Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skólastarf, trú og fjölbreytt mannlíf

Í Tímariti Morgunblaðsins þann 18. september s.l. skrifar Steinunn Ólína ágætan pistil frá Bandaríkjunum þar sem hún segir m.a. frá skóla dóttur sinnar og þeim margbreytileika í mannlífi sem þar fyrirfinnst. Steinunn segir það vera „brottrekstrarsök að gera grín eða hæðast að öðrum vegna útlits, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar foreldra.“


Vöktu þessi orð Steinunnar Ólínu athygli mína í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór hér á landi s.l. vetur þegar félagið Siðmennt gerði athugasemdir við óeðlileg tengsl stærsta trúfélagsins í landinu og skóla. Í þeirri umræðu komu fram fjölmörg dæmi sem sýna að í mörgum skólum er það beinlínis óæskilegt að skera sig úr fjöldanum, ekki síst þegar um trúmál er að ræða. Sem kennari í grunnskóla fæ ég fjölda athugasemda frá nemendum og foreldrum sem leita til mín og telja sig ekki njóta réttlætis í skólunum vegna trúar- eða lífsskoðana. Nemendum er t.d. víða gert að taka þátt í trúarlífi eins og kirkjuferðum og bænahaldi á skólatíma og oft án þess að fyrirliggi samþykki foreldra.

Í aðalnámskrá grunnskóla kemur skýrt fram að viðfangsefni nemenda í skólum landsins skuli „…höfða jafnt til drengja og stúlkna, nemenda í dreifibýli sem þéttbýli og fatlaðra og ófatlaðra óháð uppruna, trú og litarhætti“ (Almennur hluti bls. 16).

Síðastliðinn vetur var sýnt framá með fjölmörgum dæmum að á þessu er víða nokkur misbrestur. Hluta af þessum dæmum má finna á vef Siðmenntar (www.Sidmennt.is).

Sem betur fer á sér stað nokkur umræða um mikilvægi þess að virða margbreytileika mannlífsins í skólunum og í nýjasta hefti Skólavörðunnar, blaði Kennarasambands íslands skrifar Hanna Ragnarsdóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands grein um mikilvægi þess að mæta fjölbreyttum nemendahópi þar sem m.a. fyrirfinnast mismunandi trúar- og lífsskoðanir. Reykjavíkurborg hefur einnig mótað svokallaða fjölmenningarstefnu þar sem segir að stofnunum borgarinnar sé gert að laga sig að fjölmenningarlegu samfélagi.

Þrátt fyrir góðan vilja og fögur orð fólks úr ýmsum áttum er svo sannarlega á brattann að sækja svo að jafnrétti verði náð og eftir þá umræðu sem átti sér stað s.l. vetur verður fróðlegt að sjá hver staðan í þessum málum verður í vetur í skólum landsins.

Þegar rætt er um fjölmenningu og fordóma í skólunum er iðulega rætt um fordóma gagnvart mismunandi kynþáttum sem vissulega er hið besta mál, en það gleymist mjög oft hvort mögulegt sé að skólarnir séu jafnvel að ýta undir fordóma gagnvart þeim sem ekki trúa á guð, ekki tilheyra stærsta trúfélaginu í landinu og ekki ætla að fermast eða ætla sér að fermast borgaralega.

Íslenska þjóðkirkjan sækir það mjög stíft að komast með boðskap sinn inn í skóla og leikskóla enda engin furða þar sem kirkjunnar menn hafa sagt að ekki séu til störf fyrir alla þá sem útskrifast sem guðfræðingar eða djáknar og þessi störf þurfi því meðal annars að búa til innan skólanna. Þetta meinta atvinnuleysi guðfræðinga og djákna bitnar því á okkur og börnunum okkar sem ekki tilheyrum þjóðkirkjunni. Skilaboðin er þau að láta skuli trú- og skoðanafrelsi, umburðarlyndi og heiðarleg samskipti lönd og leið, það verður að koma í veg fyrir atvinnuleysi guðfræðinga og djákna.

Hvernig skóla ætlum við að bjóða æsku landsins? Ætlum við að láta það viðgangast að hluti nemenda sé látinn bíða afskiptalaus frammi á gangi eða inni á bókasöfnum á meðan meirihlutinn er í dagskrá hjá trúfélagi eða trúboðssinnuðum kennurum? Ætlum við að láta það viðgangast að nemendum sé sagt að það sé skylda að mæta til kirkju í desember eins og alþekkt er burtséð frá trúarskoðunum einstaklinganna? Ætlum við að láta ofsatrúaða kennara skikka börnin okkar til þess að fara með bænir án þess að hafa til þess nokkurt leyfi forráðamanna? Verður fjölmenningarstefna Reykjavíkurborgar enn eitt árið marklaust plagg? Þessum spurningum verða skólastjórnendur og yfirvöld menntamála að svara. Við sem eigum börn í skólunum eigum heimtingu á að fá skýr svör við því hvernig þessum málum verður háttað í skólum landsins og hvort enn eitt árið ætli yfirvöld menntamála að dansa með í umburðarlausu trúboði eða umbera og virða fjölbreytt mannlíf í skólunum.

Jóhann Björnsson
Höfundur er kennari og stjórnarmaður í Siðmennt
johann@sidmennt.is

Til baka í yfirlit