Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Claudie Ashonie Wilson við borgaralega fermingu 2020

Claudie Ashonie Wilson var annar af ræðumönnum í borgaralegri fermingu Siðmenntar sumarið 2020, en hún flutti ræðuna fyrst þann 17. júní og svo aftur í Hörpu helgina 29. og 30. ágúst.

Claudie er frá Jamaíku og flutti hingað til lands árið 2001. Frá þeim tíma hefur hún verið mjög virk í félagsstörfum á Íslandi, m.a. sat hún sem varaformaður í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna og situr nú í stjórn Amnesty International á Íslandi, fulltrúaráði SOS Barnaþorpa á Íslandi og fagráði Jafnréttissjóðs. Claudie lauk prófi haustið 2016 til að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi og er fyrsti einstaklingurinn utan Evrópu til að ljúka slíku prófi hér á landi. Claudie er nú meðeigandi hjá Rétti lögmannsstofu og hefur starfað þar síðan árið 2013. Hjá Rétti hefur Claudie fengist við mannréttindamál, refsiréttarmál, innflytjenda- og flóttamannamál. Samhliða lögmannsstörfum sínum er Claudie stundakennari við Háskóla Íslands, Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Ræðuna í heild má lesa hér fyrir neðan eða horfa á upptöku sem fylgir hér einnig:

Ágætu „fermingarbörn“, aðstandendur og aðrir gestir, innilega til hamingju með
daginn.

Þið eruð öll glæsileg og það er mér sannarlega mikil ánægja og heiður að ávarpa
ykkur hér í dag.

Erindi mitt í dag ber heitið „Að vera hetja sögu sinnar og fulltrúi framtíðarinnar“
Mig langar að byrja erindi mitt með smá sögu… Ég elska að segja sögur… og þess
vegna var ég sérstaklega ánægð þegar ég var stödd í heitum potti í sumarbústað
á Suðurlandi og níu ára stjúpsonur minn bað mig um að segja honum sögu um líf
mitt á Jamaíku frá því þegar ég var barn.

Ég var mjög ánægð að hann vildi vita meira um líf mitt þar og hlusta á sögurnar
mínar, umfram að vera í símanum sínum. Ég sagði við hann að þegar tvíburarnir
mínir voru aðeins fimm ára gamlir, þá hætti ég að lesa bækur fyrir þá fyrir
svefninn, aðallega af því að þeir vildu bara heyra um æsku mína á Jamaíku.
Þessar frásagnir mínar eru ekki um einhverja prinsessu sem bjó í kastala, heldur
um unga stelpu sem bjó í litlu þorpi í suðurhluta Montego Bay á Jamaíku og ólst
upp með fjórum systkinum, nokkrum frændsystkinum, afa sínum og ömmu.

Sögurnar mínar snerust aðallega um skólagöngu mína, að þurfa að labba marga
kílómetra á dag til og frá skólanum, um að borða ekki besta matinn, en þó mikið
af ávöxtum – því þeir voru alltaf til -, og að kjöt og annar fínni matur hafi verið af
skornum skammti. Sögurnar voru líka um að þurfa að labba marga kílómetra til
að sækja drykkjarvatn í fötu og þvo þvottinn í ánni, helst að morgni til fyrir
skólann. Ég sagði þeim líka stundum frá þeim dögum sem ég mætti ekki í skólann,
ýmist vegna þess að það voru ekki til peningar og stundum vegna þess að ég þurfti
að aðstoða afa og ömmu á föstudögum við undirbúning fyrir markaðinn.

Það gleður mig mjög að rifja upp þessa tíma – Ég gæti rifjað þá upp í margar
klukkustundir og sem betur fer finnst börnunum gaman að heyra frásagnirnar.
Ekki síst finnst mér gaman að rifja upp þessar æskuminningar mínar af því það
gefur mér tækifæri til þess að velta fyrir mér: í fyrsta lagi, hvar ég var í fyrra lífi
mínu, í öðru lagi, hvar ég er stödd í dag, og í síðasta lagi, hvert ég stefni.

Eins og kom fram hér áðan flutti ég til Íslands fyrir tæplega 19 árum síðan. Ég
ákvað að skella mér í eina flugferð um hávetur í desember til Íslands. Ekkert mál
ekki satt-? Hafið þið kannski séð kvikmyndina Cool Runnings um bobsleðalið
Jamaíku á Ólympíuleikunum 1998? Eins og leikpersónurnar í þeirri mynd lærði ég
fljótt að það að sjá snjó í sjónvarpinu er allt annað en að vera komin í snjóinn og
að vera umkringd honum alla daga.

