Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Félagið Siðmennt tíu ára

Siðmennt, félag áhugafólks um borgaralegar athafnir, var stofnað 15. febrúar 1990. Að stofnuninni stóðu mest einstaklingar sem skipulagt höfðu borgaralega fermingu vorið 1989. Enn þá er borgaraleg ferming viðamesti þátturinn í starfi félagsins og úr hópi þátttakenda í þeirri athöfn og foreldra þeirra koma flestir nýir félagsmenn í Siðmennt.

 

A vefsiðu Siðmenntar, www.islandia.is/sidmennt [nú www.sidmennt.is], er félagið skilgreint sem „málsvari mannúðarstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar sem standi „fyrir borgaralegum athöfnum“. Með þeim er átt við að halda hátíðleg eða minnast merkra tímamóta á mannsævinni án þess að trúfélög komi þar nærri eins og nafngjöf, fermingu og útför. Með þessu er á engan hátt verið að vega að trúarbrögðum heldur einfaldlega að bjóða þeim valkost sem ekki vilja nýta þjónustu trúfélaga en fyrir því geta verið margar ástæður. Félagið var stofnað í brýnni nauðsyn þess að einhver tæki að sér að skipuleggja valkosti þessa og starf félagsins undanfarin tíu ár hefur sannarlega sýnt mikla þörf fyrir það. Stöðugt fleiri nýta sér þjónustu félagsins eftir því sem þekking um tilvist þess eykst.

Markmið Siðmenntar
Í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.: „Félagið byggir starfsemi sína á lífsviðhorfi óháðu trúarsetningum. Maðurinn sjálfur er ábyrgur fyrir velfarnaði sínum, ekki „æðri máttarvöld“. Félagsmenn leggja áherslu á ábyrgð hvers einstaklings gagnvart náunga sínum. Þeir standa vörð um rétt einstaklinga til að broskast
á ólíkum forsendum …“

Þótt vissulega megi reikna með því að allflestir félagar í Siðmennt séu ekki trúaðir á tilvist æðri máttar er megináherslan þar á bæ ekki trúleysið heldur ábyrgð manna á eigin og annarra. Manngildið er sett öllu öðru ofar. Við getum tekið undir þessi orð heimsborgarans og skáldsins Stephans G. Stephanssonar um Manngildið“ frá árinu 1908:

Engin höll er of há fyrir
hnokinleik þinn,
þó að hásætum raðað sé þar.

Engin kró er of lág fyrir
konungdóm þinn,
ef að kvikandi líf blaktir þar.

Flestir félagar Siðmenntar munu og vafalaust taka undir þau sjónarmið að þetta líf sem við lifum núna sé hið eina sem við eigum og því skulum við að rækta það vel. Aftur skal vitnað í Stephan G. Stephansson (Kvæðið „Lif“,1908):

Allt er lífs, því líf er hreyfing,
eins ljóssins blær og kristallsteinn,
– líf er sambönd, sundurdreifing –
sjálfur dauðinn þáttur einn.

Velferð og menntun barna er stór þáttur í stefnuskrá siðrænna húmanista um heim allan en Siðmennt er meðlimur í Alþjóðasamtökum þeirra. Okkur kemur því stundum nokkuð á. óvart þegar mjög virtur kirkjunnar maður staðhæfir hvað eftir annað að þeir foreldrar sem ekki halda kristinni trú að börnum sínum séu að búa til vandamálabörn framtíðarinnar. Þau okkar, sem erum foreldrar og eigum mörg fullorðin og góð börn, finnst þessar yfirlýsingar fremur undarlegar og sárnar sumum þetta eitthvað. Hitt er annað mál að eftir hverja slíka yfirlýsingu fjölgar gjarnan í fermingarhópnum okkar.

Borgaraleg ferming
Eins og áður sagði er borgaraleg ferming mikilvægasti vettvangurinn í starfi Siðmenntar. Athöfn þessi hefur verið við lýði á hverju vori frá árinu 1989 og fer því fram f tólfta skiptið á þessu ári en þá munu um 50 ungmenni fermast borgaralega. Megininntakið i borgaralegri fermingu er námskeið sem ungmennin sækja um veturinn en þar er fjallað um lífsviðhorf frá margvíslegu sjónarmiði (frelsi og ábyrgð, hamingja og lífsgildi, trú og vantrú), um fjö1-skylduna, mannleg samskipti, mannréttindi og jafnrétti, breytingar kynþroskaáranna, hættuna af vímuefnum, Að loknu þessu námskeiði er haldin hátíðleg athöfn þar sem ungmennin fá afhent skírteini um að þau hafi sótt námskeiðið.

Fyrsta vorið, árið 1989, sóttu 16 ungmenni námskeiðið og lokaathöfnina. Vitneskjan um borgaralega fermingu ó smám saman og á fimmta árinu, 1993, fjölgaði þátttakendum í 26. Þessi fjöldi hélst nokkuð óbreyttur um tíma. En 1997 varð athöfnin fyrir óvæntri og mikilli auglýsingu þegar ráðherra í ríkisstjórninni kynnti hana sérstaklega við upphaf þings íslensku þjóðkirkjunnar. Við það tvöfaldaðist fjöldi þátttakenda og hafa síðan um og, yfir 50 ungmenni fermst borgaralega á vori hverju. Námsskeiðið og athöfnin eru komin til að vera.

Lokaathöfnin hefur ávallt verið fjölsótt og hefur verá. nauðsynlegt að fá æ stærri húsakynni fyrir hana. Síðan 1998 hefur hún farið fram i stærsta sal Háskólabíós. Áætlað er að alls hafi frá upphafi um 4.000 gestir sótt lokaathöfn borgaralegrar fermingar. Siðmennt hefur aldrei hlotið neina gagnrýni frá þeim sem hafa kynnt sér efni námskeiðsins eða sótt lokaathöfnina en þeim mun meira hrós.

Önnur starfsemi Siðmenntar
Nafngjöf án skírnar hefur lengi þekkst hér á landi en nú fer í vöxt að slíkri nafngjöf fylgi hátíðleg athöfn og hefur Siðmennt veitt leiðbeiningar um þau mál.

Borgaraleg útför hefur einnig þekkst hér lengi en Siðmennt hefur á undanförnum árum reynt að veita
ráðleggingar um framkvæmd slíkra athafna.

Siðmennt hefur haldið fundi um ýmis mál sem liggja fólki á hjarta eins og sorg, dauða og lífsviðhorf almennt. Við höfum kynnt rétt samkynhneigðra og reynt eftir fremstu getu að beita okkur í öðrum réttlætismálum. Sérstakur hópur fólks. SAMT, eða samtök trúlausra, sem er laustengdur Siðmennt, heldur reglubundið fundi til að ræða sameiginleg lífsviðhorf og siðferðileg álitamál.

Lokaorð
Eins og fyrr segir hefur Siðmennt aldrei beitt sér gegn trúarbrögðum og sumir félagar Siðmenntar leggja raunar á það áherslu að þeir séu samþykkir frjálslyndum kristnum siðferðisviðhorfum þótt trúlausir séu. Það má raunar færa fyrir því gild rök að einhver mesta hættan sem nútímamaðurinn búi við sé afstöðuleysi og hræsni í lífsviðhorfum, þar með talin trúmál. Það er því rétt að ljúka þessum svörum með spurningu: Hver er fjær gildri siðfræði, sá sem mútar börnum sínum með gjafaloforðum til að fermast í kirkju, eða sá sem hvetur þau til að segja sjálf til um það hvort þau séu tilbúin til að meðtaka kristinn boðskap?

Mbl. 15. febrúar 2000

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit