Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2015 í Reykjanesbæ – ræða

Ræða sem Jónas Sigurðsson, tónlistarmaður, flutti við borgaralega fermingu í Reykjanesbæ 18. apríl 2015.

Kæru fermingarbörn, foreldrar, forráðamenn og systkini, afar og ömmur, langömmur, langafar og aðrir gestir.

Takk fyrir að sýna mér þann heiður að fá að tala fyrir ykkur í dag.

Þið eruð svo falleg krakkar og flott.  Til hamingju með þennan merkilega áfanga.  Þetta er stór dagur í lífi ykkar allra.   Fermingardagurinn sjálfur.   Þetta er dagur sem þið eigið líklega eftir að muna alla ævina.  Það hljómar kannski ekki svo merkilega í dag en ég get sagt ykkur að þeir verða merkilegri og merkilegri með hverju árinu sem líður, þessi sérstöku dagar í lífi okkar.   Fermingin er einn af þessum stóru viðburðum sem maður bíður eftir árum saman.

Ég man hversu lengi ég beið eftir minni fermingu.  Ég man þegar ég var 10 ára og hugsaði,  “eftir 4 ár fermist ég”.  Það hefðu alveg eins getað verið tíu þúsund ár.  Ég man svo þegar það var bara eitt ár í ferminguna mína.  Það var alveg ótrúlega langur tími.  Þegar maður er 12-13 ára er eitt ár eins og heil eilífð.  Þegar maður er 40 ára er finnst manni eitt ár svona eins og jólafríið er hjá ykkur krökkunum.   Mér skilst að þegar maður er orðinn svona 80 ára þá er eitt ár svona eins og einn þáttur af Modern Family.   

Eða kannski frekar eins og einn þáttur af Workaholics.

Svona virkar tíminn furðulega.    Tíminn er allt öðruvísi þegar maður lítur til baka heldur en þegar maður horfir áfram.

Þegar ég var beðinn um að tala hérna fyrir ykkur hugsaði ég lengi um hvað ég vildi segja.  Fyrst hugsaði ég: “Vá, en fallegur heiður”.  Svo hugsaði ég “Hvað á ég að segja?  Hvað vildi ég, Jónas 40 ára að einhver hefði sagt við mig Jónas 13 ára?”.    Það var erfitt að svara því.  Sérstaklega af því að Jónas 13 ára var alltaf með svo mikið ADHD í gangi.  Ég held að ég hefði bara setið þarna með ykkur krakkar og hugsað stanslaust:  “Hvenær er þetta búið?  Er þessi ræða ekki að verða búin?  Ég get ekki beðið eftir partýinu og gjöfunum!!!,  Hvað ætli ég fái mikinn pening?   Hvað ætti ég að skrifa í ritvinnsluforritið á nýju tölvunni sem ég fæ í fermingargjöf?”  ..Þúsund hugsanir hefðu streymt svona í gegnum hugann á þessum fallega degi.

Því það er nefnilega flókið að vera ungur.  Maður hugsar svo hratt.  Allt gerist svo hratt.  Það getur verið erfitt stundum.   Það er auðvelt að gera mistök.  Að særa einhvern óvart.  Segja óvart eitthvað við vini sína sem maður meinti ekki.  Svo eru það samskiptin við mömmu og pabba sem geta verið flókin á þessum tíma að ekki sé nú minnst á hin gríðarflóknu ástamál sem fara yfirleitt að valda miklu hugarangri á þessum árum..

En í alvöru,  ég hugsaði að það sem ég hefði mest þurft að heyra einhvern 40 ára kall segja væri  “Slakaðu á vinur minn.  Þú ert frábær nákvæmlega eins og þú ert.  Þú þart ekkert að gera neitt, verða neitt, sanna neitt, breytast neitt.  Þú þarft bara að vera áfram þú sjálfur og að læra að elska það að vera ÞÚ en ekki einhver annar.  Það er það eina sem þú þarft að gera”  Þess vegna segi ég við ykkur fermingarbörn:  “Þið eruð algjörlega frábær nákvæmlega svona eins og þið eruð núna!”.   Og ég get sagt ykkur meira:  ég veit að ég hef rétt fyrir mér.

