Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2016 á Akureyri – ræða

Ræða sem Odda Júlía Snorradóttir, menntaskólanemi, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Hofi á Akureyri 28. maí 2016.

Kæru fermingarbörn, aðstandendur, starfsfólk siðmenntar og aðrir góðir gestir, ég heiti Odda Júlía og vil óska ykkur öllum innilega til hamingju með daginn.

Þegar þið flottu fermingarbörn ákváðuð að fermast ekki hjá þjóðkirkjunni tókuð þið stóra ákvörðun, en það mætti segja að ákvörðunin um að fermast borgaralega hafi verið enn stærri. Þið munuð reglulega vera spurð hvers vegna þið tókuð þessa ákvörðun, ekki bara núna heldur oft á komandi árum. Ég er allavega ennþá spurð hvers vegna ég fermdi mig á þennan veg og hvað borgaraleg ferming sé eiginlega?

Þegar þú fermist hjá kirkjunni, staðfestir þú trú þína á krist. En orðið ferming þýðir einmitt staðfesting. Hvað var það sem að ég staðfesti fyrir fimm árum þegar að ég fermdist og hvað er það sem að þið eruð staðfesta hér og nú?

Nú færi ég ykkur eina tillögu að svari.

Með minni borgaralegu fermingu staðfesti ég trú mína á síbætanlegu samfélagi og gaf það loforð að nýta hvert tækifæri til þess að bæta samfélagið, að vera fyrirmynda borgari. Það að vera hluti af samfélagi færir okkur bæði réttindi og skyldur. Þú hefur rétt til þess að iðka þá trú sem þú kýst, til þess að ganga í skóla, til þess hafa þínar eigin skoðanir og tjá þær. Þó þarft þú að gæta þess að þú skerðir ekki frelsi annara til að njóta sömu réttinda. Skyldurnar geta aftur á móti verið öllu flóknari, en þær þurfa ekki að vera það, þú getur tamið þér ákveðinn hugsunarhátt, ákveðin lífsstíl, til þess að auðvelda sjálfum þér að uppfylla þær.

Einstaklingar sem að bæta samfélagið gera það á jafn misjafnan hátt og þeir eru margir. Það eru vissi gildi sem þó standa uppúr og eru jafnvel nauðsynleg. Ef samfélag okkar á að ganga upp og virka er til dæmis nauðsynlegt að bera virðingu fyrir náunganum og það er ekki bara virðing fyrir öðrum manneskjum sem skiptir máli heldur virðing fyrir allri plánetunni. Virðing fyrir umhverfinu, dýrum og öllu lífríkinu er jafn mikilvægt. Ég ætla ekki að halda áróðursræðu um mikilvægi þess að flokka þó það sé bæði mikilvægt og kúl en við verðum auðvitað að huga að umhverfi okkar til að geta bæði ræktað okkur sjálf og samfélagið.

Í samskiptum, sama hvort þau séu jákvæð eða í leiðinlegri dúr, þá er gríðarlega gott og hollt að geta hlustað á sjónarmið annara og tekið tillit til þeirra sama þó þú sért alveg ósammála. Það er nefnilega ekki samasem merki á milli þess að virða skoðanir fólks og að vera sammála því.
Við höfum öll lent í því að vinur okkar eða vinkona er til dæmis í ljótri peysu. Kannski í horgrænni flíshettupeysu með neongulum ermum eða ferlega hallærislegri jólapeysu með afmynduðum jólasveini. Einhverri sem er a.m.k. alveg úr takt við okkar eigin tískuhugmyndir. En við segjum samt ekki neitt, það gæti sært vin okkar og auðvitað hefur vinur okkar rétt á að hafa sinn eiginn stíl rétt eins og við.

Að sama skapi ber okkur ekki skylda til að virða allar skoðanir sem við heyrum jafnvel þó við virðum fólkið sem hefur þessar skoðanir.
Skoðanir eins og: Allir múslímar eru hryðjuverkamenn er til dæmis alls ekki skoðanir sem á að virða.
Við verðum að geta verið gagnrýnin í hugsun til þess að benda á fordómafullar skoðanir eða viðmót sem eru hatursfull í garð hópa eða einstaklinga. En þá er fræðsla miklu sniðugri tæki í stað þess að fordæma og skamma. Tökum sem dæmi fólk sem segist ekki fíla femínisma en hefur ekkert á móti jafnrétti kynjanna, þeir einstaklingar hafa þarna ranga mynd af hugmyndafræði femínista. Þá er miklu sniðugra að útskýra fyrir þeim að mál femínista snúist einmitt um jafnrétti kynjanna frekar en að kalla þá vitlausa eða hneykslast.

