Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Tíu atriði til að tryggja trúfrelsi og jafnrétti

Stjórn Siðmenntar sendi þingmönnum eftirfarandi erindi 16. október 2014:

Ágætu þingmenn

Um leið og stjórn Siðmenntar óskar ykkur velfarnaðar á nýju löggjafarþingi vill félagið vekja athygli ykkar á nokkrum málum sem félagið telur mikilvægt að Alþingi fjalli um og taki upplýsta afstöðu til.

1. Undirbúningur aðskilnaðar ríkis og kirkju
Siðmennt leggur til að þingið samþykki að skipa fjölskipaða nefnd sem starfi eftir skýrum tímaramma og fari yfir þau málefni sem aðskilnaður ríkis og kirkju mun óhjákvæmilega hafa áhrif á. Mikilvægt er að slík vinna eigi sér stað og vinnuhópurinn leggi fram ítarlega skýrslu um þau áhrif. Siðmennt óskar eftir að taka þátt í slíkri vinnu. Í Svíþjóð kom aðskilnaður ríkis og kirkju til framkvæmda um síðustu aldamót og í Noregi hófst vinna árið 2005 sem hefur svipað markmið og hér er lýst og er fyrirmynd að tillögu Siðmenntar.

2. Ríkið hætti skráningu trúar- og lífsskoðana
Slíkt fyrirkomulag er andstætt persónuverndarsjónarmiðum. Siðmennt telur óheppilegt að einstaklingar þurfi að gefa upp opinberlega hverjar lífsskoðanir þeirra eru eða hvort þeir kjósi að standa utan trú- eða lífsskoðunarfélaga. Að auki er það ekki hlutverk hins opinbera að halda skrá yfir trúfélagsaðild fólks eða innheimta gjöld fyrir hönd trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga. Siðmennt telur eðlilegast að slík félög sjái sjálf um að innheimta sín eigin félagsgjöld. [1]

3. Sjálfkrafa skráning barna í trú- og lífsskoðunarfélög verði hætt
2. mgr. 8. gr. laga nr. 108/1999 verði endurskoðuð á þann veg að börn verði ekki skráð sjálfkrafa í trú- eða lífsskoðunarfélög við fæðingu. Sjálfkrafa skráning barna er að mati Siðmenntar óheppileg nema þá að skráðir einstaklingar séu sjálfkrafa afskráðir þegar þeir ná fullorðinsaldri. Mikilvægt er að allir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir séu skráðir í slík félög eða ekki. Gerð var örlítil bragarbót með breytingu laganna árið 2013 í þá veru að ef foreldrar eru ekki í sama félaginu skal barnið ekki skráð. Annars skrást börn sjálfkrafa í trúar- eða lífsskoðunarfélag foreldra. [2]

4. Fólk sem skráð eru utan trúar- og lífsskoðunarfélaga greiði ekki trúfélagaskatt (sóknargjald)
Í 2. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar segir að þeir sem ekki eru skráðir í trúfélag skulu greiða sama skatt og aðrir (svokallað sóknargjald) en hann renni í ríkissjóð. Samkvæmt stjórnarskrá er öllum frjálst að standa utan trúfélaga og því skýtur skökku við að þeir sem kjósa að gera það þurfi að greiða meira en aðrir í ríkissjóð. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemd við að allir borgarar greiði trúfélagsskattinn óháð því hvort þeir sé skráðir í félag eða ekki. [3]