Það hefur líklega sjaldan verið eins flókið að vera unglingur eins og núna.    Heimurinn hefur breyst svo mikið.  Þið hafið líklega mesta frelsi sem nokkur kynslóð ungs fólks hefur haft á Íslandi.  Þið hafið aðgang að ótrúlegustu upplýsingum.  Bæði að öllu því fallega þarna úti sem fólk er að gera og einnig því ljóta.   Í þessu felast mikil tækifæri en um leið miklar áskoranir.

Það er athyglisvert að ungt fólk er talið vera afar mikilvægur markhópur fyrir auglýsingar.   Auglýsingar eru sérstaklega hannaðar til að senda skilaboð til ungs fólks með földum skilaboðum að eitthvað sé AÐ sem þurfi að laga með því að kaupa ákveðna vöru.   Til dæmis  “Vertu frjáls,  drekktu kók”.   Eins og maður sé ekki frjáls.  Eins og maður verði frjáls bara af því að drekka gosdrykk.    “Vertu ungur,  njóttu lífsins .. með KREDITKORTI!”      “VERTU SVONA”.   “VERTU HINSVEGIN”.   “Njóttu þess að vera ungur!”   “Breyttu heiminum!”   “Lifðu til FULLS  –  En helst í skóm frá okkur!!!”

Það er oft sagt við unglinga að þau séu að upplifa bestu ár ævi sinnar!  Er það ekki pínu sorgleg skilaboð frá fullorðnum ef við pælum í því?  En allavega,  maður heyrir þessu kastað fram:  “Unga fólk … þið eruð að upplifa bestu ár ævinnar!  Passið að njóta þeirra í botn og ekki gleyma að drekka kók!”

Ég held aftur á móti að mörgum krökkum líði hreint ekki þannig.  Það er stressandi að vera í skólanum.   Það er stress að líta nógu vel út.   Að láta ekki taka af sér einhverja ömurlega mynd sem færi beint á netið.   Þegar ég var í grunnskóla tók það circa 3 vikur að framkalla mynd!  Sem sagt, einhver tók mynd af manni í partý og síðan þurfti að senda filmuna í bæinn í framköllun og bíða eftir að eintakið kæmi aftur með rútunni 3 vikum seinna.  Og ef maður var ekki ánægður með hárgreiðsluna á myndinni gat maður látið myndina hverfa með einhverjum klækjum.  Nú getur ömurleg mynd af manni verið kominn í allar tölvur í heiminum … eða jörðinni allavega .. á millisekúndum.    Já,  millisekúndum.    Og það er engin leið að láta hana hverfa aftur.

Eitt af því sem er flókið við að vera ungur eru kröfurnar sem maður upplifir.   Fullorðna fólkið segir gjarnan “Þú getir orðið allt sem þú vilt”.  “Fylgdu draumum þínum og þú getur orðið alveg frábær, náð miklum árangri og sannað þig”.

En maður veit bara oft ekkert svo vel hvað manni langar að gera eða verða.    Þess vegna segi ég aftur við ykkur:  “Slakið á.  Þið eruð algjörlega frábær nákvæmlega svona.  Bara hlusta á hjartað og vera maður sjálfur.  Í góðum fíling.”

Mig langar að segja ykkur líka að við, fullorðna fólkið, við þurfum verulega mikið á ykkur unga fólkinu að halda.   Málið er að ungt fólk eins og þið eruð algjörlega nauðsynleg til að koma hreyfinga á hlutina.   Ungt fólk spyr nefnilega spurninga eins og “AF HVERJU?”    Fullorðna fólkið svarar þá gjarnan “ÞETTA ER BARA SVONA,  HÆTTU AÐ SPYRJA”   En ég segi .. aldrei hætta að spyrja.

Við þurfum að spyrja eins og börn:

– Af hverju eiga sumir ekki fyrir mat?

– Af hverju svelta sum börn?

