Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Verðum að gera betur – Upplýsingabyltingin og nútíminn

Huginn Freyr Þorsteinsson, doktorsnemi í heimspeki, flutti hugvekju við setningu Alþingis þann 9. september 2014 á Hótel Borg sem hann nefnir: Verðum að gera betur – Upplýsingabyltingin og nútíminn.

Huginn Freyr er aðjúnkt við Háskólann á Akureyri. Hann er með B.A gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands, mastersgráðu í vísindaheimspeki og vísindasögu frá háskólanum í Bristol á Suðvestur Englandi. Huginn er einnig með M.Phil gráðu í vísindaheimspeki frá sama skóla og hefur ritað fjölda fræðigreina og greina um þjóðfélagsmál.

Ágætu þingmenn.

Sú stefnuyfirlýsing húmanista sem Siðmennt sækir sinn boðskap og finna má á heimasíðu félagsins, er góður vitnisburður um jákvæð áhrif þeirrar stefnu í sögu mannsandans sem við kennum við upplýsingu. Áhersla á vísindi sem uppsprettu þekkingar, náttúrulegar skýringar, lýðræðislega ákvarðanatöku, lausn undan ótta og mikilvægi gagnrýni, trúarbragðafrelsi og rétt til einkalífs eru gildi sem varða stöðu okkar sem borgara í samfélagi manna og eru gildi sem okkur eiga að vera kær og liðsinna okkur í að bæta samfélag okkar.

Í nútímanum gleymist það oft að þessar hugmyndir, sem okkur mörgum hverjum þykja sjálfsagðar í dag voru það ekki einu sinni og víðast hvar eru þær vanvirtar. Þá er líka viss tilhneiging til að trúa því að þegar gildi sem okkur eru kær verða ofan á að þá sé engin hætta á að þessi gildi glatist. Að einhvern veginn hafi þau áunnist fyrir fullt og allt. Þannig byrgir línuleg framfarahyggja okkur oft sýn. Við teljum stundum að hinar myrku miðaldir séu að baki og að skynsemishyggja vísinda hafi orðið ofan á. Þannig breiðum við yfir þá staðreynd að reynt er að bregða fæti fyrir vísindalegu starfi með margvíslegum hætti til að mynda í umræðum um loftslagsbreytingar með fjáraustri hagsmunaaðila sem hafa það að markmiði að grafa unda vísindalegum niðurstöðum. Okkur hættir einnig til að líta á að þegar mikilsverð gildi ávinnast séu þau komin til að vera. En mörg þeirra gilda sem ég taldi upp að ofan er stöðugt ógnað. Þannig eru sigrar fortíðarinnar ekki ávísun á fullnaðarsigur og þessum mikilsverðu gildum er ekki aðeins ógnað í fjarlægum löndum.

Mannhelgi og sjálfræði

Um hvert þessara atriða væri rétt að fjalla í ítarlegu máli en í dag ætla ég að einbeita mér að sjálfræði, virðingu fyrir mannfólki og rétt til einkalífs en af ýmsum ástæðum er rétt að huga að þessum tilteknu gildum. Fyrst skulum við átta okkur á því að þessir hlutir tengjast hvorum öðrum líkt og þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724-1804) benti af sinni alkunnu nákvæmni á. Hver manneskja býr yfir ákveðinni mannhelgi sem við verðum og eigum að virða. Þannig vill hvert og eitt okkar hér inni að sitt sjálfræði sé virt. Í því felst m.a. að við fáum að beita skynsemi okkar til að taka ákvarðanir um okkar eigin heill en ekki að aðrir ákveði fyrir okkur eða taki af okkur þennan rétt.