5. Kirkjujarðasamningnum frá 1997 (og nánari útfærslu hans 1998) verði sagt upp
Við gerð samningsins var ekkert raunhæft mat lagt á virði þeirra eigna sem yfir hann náðu. Hins vegar var ríkið skuldbundið til að greiða milljarða hvert ár um ókomna framtíð. Þær tölur sem nefndar voru um virði eigna á þessum tíma eru aðeins nokkrir milljarðar og því ljóst að verið var að skuldbinda ríkissjóð á vafasömum forsendum. Siðmennt leggur í það minnsta til að samningurinn og forsendur hans verði skoðaðar gaumgæfilega. Mikilvægt er að skattgreiðendur viti nákvæmlega fyrir hvað þeir eru að greiða. Þegar samningurinn er skoðaður þarf að hafa ýmislegt í huga; eins og hvert upphaflegt virði umræddra jarða var og ekki síður hvernig og á hvaða tíma kirkjan eignaðist þær. Þjóðkirkjan fékk jarðirnar að hluta frá kaþólsku kirkjunni og kirkjuyfirvöld eignuðust stóran hluta jarðanna á tíma þegar alls ekkert trúfrelsi var á Íslandi. Kirkjuyfirvöld voru nátengd ríkisvaldinu og því hníga sterk rök að því að jarðirnar flestar séu í raun almannaeign. [4]

6. Skylda sveitarfélaga að leggja trúfélögum til ókeypis lóðir verði afnumin
Þetta er hægt að gera með breytingu á lögum nr. 35/1970. Það er ekki hlutverk sveitarfélaga að sjá trúfélögum fyrir slíkum ívilnunum. [5]

7. Tryggja húsnæði fyrir athafnir óháð lífsskoðun
Við athafnir Siðmenntar, þó sérstaklega við útfarir, eiga aðstandendur erfitt með að finna viðeigandi rými sem hentar öðrum lífsskoðunum en kristnum. Í dag er aðeins hægt að notast við Fossvogskirkju, sem skilgreind er fyrir öll trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar inni er risastór kross fyrir altari sem lýsir ekki virðingu fyrir öðrum lífsskoðunum. Því er óskað eftir því við Alþingi að séð verði til þess að hér á landi sé til húsnæði sem henti athöfnum fólks með aðrar lífsskoðanir. Ef Alþingi telur það hlutverk hins opinbera að aðstoða almenning við að halda mikilvægar athafnir lífsins er mikilvægt að hugað sé að þörfum allra óháð lífsskoðunum. Athygli er vakin á því að þjóðkirkjan beinlínis bannar notkun á húsakostum kirkjunnar þegar kemur að veraldlegum athöfnum. Í samþykktum þjóðkirkjunnar segir orðrétt:

„Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.“

Því er stundum haldið fram að þjóðkirkjan sé fyrir alla og veiti öllum landsmönnum þjónustu, en sú fullyrðing er augljóslega ekki rétt. [6]

8. Fyrirhuguð hækkun trúfélagaskatts verði afturkölluð
Fram hefur komið að nefnd á vegum innanríkisráðherra hafi lagt til verulega hækkun trúfélagaskatts (sóknargjalds) á næstu árum. Eftirfarandi rök koma fram á heimasíðu innanríkisráðuneytisins um þetta mál:

„Starfshópurinn telur að með þessum aðgerðum yrðu söfnuðir þjóðkirkjunnar jafnsettir hvað niðurskurð varðar og stofnanir innanríkisráðuneytisins. Telur hópurinn einnig að í skýrslu nefndar fyrrverandi innanríkisráðherra sem mat áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi Þjóðkirkjunnar og skilaði skýrslu í apríl 2012 sé dregin upp raunsönn mynd af niðurskurði á sóknargjöldum. Hafi þau frá hruni 2008 numið um 25% umfram framlög til reksturs annarra stofnana sem heyrðu undir innanríkisráðuneytið“

