Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ávarp Björns Jóhannssonar fermingarbarns á BF 2007

Komið þið sæl

Þegar ég ætlaði að fara að fermast fór ég að hugsa um guð.
Ég hafði nokkrum sinnum spáð í að kannski væri guð til. Foreldrar mínir sögðu mér þá sögu að þegar ég var fimm ára þá hafi ég spurt þeirrar heimspekilegu spurningar “Hversvegna ætti guð að hjálpa okkur?.” Ég sá að pabbi varð dálítið skrítinn á svipinn og svaraði á móti “viltu ekki að guð hjálpi þér?”. “Nei” svaraði ég og bætti svo við “ég held að ég hjálpi mér bara sjálfur”. Mig grunar að hugmyndin að þessari spurningu hafi komið vegna þess að margir segja “guð hjálpi þér” þegar maður hnerrar.


Á svipuðum tíma leitaði ég að guði sem svo margir höfðu talað um og dag nokkurn fór ég með vini mínum í sunnudagaskóla. Við vinirnir leituðum ekki lengi að guði heldur tókum við upp á því að fara í feluleik. Við skriðum undir kirkjubekkina og gerðum fólki bylt við. Þetta þótti okkur skemmtilegt en það fannst öðrum ekki.
Leitin að guði bar ekki árangur að þessu sinni.

Nokkrum árum síðar fór ég aftur í kirkju en þá ekki til þess að leita að guði heldur til þess að vera í fermingu frænku minnar. Foreldrar mínir voru með í för og pössuðu upp á að ég tæki ekki upp á því að skríða undir bekki og finna felustaði. Mér fór því fljótt að leiðast og lagði mig á bekknum. Ekki komst ég hjá því að hlusta á það sem presturinn sagði og fannst mér hann segja full oft orðið “almáttugur”. Ég reisti mig því upp í sætinu og sagði hátt og snjallt “hann er með æði fyrir almáttugur”. Mér fannst þetta góð ábending hjá mér en fullorðna fólkinu fannst þessi ofnotkun á orðinu “almáttugur” greinilega í lagi því það sussaði niðri í mér.

Fjórum árum eftir þetta var komið að mér að ákveða hvort og þá hvernig ég vildi fermast.
Þegar ég fór að segja vinum mínum að ég ætlaði ekki að fermast kirkjulega heldur borgaralega fannst þeim það skrýtið og héldu að það væri bara fyrir pakka og gjafir. Pabbi vinar míns sagði við hann að þeir sem fermdust borgaralega fermdust bara fyrir pakka og gjafir. Vinur minn sagði þetta við mig en ég sagði að þetta væri bara venjuleg ferming eins og allar aðrar, maður þyrfti bara ekki að fara í próf og læra heima.
Síðar kom þessi sami vinur minn og spurði “ætlar einhver í þínum bekk ekki að fermast?” og ég sagði já og þá sagði þessi vinur minn hina gullnu setningu EN ÞÁ FÆR HANN ENGA PAKKA. Og síðan segir hann að borgarleg ferming sé bara fyrir pakka.

Pakkar eru svo sem alveg ágætir en það er ýmislegt fleira sem fylgir borgaralegri fermingu, t.d. fermingarfræðsla. Og hvernig er svo þessi fermingarfræðsla sem við förum í?

Við mættum í fræðslutíma í tólf vikur og lærðum mikið um lífið og tilveruna.
Við lærðum um gagnrýna hugsun. Hvað er nú það? Það er til dæmis að ef einhver segir manni að hann hafi séð risaeðlu á skólalóðinni. Þá getur það alveg verið satt en maður trúir því ekki fyrr en maður hefur kannað málið.

Síðan lærðum við um nauðsynlegar og ónauðsynlegar þarfir. Þar voru nú skoðanir skiptar t.d. fannst ekki öllum foreldrar vera bráðnauðsynlegir á meðan öðrum fannst þeir mjög nauðsynlegir.
Við fjölluðum um siðfræði og hvað er rangt að gera og hvað rétt.
Við fjölluðum um fordóma og mismunandi menningu. Kennarinn spurði okkur að því hvað væri það skrítnasta sem við höfðum borðað. Ætli það skrítnasta sem ég hef borðað sé ekki hestur en það er nú ekkert því kennarinn á námskeiðinu hafði bæði borðað krókódíl og hund.

Við fjölluðum um margt fleira en mér persónulega fannst hundurinn með liðagigtina mest spennandi á námskeiðinu. Þetta var reyndar ekki fræðslustund um liðagigt heldur kom í heimsókn tollvörður sem hafði meðferðis einstaklega vinalegan hund sem kom sér vel fyrir undir borðum. Tollvörðurinn fjallaði um skaðsemi fíkniefna og hvernig vopn mætti flytja inn og hversu langt blað á hníf má vera. Það eru 12 cm.

Hvers vegna fermistu borgaralega? Maður fær þessa spurningu oft: Við sem fermumst borgaralega höfum öll mismunandi ástæður fyrir því en ég fermist borgaralega af því ég trúi ekki á guð. Ég leitaði að honum í sunnudagaskólanum þegar ég var yngri. En þá gleymdi ég mér í feluleiknum sem ég sagði ykkur frá áðan.

Ég þakka fyrir fræðsluna sem ég hef fengið og þann möguleika að fermast borgaralega.

Takk fyrir mig

Björn Jóhannsson

Til baka í yfirlit