Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Höldum áfram að hafa hátt

Óformlegur hópur brotaþola kynferðisofbeldis og fjölskyldur þeirra – #höfum hátt – hlaut Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2017. Við það tilefni flutti Bergur Þór Ingólfsson ávarp fyrir hönd hópsins sem hér birtist.

Bergur Þór Ingólfsson

Fyrir hönd allra sem hafa haft hátt þiggjum við auðmjúklega þessa viðurkenningu.  Við vitum ekki almennilega hversu mörg við erum sem viðurkenninguna hljótum.   Við vitum ekki hve stór við erum.    Við vitum ekki ekki  einusinni hvort við erum stór.  Þess vegna skiptir þessi viðurkenning okkur miklu máli.  Við vitum nefnilega að við vorum smá.  Við vitum að við vorum lítil og óttaslegin.  Við munum smæð okkar þegar við bárum harminn í hljóði.  Við þökkum Siðmennt fyrir að stilla sér upp við hlið okkar með því að veita okkur Húmanistaviðurkenningu sína.

Við lögðum af stað án mótaðrar hugmyndafræði.  Án stefnuyfirlýsingar.  Það eina sem við höfðum var viðbragð við því að eitthvað var skakkt.  Eitthvað var skelfilega rangt.  –  Manni, sem nýtt hafði sér yfirburðastöðu sína til að níðast á þeim okkar sem minnst máttu sín, og missti stöðu sína fyrir brotið, var færð sú yfirburðastaða á ný af öllum æðstu embættum landsins.

Barnið sem talaði í gegnum munn 26 ára gamallar konu sagði:  „Ég get ekki þagað.  Ég verð að segja eitthvað.  Það er komið nóg.  Höfum hátt.“  Þetta hlaut einróma samþykki með öllum greiddum atkvæðum.  Þetta varð að stefnuyfirlýsingu okkar.  Hugmyndafræðin var sannleikurinn.  Einlægni og heiðarleiki voru okkar einu herbrögð:   „Segjum söguna eins og við upplifðum hana og spyrjum spurninga.“

Raddirnar urðu fleiri.  Einraddað.  Tvíraddað.  Þríraddað.  Fjórraddað.  Kór.  Fólk allstaðar að tók undir.  Ókunnugt fólk.  Vinir.  Fólk sem hafði upplifað það sama.  Fólk með samlíðan.  Fólk sem átti börn.  Fólk sem átti ekki börn.  Öll með einni rödd sem hafði hátt.  Stúlkurnar stóðu fremstar, stoltar og keikar með sinn sanna tón.

Lagið var bæði fornt og nýtt.  Það hafði gengið frá konu til konu í gegnum aldirnar.  Söngur um ofbeldi, kúgun og óréttlæti.  Aftur og aftur hefur hann verið þaggaður niður.  Reynt hefur verið að strika út nóturnar.   Afbaka lagið.  En söngurinn mun halda áfram að hljóma.  Hann er ekki lengur feiminn og ósjálfbjarga.  Hið harmræna ljóð skal verða að sigursöng.  Óður til gleði og frelsis.  Hann mun ekki þagna.

Kathrine Switzer var fyrsta konan sem hljóp maraþon sem skráður keppandi með keppnisnúmer.  Það var í  Boston-maraþoninu árið 1967. Konum var þá bannað að taka þátt í hlaupinu, en Switzer skráði sig undir nafninu „K. V. Switzer“ og tók hvergi fram kyn sitt. Hún var tvítug.

Önnur kona, Bobbi Gibb, hafði hlaupið í Boston árið áður. Hún skráði sig þó ekki, heldur faldi sig í runnum við upphaf hlaupsins og laumaði sér inn í karlahópinn. Hún hljóp á tímanum 03:21:40 en fékk það hvergi skráð, þar sem hún var ekki gildur keppandi.

Kathrine Switzer hafði hlaupið rúma sex kílómetra þegar skipuleggjandi hlaupsins, Jock Semple, kom auga á hana innan um aðra hlaupara.   Að sjá konu í hlaupinu virðist hafa fyllt hann ævareiði. Hann stökk út á veginn og þreif í Switzer, hrópandi: „Hypjaðu þig úr hlaupinu mínu og komdu með þetta númer!“

Aðrir keppendur komu Switzer til hjálpar og snéru Semple niður. Hún hélt áfram að hlaupa og kom að lokum í mark á tímanum fjórir tímar og tuttugu mínútur.

Fimm árum síðar, 1972, var konum loks leyft að taka þátt í Boston-maraþoninu.

Hvort sem við erum að tala, syngja dansa eða hlaupa.  Gefumst ekki upp.  Höldum áfram.  Leggjum við eyrun.  Stöðvum ofbeldi.   komum í veg fyrir einangrun. Vörpum ljósi á kúgun og leyndarhyggju.  Réttum hjálparhönd til þeirra sem minna mega sín.

Fyrir hönd alla þeirra sem hafa látið í sér heyra þökkum við fyrir siðurkenninguna.  Höfum hátt.

Til baka í yfirlit