Og jafnvel þó einhverjum finnist að Nonni eða Sigga séu að gera einhverja vitleysu þá eiga þau rétt á því ef þau fallast ekki á rök okkar fyrir því að um vitleysu sé að ræða. Það er nefnilega hluti af mannlegri reisn að fá svigrúm til að athafna sig og stýra sínu lífi á þeim forsendum sem viðkomandi telur réttast. Af þessum sökum er umburðarlyndi mikilvægur kostur. Við verðum að sýna öðru fólki umbyrðarlyndi í athöfnum sínum enda virðum við sjálfræði annarra með þessum hætti og einnig erum við sjálfum okkur samkvæm enda viljum við að aðrir sýni okkar kostum og löstum skilning. Öll viljum við fá ríflegt olnbogarými.

Réttur til einkalífs og mannleg reisn

Jafnframt eigum við sem manneskjur rétt á ákveðnum griðum. Við eigum rétt á einkalífi. Sá réttur styður líka við sjálfræði okkar og virðingu. Það er mikilvægt fyrir hvern einstakling að eiga sitt heimasvæði þar sem við getum tekist á við áskoranir, átt við galla okkar eða erfiðleika án þess að þeir séu opinberir fyrir öðrum. Ekki að gallar og erfiðleikar eigi að vera feimnismál heldur hitt að þegar við viljum fá grið undan opinberu lífi eða þeim fjölmörgu hlutverkum sem við erum í er mikilvægt að eiga sér sinn griðarstað. Það hjálpar okkur í að takast á við lífið og viðhalda okkar eigin mannlegu reisn.

Tækniþróun og upplýsingasöfnun

En hvers vegna að impra á þessum atriðum hér í dag? Í fyrsta lagi standa þessi gildi húmanistum nærri. Í öðru lagi held ég að fólk þvert á stjórnmálaflokka geti verið sammála um megininntak þeirra og í þriðja lagi held ég að þessum gildum standi nokkur ógn af þeirri þróun sem hefur átt sér stað í samfélagi okkar síðustu áratugi. Ef það er rétt mat ætti það að verða kappsmál okkar allra að reyna finna leiðir til að standa vörð um þessi gildi.

Sú breyting sem ég tel að ógni þessum gildum á rætur sínar að rekja í tækniþróun. Það er þó ekki markmið mitt að finna þessari tækni allt til foráttu eða leggja til að hún verði lögð niður heldur einungis vekja athygli á álitamálum er henni tengjast.

Með tilkomu alnetsins og þeirri þróun sem þar hefur átt sér stað hefur söfnun upplýsinga orðið einfaldari í framkvæmd en nokkurn tíma áður. Þannig deilum við mörg hver persónuupplýsingum í hverri viku á einhverjum af þeim fjölmörgu samfélagsmiðlum sem í boði eru sem og skiptumst á upplýsingum í tölvupósti. Og yfirleitt spáum við lítið í þetta enda nýtum við þessa tækni líklegast vegna þess að við teljum að það sé í lagi og saklaust að deila þessum upplýsingum. Maður hefur þó stundum velt því fyrir sér hvort það rynnu ekki á mann tvær grímur ef að einkaaðili myndi biðja mann fýsískt um þær persónuupplýsingar sem við deilum á Facebook ásamt myndaalbúmi fjölskyldunnar til varðveislu. En af einhverjum ástæðum breytast forsendur hjá okkur þegar við framkvæmum sama gjörning rafrænt, þó svo að í raun ættu þær ekki að gera það.

Uppljóstranir

Eftir að bandaríski uppljóstrarinn, Edward Snowden, ásamt harðskeyttu blaðamannateymi Guardian og Washington Post, komu á framfæri upplýsingum um misnotkun yfirvalda á þessum upplýsingakerfum ætti okkur að verða ljóst að þetta samfélagsmiðlakerfi er ekki alsaklaust. Í raun er þetta kerfi einn alsjáandi og minnir á hugmynd frá einum af upphafsmönnum nytjastefnunnar í siðfræði, Jeremy Bentham (1748-1832), um hið fullkomna eftirlitskerfi, Panopticon, þar sem einstaklingar geta aldrei vitað hvort að fylgst sé með þeim eða ekki.

