Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Erindi Siðmenntar á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar

Ágæti stjórnandi og aðrir fundarmenn.

Ég heiti Bjarni Jónsson og er fulltrúi Siðmenntar. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta framtak að fá að hafa möguleika til þess að hafa áhrif á störf stjórnarskránefndar með því annarsvegar að senda henni erindi um afstöðu til ýmissa ákvæða stjórnarskrárinnar og hinsvegar með því að fá að taka þátt í slíkri ráðstefnu sem fram fer í dag.


Þó svo að í skipunarbréfi stjórnarskránefndar sé tilteknir ákveðnir kaflar í stjórnarskránni sem nefndin eigi að endurskoða er ekkert sem mælir gegn því að aðrar greinar verði settar undir sama hatt. Að mati Siðmenntar eru ákveðin atriði í stjórnarskránni sem brjóta gegn lýðræðishugsun, trúfrelsi og jafnræðsireglu og mun ég fara yfir þau mál hér með hliðsjón af erindi Siðmenntar.

Húmanismi – lífsskoðun
Fyrst af öllu mun ég fjalla um lífsskoðun. Við í Siðmennt, félagi um siðrænan húmanisma, höfum krafist þess að húmanisminn njóti sömu réttinda og aðrar lífsskoðanir. Til lífsskoðanna teljast t.d. trúarskoðanir. Benda má á að Human Etisk Förbund í Noregi er næst stærsta skráða lífsskoðunarfélagið þar í landi á eftir þjóðkirkjunni með um 70.000 félagsmenn. Í Evrópu er ekki skilið á milli lífsskoðanna eins og tíðkast hér á landi. Lagalega og í umræðunni hér á landi er eingöngu til trúarskoðun – húmanismi er þar ekki nefndur né rætt um lífsskoðun.

Ég vil benda á að í umræðu um mannréttindi í Evrópu er sérstaklega til þess tekið að lífsskoðanir sem byggja á heimsspeki, eins og húmanisminn gerir, hafi jafna stöðu á við trúarskoðanir.

Húmanisminn á rætur sínar að rekja aftur til Upplýsingarinnar og reyndar má rekja sögu hans aftur til forn-grísku heimspekinganna. Það voru húmanistar sem voru fremstir í flokki þeirra er kynntu nýjar skoðanir fyrir almenningi – oft á tíðum óþægilegar staðreyndir sem kollvörpuðu eldri kenningum. Vísindin öðluðust smá saman þann sess sem þeim ber og farið var að setja spurningarmerki við viðteknar venjur og skoðanir. Jörðin hætti að vera flöt og í miðju alheimsins. Kenningar Darwins, Newtons og fleiri mætra manna breyttu heimssýn fólks.

Siðmennt er félag sem stefnir að því að fjalla um sömu siðferðismál og bjóða sömu félagslegu þjónustu og trúfélög, með þeirri undantekningu að félagið boðar ekki trú á æðri máttarvöld.

Siðmennt fjallar um lífið, umhverfið og siðferði og vill bjóða upp á
borgaralegar útgáfur af helstu athöfnum manna þ.e. giftingu, nafngiftum, fermingu og greftrun.

Siðmennt telur það því ekki samræmast mannréttindum og jafnræðisreglu að ríkið styðji og styrki sérstaklega öll lífsskoðanafélög NEMA þau aðhyllast ekki æðri máttarvöld.

Ef ég dreg saman meginstefnu siðrænna húmanista í eina setningu gæti hún verið þessi:

Húmanismi er mannúðarstefna sem styður fjölmenningu og lýðræði og byggir á gagnrýnni hugsun en afneitar “æðri yfirnáttúrulegum máttarvöldum”.

Mannréttindi – trúfrelsi
Ástæða þess að ég ræði hér um lífsskoðanir er að mati Siðmenntar er ekki einungis lífsskoðunum/trúarskoðunum gert mishátt undir höfði á Íslandi heldur er þegnum landsins mismunað eftir lífsskoðunum. Ég skal rökstyðja það nánar:

Krafa Siðmenntar um aðskilnað ríkis og kirkju um niðurfellingu á 62. grein stjórnarskrárinnar, en hún kveður á um ríkiskirkju, er krafa um trúfrelsi í upplýstu þjóðfélagi. Það samrýmist ekki viðhorfum vorra tíma til lýðræðis og mannréttinda að sumir skul vera jafnari en aðrir. Ísland er í hópi ríkja sem hafa ríkistrú en mörg þeirra hafa einnig trúræði í stað lýðræði án þess þó að ég haldi því fram að slíkt sé ríkjandi hér á landi.

