Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Vilhjálms B. Bragasonar við borgaralega fermingu 2019

Vilhjálmur Bergmann Bragason, rithöfundur og vandræðaskáld, flutti eftirfarandi ræðu við borgaralega fermingu á Akureyri, 8. júní 2019.

Kæru fermingarbörn og aðrir sem liggja á hleri, góðir gestir!

Mér þykir afar vænt um þetta tækifæri til þess að ávarpa ykkur hér í dag, á deginum ykkar. Markmið dagsins er tvíþætt – annars vegar er það að vera ekki hundleiðinlegur, það eru alltof margir ræðumenn í heiminum sem halda að það sé hugmyndin á bakvið ræðumennsku og eru alveg keppnisleiðinlegir, og hinsvegar að gefa ykkur góð ráð og ráða ykkur heilt, ráð sem gætu mögulega reynst einhverskonar veganesti út í lífið. Það er miklu minna mál, því það er nefnilega ennþá satt sem að Oscar Wilde sagði fyrir 130 árum: „Það góða við góð ráð er að maður getur ekki notað þau sjálfur.“ Ég held að við tengjum öll við það. Það er mun auðveldara að gefa ráð en að fara eftir þeim. Ég er algjörri forréttindastöðu hér í dag – ég þarf ekki að fara eftir neinu sem ég segi.

Maður þarf samt að fara varlega. Góð ráð geta verið óþolandi. Ég var einu sinni töluvert minna íþróttalega sinnaður og þyngri og ég man eftir því frá því ég var lítill að fólk var alltaf að segja: Þú þarft bara að finna réttu íþróttina fyrir þig. Sem var gott og blessað þangað til ég fór að reyna að fylgja þessu góða ráði. Ég fór í skíðaferð með skólanum, hafði aldrei farið á skíði og ég reyndi að segja mér, þetta er rétt sem þau segja, ég þarf bara að finna réttu íþróttina fyrir mig og nú muntu uppgötva það Villi að skíðaíþróttin er þér í blóð borin. Ég vissi samt í hjarta mínu að svo var ekki, en allt í einu var ég kominn upp í Hlíðarfjall að leigja mér skíði, dýrum dómu. Ég settist út á bekk, festi á mig skíðin og svo stóð ég upp… Og eftir á að hyggja voru það mistökin sem ég gerði. Þetta gekk fínt meðan ég sat bara á bekknum. Í heildina held ég að ég hafi farið svona fimm til sex metra á skíðunum þennan dag, allt saman á bílastæðinu. Svo gafst ég upp og fór inn og pantaði mér franskar. Það var það eina rökrétta í stöðunni! Ég nefni þetta bara vegna þess að maður þarf að fara varlega í þessi góðu ráð og ég ætla að reyna það hér í dag!

Þegar ég var barn hlakkaði ég ofboðslega til að verða fullorðinn. Ekki vegna þess að fullorðið fólk ætti peninga og gæti eytt þeim í hvað sem er, þó það hafi svo sem ekki spillt fyrir. Nei, aðalástæða þess að ég hlakkaði til að verða fullorðinn var fullorðið fólk vissi hvað það var að gera. Það vissi hvaðan það var að koma, hvert það vara að fara og á hvaða skemmtistöðu það ætlaði að koma við á í millitíðinni. Með öðrum orðum var fullorðið fólk með hlutina á hreinu og vissi hvað það var að gera. Ég gat ekki beðið!

En svo varð ég fullorðinn sjálfur og komst að því að fullorðið fólk veit bara ekki rassgat hvað það er að gera heldur. Fullorðna fólkið er bara að winga þetta frá degi til dags og vonar að enginn sjái í gegnum það. Fullorðið fólk veit að enginn hefur svörin við öllu, en samt er eitthvað það versta sem mögulega gæti komið fyrir í lífinu að aðrir fatti að þú hefur ekki svörin við öllu, sem þú hefur ekki frekar en allir hinir. Líf okkar allra yrðu svo miklu auðveldari ef við bara viðurkenndum þetta öll í sameiningu.

Nei vandamálið er að við viljum trúa því að það sé fólk þarna úti sem hefur öll svörin. Hafið þið ekki litið í kringum ykkur og fundist allir vita hvað þeir eru að gera nema þið? Ég kenni ævintýrum og Disney samsteypunni um. „Og þau lifðu hamingjusöm uppfrá því… Ég held að þessi setning endurspegli þá trú okkar að einhvern tímann komi tímapunktur í lífinu þar sem við verðum með allt á hreinu, allt verði eins og það á að vera og sé í jafnvægi. Við verðum hamingjusöm uppfrá því. En það er bara ekki þannig!

Auðvitað er fólk misgott í að feika þetta. Ég á t.d. frænda sem ég segi oft sögur af þegar ég er að skemmta, en hann gerir alltaf bara nákvæmlega það sem honum dettur í hug. Honum stendur algjörlega á sama. Og ég hef oft hugsað um það hve líf mitt yrði ekki auðveldara ef ég væri þannig. Frændi minn fór einu sinni með fullan bíl af rusli í Sorpu og var ekki alveg viss hvert ætt ruslið ætti að fara, svo hann ákvað bara að henda öllu dótinu í almennt rusl. Hann byrjar að henda og það sér þetta einhver Sorpu starfsmaður, sem er hreint ekki ánægður og hrópar: „Heyrðu félagi, hvað þykistu vera að gera?“ Frændi minn lét eins og hann heyrði það ekki og hélt áfram að henda ruslinu. Starfsmaður varð alltaf reiðari og reiðari eftir því sem hann kom nær, en frændi minn hélt ótrauður áfram. Á endanum var starfsmaðurinn kominn alveg upp að frænda mínu, rífur í öxlina á honum, snýr honum við og hrópar: „Hvern andskotann heldur þú að þú sért að gera, maður?“ Án þess að hugsa sig um segir frændi minn: „É‘ vera heyrnarlaus“, sem hann er auðvitað alls ekki. Við þetta varð Sorpu starfsmanninum svo mikið um að hann hjálpaði honum að henda restinni af ruslinu! Og kannski er það lykillinn að hamingjunni – að vera bara alveg sama. Ég held samt ekki!

Ég held að það sé miklu hollara að hætta að bíða eftir því að lífið nái algjöru jafnvægi eða nálgist það að verða fullkomið. Það verður það aldrei. Það er kannski niðurdrepandi þegar maður orðar það þannig, en það er ekkert varanlegt eða endanlegt ástand í lífinu nema dauðinn. Við erum ekki hamingjusöm eða ánægð alltaf. En við lærum, þroskumst og breytumst svo lengi sem við lifum – og ég held að það að kunna að njóta þess sé besta veganestið út í lífið. Að vera ekki það upptekin af svörunum að maður gleymi að hlusta á spurningarnar. Lífið verður aldrei fullkomið eða nákvæmlega eins og við vildum að það væri, en það er uppfullt af fullkomnum augnablikum í afar ófullkominni keðju. Njótum þeirra!

Ég óska ykkur alls hins besta, en umfram allt óska ég þess að þið berið gæfu til að þurfa ekki að þykjast hafa öll svörin og frelsi til þess að gera hlutina nákvæmlega eins og ykkur sýnist. Það veit enginn hvort sem er hvernig á að gera þá. Og ef allt klikkar getið þið alltaf þóst vera heyrnarlaus.

Kæru fermingarbörn – til hamingju með daginn og takk fyrir mig!

Til baka í yfirlit