Þessi niðurstaða er frekar undarleg þegar skoðuð er þróun skattsins til lengri tíma en frá hrunárinu 2008. Vissulega er lækkun skattsins dramatísk á tímabilinu 2008 – 2014, sem sagt um 40%. Hins vegar ef farið er lengra aftur, til ársins 1995 þá er verðgildi trúfélagaskattsins nánast það sama og í dag. Á árunum 1988 – 2008 jókst verðgildi skattsins um 105% og ef borið er saman verðgildi á milli áranna 1988 og 2014 þá er hækkunin hvorki meira né minna en 24%. Því er ljóst að viðmið nefndarinnar og ráðuneytisins er afar villandi því auðvelt er að velja sér viðmið sem hentar. Á tímabilinu 1988 – 2014 hefur trúfélagaskattur til kirkjunnar numið tæpum 74 milljörðum króna á núverandi verðgildi. Gera verður kröfu til þess að litið sé á heildarmyndina þegar verið er að leggja til aukna skattlagningu sem nemur 6-700 milljónum króna. [7]

Heimild: Alþingi

9. Lagt er til að 125 gr. í lögum nr. 19/1940 verði afnumin en sú grein fjallar um guðlast
Lögin eru óþörf og óviðeigandi. Þau hefta tjáningar- og skoðunarfrelsi fólks. Í könnun sem Pew Research Centre gerði árið 2012 kemur fram að lög gegn guðlasti eru í tæpum fjórðungi ríkja heims og sérstök lög sem banna fólki að skipta um trú (apostasy) eru í 11% ríkja.

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út árið 2012 „Rabat aðgerðaráætlunina“ (Rabat plan of Action) um bann við hatursorðræðu á grundvelli þjóðernis, kynþátta eða trúarlegs haturs sem hvetur til mismununar, óvildar eða ofbeldis. Þar er hvatt til þess að lög eða lagaákvæði um guðlast verði afnumin.

Oft eru ríki þar sem skortur er á lýðræði og frelsi gagnrýnd fyrir að refsa fólki fyrir guðlast og þá jafnvel með dauðadómi. Þegar þessi ríki eru gagnrýnd benda talsmenn þeirra oft, réttilega, á að sambærileg lög séu einnig í gildi í „vestrænum“ lýðræðisríkjum. Því eru það mikilvægt skilaboð til umheimsins að afnema lög um guðlast á Íslandi. Ríki sem beita slíkum lögum með alvarlegum afleiðingum eiga ekki að geta bent til að mynda á Ísland og sagt að svona sé þetta nú líka þar. [8]

10. Að lög um helgidagafrið verði afnumin
Markmið laganna er að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar. Siðmennt telur ekki við hæfi að takmarka frelsi fólks með þessum hætti með lögum. Frítökuréttur og hvíldartími starfsmanna er tryggður í kjarasamningum. Rétt er að benda á að margvíslegar undanþágur eru nú þegar í lögunum. Heillavænlegast væri að afnema þessi ákvæði með öllu. [9]

Með von um góð viðbrögð,
Stjórn Siðmenntar
www.sidmennt.is
sidmennt@sidmennt.is

Erindið á pdf sniði: Tíu atriði til að tryggja trúfrelsi og jafnrétti.pdf

___________

[1] Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html

[2] Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999108.html

[3] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html
Umfjöllun Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna (atriði C.13): http://www2.ohchr.org/english/bodies/hrc/docs/co/CCPR.C.ISL.CO.5_AV.doc

[4]  Samningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um fjárframlög: http://www.innanrikisraduneyti.is/raduneyti/starfssvid/kirkjumal/upplysingar/nr/674

[5] Lög um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1970035.html

[6] Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar: http://www2.kirkjan.is/sites/default/files/Sam%C3%BEykktir%20um%20innri%20m%C3%A1lefni%20%C3%BEj%C3%B3%C3%B0kirkjunnar.pdf

[7] Unnið að samkomulagi um hækkun sóknargjalda: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/29004
Siðmennt styður ekki hækkun sóknargjalda: http://sidmennt.is/2014/08/22/sidmennt-stydur-ekki-haekkun-soknargjalda/

[8] Almenn hegningarlög, nr. 19/1940: http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1940019.html

[9] Lög um helgidagafrið, nr. 32/1997: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997032.html

Til baka í yfirlit