Samfélagsmiðlar og internetið skrá einnig miklu meira magn af persónulegum upplýsingum en við myndum líklegast nokkurn tímann gera ef þeirra nyti ekki við. Viðskiptasaga okkar er skráð og þannig neyslumynstur. Ef við erum dugleg að deila efni um pólitískar skoðanir okkar reynast færslur okkar góður vitnisburður þar um. Að ógleymdum alls kyns færslum, upplýsingum um staðsetningum okkar hverju sinni og deilingum á myndum af atburðum í lífi okkar. Megnið af þessu deilum við innan svæða á netinu sem einkafyrirtæki reka og opinberir aðilar virðast hafa aðgang að. Þannig ógnar upplýsingaöldin ýmsum af þeim gildum sem hin gamla upplýsing setti í öndvegi og samfélög hafa mótast út frá.

Sjálfræði í hættu?

Verjendur þessa kerfis benda þó á að fjöldi skilaboða, færslna og hreyfinga á samfélagsmiðlum er með þeim hætti að ógjörningur sé að vakta allt og er langur vegur frá því. Það breytir þó ekki því að þetta kerfi er í algerri andstöðu við þau gildi sem ég fór yfir áðan. Ef opinber yfirvöld ætla að hnýsast í okkar mál þurfa þau heimild til slíks en sú grunnforsenda er ekki til staðar ef marka má uppljóstranir Snowden. Og ekki aðeins viljum við að yfirvöld hafi slíkar heimildir heldur einnig að sú heimild sé ekki ótakmörkuð þ.e. ef vel á að vera hafa þau aðeins heimild til skoðunar á ákveðnum hlutum sem rökstuddir eru. Að gera þetta ekki er vanvirðing við sjálfræði enda inngrip langt inn fyrir mannhelgi hvers einstaklings.

Einkalíf og samfélagsmiðlar

Mörkin milli einka- og opinbers lífs riðlast augljóslega með tilkomu svona upplýsingaskráningarkerfa.  Og þau eru ekki bara þannig að við sjálf deilum því sem við viljum heldur taka einnig aðrir einstaklingar myndbönd eða myndir án þess að spyrja og deila með vinum eða hverjum sem er. Snjallsímar, þar sem möguleikinn á að ýta á upptökutakka umsvifalaust, gerir okkur kleift að taka upp myndbönd hvenær sem er. Sú kynslóð barna sem elst upp við þessa tækni þekkir ekkert annað og eru krakkar því oft í sviðsljósi. Þegar illa fer eru tekin upp myndbönd þar sem einhver er í niðurlægjandi aðstæðum og því deilt og þannig gert með alvarlegum hætti lítið úr viðkomandi manneskju. Og við það að hlutir séu teknir upp breytist athöfn, sem var bundin við ákveðinn hóp eða einstaklinga, í myndband sem hægt er að deila með fjölda fólks. Sakleysisleg mistök, sem hefðu kannski veitt einhverjum stundargaman, getur orðið að myndbandi sem hægt er að horfa á aftur og aftur. Þetta getur orðið sérlega skaðlegt þegar um börn eða óharnaða unglinga er að ræða enda geta myndböndin eða ljósmyndirnar fylgt viðkomandi og orðið magnari á slíka atburði.

Framlag mitt hér í dag er því ekkert annað en að við gefum okkur tíma í að máta gildi sem við teljum mikilsverð við mjög öra þróun, sem á sér stað núna og verulega vantar upp á að tekist sé á við. Eitt mikilverðasta hlutverk stjórnmálamanna er að verja réttindi þeirra borgara sem kjósa þá til starfa. Því verðum við að gera betur og passa upp á að ýmis þau gildi sem verja okkar mikilvægustu hagsmuni verði ekki útundan í þróun sem við teljum að sé óhjákvæmileg.

Huginn Freyr Þorsteinsson

huginn@unak.is

Til baka í yfirlit