að mati Brians eru stjórnkerfi heimsins að verða sífellt takmarkaðri og strangari (authoritarian), óupplýstum kjósendum hefur verið skipt út af fyrir kjósendur sem mataðir hafa verið á röngum upplýsingum sem sé lýðræðislegri umræðu margfalt hættulegri – auk þess sem bilið milli fylkinga breikkar stöðugt. Lýðræði krefst raunhæfrar skynjunar á veruleikanum og það er ógnvekjandi til þess að hugsa að eftir því sem fólk er yngra metur það mikilvægi þess að búa við lýðræði minna. Skilningur kynslóðanna er ólíkur, byggir á á ólíkri reynslu. Framtíð lýðræðis felst í að virkja fleiri, gera fleiri ábyrga, takast á um hugmyndir, miðla og deila. Brian vísar að lokum í Churchill og fræg ummæli hans um að lýðræðið sé afleitt stjórnarfyrirkomulag en samt það langskásta.

Í lok ráðstefnunnar var Sævari Helga Bragasyni veitt Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar fyrir störf sín í þágu umhverfismála, barnafræðslu og vísindahyggju og nemendum Hagaskóla veitt Húmanistaviðurkenning Siðmenntar fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum í tengslum við mál Zainab Safari og fjölskyldu hennar. Nánar er fjallað um veitingu viðurkenninga í sérstakri frétt.

Myndræn fundarritun: Elín Elísabet

Til baka í yfirlit