62. greinin stangast einfaldega á við 63. greinina sem ætti máli samkvæmt að tilheyra mannréttindakafla stjórnarskrárinnar þ.e. VII kafla hennar. 63. greinin kveður á um grundvallar mannréttindi okkar, þ.e. trúfrelsi.

Mismunun þegnanna
Siðmennt hefur í tvígang sótt um skráningu sem lífsskoðunarfélag en verið hafnað í bæði skiptin á grundvelli laga um skráningu trúfélaga. Þrátt fyrir ákveðna bragarbót í mannréttindaátt, sem gerð var við endurskoðun laganna fyrir nokkurm árum virðist öðrum en trúfélögum ekki mögulegt að fá slíka skráningu. Við teljum að hér sé okkur stórlega mismunað.

Í þriðju málsgrein 64. greinar stjórnarskrárinnar er þeim gert, sem standa utan trúfélaga, að greiða til Háskóla Íslands. Siðmennt telur að þar sé gróflega brotið á janfræðisreglu stjórnarskrárinnar. Siðmennt krefst þess einnig að þeir sem kjósa að standa utan allra lífsskoðunarfélaga þurfi ekki að greiða nein sóknargjöld. Það er lýðræðislegur réttur þeirra.

Siðmennt telur því að um brotið sé á trúfrelsiákvæði og að félögum sem skráðir eru í Siðmennt sé mismunað samanborið við aðrar lífsskoðanir. Við teljum að brotið sé á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Krafa Siðmenntar er að staða lífsskoðanna verði jöfnuð.

Hugtökin mismunun og jafnrétti eru náskyld en mismunun er afleiðing þess þegar brotið er gegn grundvallarreglunni um jafnrétti. Þegar fyllsta réttlætis er gætt er farið með sambærilegum hætti með sambærileg tilvik en af því leiðir einnig að fara skuli með ólíkum hætti með ólík tilvik. Þetta þýðir einfaldlega að öll lífsskoðunarfélög skuli meðhöndluð á líkan hátt.

Þetta er staðfest í 14. grein Mannréttindasáttmála Evrópu auk þess sem 65. grein stjórnarskrárinnar – þ.e. jafnræðisreglan staðfestir það einnig.

Siðmennt mun leita allra leiða til þess að ná jafnri stöðu á við önnur lífsskoðunarfélög. Verði stöðunni ekki breytt með lögum á næstu misserum mun félagið leita til dómsstóla með mál sitt og fá úr því skorið.

Mér hefur verið tíðrætt um lífsskoðunarfélög og lagt að jöfnu Siðmennt sem byggir gildi sín á heimsspeki við trúfélög. Til fróðleiks ætla ég að dreifa til ykkar lögum nr. 25 frá 1969, með síðari tíma breytingum, frá Noregi. Þau heita á norsku: “Lov om tilskott til livssynssamfunn” eða í lauslegri þýðingu: “Lög um framlög til lífsskoðunarfélaga”. Þessi lög eru sambærileg við íslensku lögin “Lög um sóknargjöld” nr. 91 frá 1987. Í Noregi eru sértök lög til um hefðbundin trúfélög annars vegar og lífsskoðanafélög hins vegar. Í þessum lögum er tryggt að lífsskoðanafélög eins og Human Etisk Forbund, sem er systurfélag Siðmenntar, hafi sömu réttindi og hefðbundin trúfélög sem vísa til æðri máttarvalda. Norðmönnum er því umhugað um að mismuna fólki ekki eftir því hverrar lífsskoðana það er.

Í íslensku lögunum er nánast eingöngu talað um trúfélög og reyndar Háskóla Íslands en aldrei getið lífsskoðunarfélaga! Lögin um sóknargjöld eru meingölluð og þurfa á gagngerri endurskoðuna að halda.

Að lokum
Ég vil hvetja meðlimi stjórnarskrárnefndar til þess að stíga skrefið í átt til fulls trúfelsis og lýðræðis með því að leggja til aðskilnað ríkis og kirkju. Þjóðin er tilbúinn í slíkar breytingar, það sýna viðhorfskannanir svo glögglega. Ráðamenn þjóðarinnar sjá vonandi heiður sinn í því að bæta enn frekar okkar mæta þjóðfélag með ákvörðun um aukið jafnrétti lífsskoðana.

Takk fyrir mig!

Flutt á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar þann 11. júní 2005 á Hótel Loftleiðum.

Bjarni Jónsson

Til baka í yfirlit