– Af hverju eru sumir fullorðnir svona pirraðir og óþolinmóðir?

– Af hverju þurfa bankar að græða svona mikið?

– Þarf maður að vinna ef manni finnst það leiðinlegt?

– Af hverju þarf maður yfirhöfuð að gera eitthvað leiðinlegt?

Við megum aldrei hætta að setja spurningamerki við það sem innsæið segir okkur að sé ekki rétt.  Alveg sama hversu margir segja “Tja,  en þetta er bara svona!”

Ef ég ætti að gefa ykkur einhver ráð út í lífið þá myndi ég leggja til að þið reynduð að hafa í huga að það er:

Bannað að hugsa illa um sjálfan sig.

Bannað að horfa í spegil og hugsa “ekki nógu gott”.

Bannað að bera sig saman við aðra.

Helst að vera í góðum fíling og hlusta á það hvernig manni líður.

Aldrei láta neinn tala sig út í að gera eitthvað sem manni líður ekki vel með.

OG að lokum að koma fram við alla aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Sem sagt umgangast aðra eftir þessum sömu reglum og þið umgangist ykkur sjálf.

Ég var staddur í skóla úti á landi fyrir nokkrum árum og var að dunda við að skoða myndirnar sem krakkarnir höfðu teiknað og kennararnir höfðu síðan hengt upp á vegg.   Þar höfðu krakkarnir greinilega verið að teikna upp sína framtíðardrauma.   Eitt barnið hafði teiknað mynd af sér skælbrosandi með hóp af furðudýrum í kringum sig.   Á myndinni stóð skrifað með fallegri barnaskrift  “Ég óska að ég muni eiga þúsund apa í framtíðinni”.   Þetta þótti mér vera mér vera ótrúlega falleg framtíðarsýn.   Það er enginn draumur of stór eða skrýtinn.  Eða einfaldur.   Af hverju ekki að eiga þúsund apa?   Er það ekki bara mesta snilld í heiminum?

Og hverju þarf maður alltaf að verða eitthvað?   Af hverju má maður ekki bara vera í friði? Bara vera, í góðum fíling með vinum sínum og fjölskyldu.   Þurfa allir að “sigra heiminn”?

Málið er nefnilega að þegar þú SIGRAR heiminn,  þá þarf einhver að TAPA.

Þegar þú hinsvegar verður besta útgáfan af sjálfum þér og lifir í friði við guð og menn þá tapar enginn.  Svo getur maður nefnilega sett sér markmið og notið þess að ná markmiðum sínum.  En það er þá ekki til að sanna fyrir heiminum að maður sé einhvers virði.  Heldur einfaldlega til að njóta lífsins og hafa gaman af þessum tíma sem okkur er úthlutað í þessum stórmerkilega og skrýtna heimi umkringd frábæru fólki eins og ykkur.  Og það merkilega er að þannig breytum við heiminum líka.

Þó það hljómi ótrúlega fyrir ykkur krakkar þá get ég lofað ykkur því að þið verðið fertug árið 2041.

Allt umhverfið í kringum ykkur á eftir að breytast á svo ótrúlegum hraða næstu árin, miklu meira en þið getið ímyndað ykkur en það merkilega er að á sama tíma þá eru aðrir hlutir sem munu ekki breytast neitt.  Árið 2041 á ykkur ennþá eftir að líða eins og þið séuð ekki mikið eldri en í dag.  Vonandi eigið þið eftir að halda vinskap við hvort annað og hittast á svona fermingar-reunion.  Þá eigið þið eftir að hlæja að því hvernig allir gömlu félagarnir eru alveg eins inni við beinið þó þeir séu breyttir í útliti.  Hvernig allir eru innst inni ennþá sömu týpurnar og þeir voru í grunnskólanum.   Vonandi á ykkur eftir að þykja vænt um hvort annað.  Og mikið væri gaman ef eitthvert ykkar myndi mæta með þúsund apa til veislunnar.

Til hamingju með daginn.

Jónas Sigurðsson

Til baka í yfirlit