Þannig er það líka þegar við mótum okkar skoðanir. Sumt leiðum við hjá okkur en annað situr eftir. Það er margt sem hefur áhrif. Hvort sem við erum að tala um fjölskylduna, vinina, skólann, fjölmiðla eða einfaldlega þann sem við erum skotin í. Við söfnum upplýsingum, heyrum mismunandi sjónarmið og skoðanir, lærum og öðlumst reynslu og sköpum síðan úr þessum hrærigraut eigin hugmyndir og sjónarmið. Það er óhjákvæmilegt að verða fyrir einhverjum áhrifum þó við megum ekki trúa á og samþykkja þau í blindni. Við verðum þó að muna að okkur getur skjátlast og við verðum líka að vera opin fyrir nýjum rökum og hugmyndum.

Þetta snýst svo mikið um að treysta á eigin dómgreind. Vega og meta aðstæður og geta brugðist tiltölulega rétt við hverju sinni. En þó við bregðumst ekki rétt við, sem kemur fyrir alla einhvern tímann á lífsleiðinni, þá verðum við að geta tekið ábyrgð á
gjörðum okkar.

Nú hafið þið fengið einhvern grunn í siðfræði, og eflaust glímt við einhverjar snúnar klípusögur, ef til vill voru þær líka mis ýktar. Raunin er sú að við lendum í ýmsum klípum í þessu hversdagslega lífi okkar, kannski ekki eins hádramatískum og þeim sem þið lásuð, en klípum engu að síður. Tökum dæmi úr skólanum, það er hópavinna í íslensku og þú ert sett eða settur í hóp með bekkjafélaga þínum. Þið hafið tvo daga til að leysa verkefnið og á fyrsta degi missir bekkjafélagi þinn nákominn ættingja og þann seinni fer hann í jarðaför. Þú endar á því að vinna allt verkefnið að mestu leiti ein eða einn. Þegar kennarinn lætur ykkur hafa jafningjamat getur þú ekki ákveðið hvort að þú eigir að segja kennaranum að þú hafir gert verkefnið einn eða ljúga og segja ekki frá.

Ykkur finndist þetta ef til vill auðveldari spurning ef bekkjarfélaginn hefði ekki gert neitt því hann var í tetris allan tímann. En málin eru nefnilega ekki alltaf svo einföld. Með þessu má tildæmis sýna að veröldin er ekki svört og hvít, er í lagið að segja í vissum aðstæðu ekki sannleikan? en þetta kennir okkur líka að þekkja og þroska okkar sjálf og eigið siðferði. Það er einmitt það sem þið þurfið að gera á næstu árum, að einhverju leiti mun þetta gerast sjálfkrafa en það er gott að hafa það í huga og temja sér strax góð gildi. Gildi á borð við ást, umhyggju, sanngirni, réttlæti, virðingu og gjafmildi og þar fram eftir götunum.

Allt þetta á eftir að nýtast ykkur í framtíðinni og ég er ekki bara að tala um lengst í burtu „þegar ég verð gömul og hrukkótt” framtíðinni eða þegar þið eruð komin með vinnu og börn og farin að hafa áhyggjur af sköttum og lánum. Þetta nám sem ég hóf hefur veitt mér forskot í hinum ýmsu fögum í skólanum nú þegar, og ég er sko unglamb.
Já með þessu skírteini sem þið takið við í dag gefið þið einskonar loforð um að vera

fyrirmynda borgarar fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu og leggja ykkar af mörkum, taka þátt í samfélagsumræðum, kosningum og því sem gerir samfélagið að því sem það er, bætir það og gefur því lit.

Já kæru fermingarbörn og já ég leyfi mér að kalla ykkur börn, því að það eru jú ennþá nokkrar mínútur áður en að þið verðið tekin í fullorðinnamanna tölu ég hef alla trú á að þið munuð bera út þann boðskap sem að þið hafið fengið í ykkar fræðslu og standa ykkur vel, verða með sanni fyrirmynda borgarar.

Odda Júlía Snorradóttir

Til baka í yfirlit