Borgaraleg ferming

Markmið borgaralegrar fermingar er að styrkja sjálfsmynd, metnað og uppbyggilegt hugarfar. Fermingarfræðsla miðar að því að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og búa þeim dýrmætt veganesti til framtíðar.  Borgaraleg ferming er valkostur fyrir þá sem t.d. eru ekki reiðubúnir að strengja trúarheit, en vilja samt halda upp á þetta tímabil í lífi sínu eins og algengt er í fjölmörgum samfélögum. Tilgangur borgaralegrar fermingar er meðal annars að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins. 

Fyrsta borgaralega fermingin á Íslandi fór fram árið 1989 og hefur verið haldin árlega síðan. Árið 2020 fermdust 13% af öllum börnum á 14. ári borgaralega hjá Siðmennt.

Undirbúningsnámskeið

Ungmenni sem fermast borgaralega sækja undirbúningsnámskeið þar sem fjallað er um ýmislegt sem miðar að því að efla þroska, gott siðferði og ábyrgðarkennd. Má nefna sem dæmi gagnrýna hugsun, siðfræði, fjölmiðlalæsi, að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi, mannleg samskipti, fjölmenningu og fordóma, skaðsemi vímuefna, sjálfsmyndina og samskipti kynjanna, hamingjuna og tilgang lífsins, tilfinningar og sorg, mannréttindi og að bera virðingu fyrir umhverfi sínu.

Námskránna má finna hér: Námskrá BF

Námskeiðin standa yfir í 11 vikur og kennt er einu sinni í viku, en einnig er boðið uppá helgarnámskeið, bæði í Reykjavík og víðsvegar um landið.

Athöfnin

Að loknu námskeiði eru ungmennin fermd við hátíð­lega athöfn. Hluti fermingarbarnanna tekur virkan þátt í athöfninni, t.d. með ljóðalestri, dansi, tónlistarflutningi og ávörpum og öll fá viðurkenningarskjal sem staðfestir ástundun þeirra í náminu. Á höfuðborgarsvæðinu fara athafnir alla jafna fram á sunnudögum í apríl og utan þess eru fermingarathafnir haldnar eftir þátttöku á hverjum stað hverju sinni. Siðmennt leggur metnað í að gera athafnir sínar hátíðlegar og virðulegar, en jafnframt skemmtilegar og eftirminnilegar.

Orðið ferming er dregið af latneska orðinu confirmare, sem merkir m.a. að styrkjast eða staðfesta. Ungmennin eru að styrkja þá ákvörðun sína að vera ábyrgir borgarar í lýðræðislegu samfélagi.

Ferming fyrir öll ungmenni

Við eigum það öll sameiginlegt að vera manneskjur og fögnum fjölbreytileika mannlífsins. Fermingin er opin öllum ungmennum, óháð uppruna, kyni, kynhneigð eða trúarbrögðum. Engin krafa er gerð um skráningu í Siðmennt til að fermast borgaralega, enda teljum við að börn eigi að taka ákvarðanir um slíkar skráningar sjálf þegar þau hafa aldur til. Aftur á móti, þá fá foreldrar fermingarbarna afslátt!

Námskeið um allt land

Fermingarbörnin sækja námskeið á höfuðborgarsvæðinu í 11 vikur, einu sinni í viku í um 80 mínútur í senn. Kennsla hefst í byrjun janúar. Þátttakendur utan höfuðborgarsvæðisins sækja tvö helgarnámskeið , sem verða í boði í Reykjavík, Akureyri, Reykjanesbæ, Akranes, Selfossi og mögulega víðar. Ef næg þátttaka er fyrir hendi í heimabyggð er möguleiki á að halda helgarnámskeið á staðnum. Æskilegt er að áhugi um það komi fram við skráningu. Ungmenni búsett erlendis geta tekið fermingarnámskeið í fjarnámi.

Frekar upplýsingar

Undir flipanum „Kynningarefni“ höfum við safnað saman ýmsu ítarefni um borgaralega fermingu, smellið hér til að lesa meira

Einnig má senda spurningar í tölvupósti á ferming@sidmennt.is, hringja í okkur í síma 533-5550 eða senda skilaboð í gegnum Facebook-síðu Siðmenntar.