Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fjórði húmaníski bloggarinn myrtur í Bangladess

Enn berast fregnir af aföku vígasveita íslamista í Bangladess á fólki sem berst fyrir trúfrelsi. Bloggarinn, trúleysinginn og húmanistinn Niloy Chowdhury Neel var myrtur en hann fannst á heimili sínu og hafði verið hálshöggvinn og búið að höggva af honum hendurnar.

Neel er fjórði trúlausi bloggarinn sem myrtur hefur verið á þessu ári vegna skoðana sinna en hann var forystumaður í samtökunum Science and Rationalist Association og þátttakandi í blogghópi húmanista og trúleysingja sem vilja trúfrelsi og að tjáningarfrelsi sé virt. Húmanistar og aðrir trúleysingjar lifa í stöðugum ótta um líf sitt. Vegið er harkalega að tjáningar- og trúfrelsi en bóksatafstrúar íslamistar eru með dauðalista yfir einstaklinga sem leyfir sér að hafa slíka skoðun..

Neel hafði áhyggjur af því að fylgst væri með honum en honum var veitt eftirför 13. maí eftir að hafa tekið þátt í mótmælum og tekið undir kröfu um rannsókn á morðinu á Ananta Bijoy Das en hann var sá þriðji úr hópi bloggara sem myrtur var á árinu. Þeir ásamt fjölda rithöfunda hafa andmælt bókstafstrúuðum íslamistum. Yfirvöld í Bangladess hafa ekki brugðist nægjanlega við til þess að minnka hættuna á ódæðum sem þessum.

Andrew Copsosn, forseti International Humanist and Ethical Union (IHEU) sem Siðmennt er aðili að, segir: „Þetta morð sýnir enn og aftur að þar er ríkjandi menning refsileysis sem íslamistar í Bangladesh hafa nýtt sér. Húmanistar á alþjóðavettvangi ákalla ríkisstjórnir heims að standa vörð um borgaraleg réttindi og lýðræði um heim allan og styðja bloggara í Bangladesh þar sem réttur fólks til trúfrelsis eða trúar, tjáningarfrelsis og til lífsins eru fyrir borð borin. Meðvitað er grafið undan tjáningarfrelsi og réttarríkinu og þarf ríkisstjórn Bangladesh að bregðast við til að endurheimta þessa stöðu eða halda áfram að tapa nokkra af sínu hugaðasta, mest hugsandi og virkustu þjóðfélagsþegnum henni til ævarandi skammar.“

Fulltrúar IHEU hafa, í yfirlýsingu frá því í júlí til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, krafist þess að ríkisstjórn Bangladess bregðist við og stöðvi morð á fólki vegna skoðana þeirra. Einnig hafa fulltrúar IHEU rætt málið við fulltrúa Evrópusambandsins og við nokkur mannréttindasamtök. IHEU mun halda áfram að styðja einstaklinga og samtök við að tryggja öryggi og rétt þeirra sem lenda á dauðalistum íslamista.

Stjórn Siðmenntar hefur sent utanríksráðherra Íslands bréf með ósk um að hann beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að ríkisstjórn Bangladess stöðvi þessi morð. Einnig óskar stjórn félagsins eftir fundi með ráðherra til þess að ræða þessi mál.

Stjórn Siðmenntar

10. ágúst 2015

Til baka í yfirlit