Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ályktun aðalfundar vegna innrásar Rússlands í Úkraínu

Ályktun aðalfundar vegna innrásar Rússlands í Úkraínu

Aðalfundur Siðmenntar 2022 harmar að nú skuli hafin styrjöld í heimsálfu okkar með verulegu mannfalli meðal óbreyttra borgara, sundrun fjölskyldna og samfélaga, og miklum straumi flóttamanna. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur rússneskum stjórnvöldum af árásinni á nágrannaþjóð sem endurheimt hefur sjálfstæði sitt og síðan stigið skref til lýðræðis og frjálsra samfélagshátta. Engar þær ástæður sem ráðamenn Rússahers eða aðrir hafa dregið fram geta afsakað eða réttlætt innrásina og þær hörmungar sem hún er að skapa úkraínskri alþýðu, grannþjóðum jafnt Úkraínumanna og Rússa og í raun öllum Evrópubúum.

Siðmennt bendir á að ein róta vandans felst í valdatafli innan rétttrúnaðarkirkjunnar þar sem forysta Moskvukirkjunnar telur hana æðri Úkraínukirkjunum, þótt kristni hafi miklu fyrr fest rætur í Kænugarði en í bústöðum rússnesku furstanna. Patríarkinn í Moskvu styður innrásina eindregið, meðal annars vegna þess að með henni sé hægt að stöðva trúfrelsi, hinseginleika, kvenfrelsi og annað athæfi fjandsamlegt kirkju hans.

Þau sem líklega eiga um sárast að binda vegna stríðsátakanna í Úkraínu eru þau sem stóðu höllum fæti, sem teljast öðruvísi, hin jaðarsettu. Siðmennt vekur í því sambandi athygli á neyðarsöfnun fyrir fatlað fólk í Úkraínu, sem er samvinnuverkefni Átaks - félags fólks með þroskahömlun, Landssamtakanna Þroskahjálpar, TABÚ og Öryrkjabandalags Íslands.

Aðalfundur ályktar að veita til söfnunarinnar 500.000 krónur í nafni siðrænna húmanista á Íslandi.

Reykjavík 15. mars 2022

 

Viðbót: 

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning 526-26-5281, kt. 521176-0409. 

 

Til baka í yfirlit