Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Nýr formaður Siðmenntar – Hope Knútsson hættir Jóhann Björnsson tekur við!

Á aðalfundi Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi sem haldinn var 26. febrúar, urðu formannaskipti í félaginu. Hope Knútsson, stofnandi félagsins og formaður til 19 ára, ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Var Hope kærlega þakkað fyrir hennar framlag í þágu siðræns húmanisma en félagið heldur upp á 25 ára starfsafmæli félagsins á þessu ári. Á fundinum var einnig ákveðið að gera Hope Knútsson að heiðursfélaga í Siðmennt.

Jóhann Björnsson, heimspekingur og kennari, var kosinn nýr formaður. Jóhann hefur verið yfirmaður fermingarfræðslu borgaralegrar fermingar síðastliðin 17 ár. Hann hefur setið í stjórn Siðmenntar í á annan áratug og hefur víðtæka reynslu úr starfi siðrænna húmanista.

Við kjör til stjórnar Siðmenntar urðu þessir fyrir valinu:

Aðalstjórn Siðmenntar

Hope Knútsson
Jóhann Björnsson
Sigurður Hólm Gunnarsson
Steinar Harðarson
Steinunn Rögnvaldsdóttir – nýr frambjóðandi til aðalstjórnar

Varastjórn Siðmenntar

Auður Sturludóttir – nýr frambjóðandi til varastjórnar
Bjarni Jónsson
Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir
Hrafnkell Tjörvi Stefánsson
Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir – nýr frambjóðandi til varastjórnar
Kristinn Theodórsson
Þorsteinn Kolbeinsson

Í aðalstjórn er Steinunn ný en hún sat í varastjórn á síðasta ári. Sitjandi meðlimir aðalstjórnar eru hoknir af reynslu af starfi Siðmenntar. Tveir nýir bætast við varastjórnina en það eru þær Auður og Inga Auðbjörg. Svavar Kjarrval sem setið hefur í varastjórn síðustu þrjú ár gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Félögum í Siðmennt hefur fjölgað mjög hratt. Í upphafi árs 2013 voru þeir 300 en ári síðar rúmlega 500. Um síðustu áramót voru félagarnir orðnir tæplega 1.200!

Nánari upplýsingar um Hope Knútsson
Hope Knútsson stóð að fyrstu borgaralegu fermingarathöfninni á Íslandi árið 1989 sem varð upphafið að Siðmennt. Hope var einn helsti hvatamaður að því að hleypa félaginu af stokkunum árið 1990 eða fyrir 25 árum síðan.

Hope hefur alltaf unnið einstaklega óeigingjarnt starf fyrir Siðmennt og ávallt boðin og búin til þess að leggja á sig ómælda vinnu til að þjóna siðrænum húmanisma.

Hope Knútsson er með bachelors gráðu í sálfræði og heimspeki frá City University í New York auk masters gráðu í iðjuþjálfun frá Columbia University.

Að auki hefur Hope gefið mikið af sér til íslensks samfélags, frá því hún flutti til landsins árið 1974, en hún hefur staðið að og stofnað ótal frjáls félagasamtök og oftar en ekki setið í stjórnum þeirra og stundum sem formaður. Þau félög sem um ræðir eru m.a. Iðjuþjálfafélag Íslands en Hope stóð að stofnun námsbrautar í iðjuþjálfun hér á landi, Geðhjálp, Samtök heilbrigðisstétta, Kynfræðifélag Íslands, samtök enskumælandi útlendinga og Fjölmenningarráðs svo eitthvað sé nefnt.

Til baka í yfirlit