Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Samfylkingin vill aðskilnað ríkis og kirkju

Siðmennt sendi öllum framboðum til Alþingis fimm spurningar og óskaði eftir afstöðu þeirra. Svörin verða birt á næstu dögum í þeirri röð sem þau bárust.

Spurningarnar snúa að veraldlegu samfélagi og nauðsynlegt að kjósendur geti áttað sig á afstöðu framboðanna.

Styður framboðið aðskilnað ríkis og kirkju?

Á landsfundi Samfylkingarinnar árið 2015 var eftirfarandi stefna samþykkt:

Til að tryggja jafna stöðu allra trúar- og lífsskoðanafélaga og skapa samfélag án mismununar telur Samfylkingin nauðsynlegt að slík félög hafi öll sömu stöðu innan samfélagsins og gagnvart ríkisvaldinu, og að gerð verði skýr aðgerðaráætlun sem miðar að því að ríki og kirkja verði aðskilin.

Mun framboðið beita sér fyrir því að á næsta kjörtímabili verði hafinn undirbúningur að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju?
Já, það er stefna Samfylkingarinnar að gera skýra aðgerðaáætlun sem miðar að aðskilnaði ríkis og kirkju. Fyrir því mun Samfylkingin beita sér á næsta kjörtímabili.

Styður framboðið skráningu trúar- og lífsskoðanir almennings?

Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um skráningu trúar- og lífsskoðana almennings. Mjög mikilvægt er að slíkar viðkvæmar upplýsingar séu ekki misnotaðar og við meðferð þeirra sé gætt ítrustu persónuverndarsjónarmiða. Samfylkingin vill að stjórnvöld séu hlutlaus gagnvart lífsskoðunum, trúarlegum eða veraldlegum. Vandséð er að skráning trúar- og lífsskoðana samræmist því markmiði og því þyrfti að finna aðra leið til að finna viðmið fyrir svokölluð sóknargjöld.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um sóknargjöld en leiðarljós í ályktunum Samfylkingarinnar um trú og lífsskoðanir er jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga og hlutleysi stjórnvalda gagnvart lífsskoðunum.

Mun framboðið að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu (lög nr. 35/1970) um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því?

Samfylkingin hefur ekki ályktað um hvort afnema beri lagaskyldu um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því. En ljóst er að ef á að ívilna á annað borð þá eigi öll lögformleg og skráð trúar- og lífsskoðunarfélög að hafa sama rétt í því efni.

 

Frá Siðmennt:

Sumar gætu virst léttvægar en falla í þann flokk sem við getum kallað „frelsis“ málefni. Þó þau skori ekki hátt í áherslum kjósenda eins og t.d. heilbrigðismál og skólamál þá eru margir sem telja þau þrátt fyrir það mikilvæg. Fólk samsamar sig viðhorfum framboðanna og mátar sig við þau.

Það skal tekið fram að Siðmennt tekur ekki afstöðu til einstakra flokka eða frambjóðenda

Til baka í yfirlit