En nóg með það, hingað var ég komin aðeins 18 ára gömul, langt frá fjölskyldu
minni og vinum og ætlaði að byrja nýtt líf. Ég ætlaði að verða lögfræðingur á
Íslandi en áttaði mig ekki á því að lögfræðinámið yrði ekki á móðurmáli mínu.
„Hvernig get ég orðið lögfræðingur?- Ég tala ekki einu sinni íslensku- Ok,
þetta er víst hindrun, en ekki óyfirstíganleg… lærðu hana bara, svona var
þrjóskan í mér, mín innri rödd.“
*******

Þótt ferming sé óþekkt fyrirbæri á Jamaíku, man ég samt vel eftir því þegar ég
hugsa til baka, að ég var á svipuðum aldri og þið eruð í dag, þegar ég fór að velta
fyrir mér, hvað mig langar að gera í framtíðinni. Það var að vera lögfræðingur. Ég
vissi að menntun mín var það dýrmætasta sem ég átti og að menntunin myndi
koma mér úr fátækt. Sagan mín er að þessu leyti ekki frábrugðin sögu fyrrverandi
forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, sem ólst líka upp við fátækt og sá
menntun sína sem lausn út úr fátæktinni. Um þetta skrifaði hún m.a. í bókinni
sinni „Becoming“ sem kom út árið 2018.

Það má segja að það að fermast tákni ákveðin kaflaskil í lífi barna. Börn fara frá
því að vera „lítil börn“ yfir í að vera „ungt fólk“. Þetta þýðir alls ekki að þið þurfið
að vera fullorðin, langt því frá, en eflaust mun ákveðin innri skoðun fara fram,
kannski ekki á morgun, á næstu vikum eða mánuðum. En það mun gerast. Þið
munið væntanlega velta fyrir ykkur hvar þið eruð stödd og hvert þið stefnið – og
hvert ykkar mun finna rétta svarið fyrir ykkur sjálf.

Eitt er víst. Þið eruð fulltrúar framtíðarinnar. Sama hvað þið eruð búin að ákveða
að gera t.d. að vera næstu lögfræðingar, tannlæknar, læknar, lögreglumenn,
listamenn, kennarar, tónlistamenn, vísindamenn, stjórnmálamenn eða hvað sem
ykkur dettur í hug – þá er ég sannfærð um að sem fulltrúar framtíðarinnar er
heimurinn ykkar leikvöllur og að þið munuð setja nýjar leikreglur um hvers konar
samfélag sem þið viljið búa í. Sem fulltrúar framtíðarinnar eruð þið mun víðsýnni
og mannréttindasinnaðri kynslóð en kynslóðin á undan ykkur. Þetta er ekki aðeins
mín skoðun, heldur hafa rannsóknir sýnt fram á þetta.

Þið eruð djarfari en foreldrar og forfeður ykkar. Þið eruð óhræddari við að tjá
tilfinningar og skoðanir ykkar. Þið eruð óhrædd um að gera kröfur, hvort sem um
er að ræða jafnréttismál eða loftlagsmál. Ég er vongóð um að þið munið gera
heiminn mun betri. Þið getið allt!

Sagan mín um hvaðan ég kom og þær aðstæður sem ég bjó við er ekki sorgarsaga,
heldur saga sem ég segi ykkur til að minna ykkur á það að þið eruð óstöðvandi og
getið gert hvað sem ykkur dettur í hug. Það eina sem takmarkar ykkur eruð þið
sjálf. Draumurinn minn hefur ræst og ykkar draumur mun einnig rætast hver sem
sá draumur er!

Ef þið munið ekki eftir neinu öðru sem ég segi hér í dag, langar mig til að þið
munið þetta. Gætið vel að því sem þið stundið eða æfið. Því æfingin skapar
meistarann. Þannig að, ef þið æfið neikvæðni, reiði eða óhamingju þá verðið þið
mjög góð í því – Af þessum ástæðum langar mig til að biðja ykkur um að æfa
sjálfsást, jákvæðni, hamingju og hugrekki, einnig að vera góð við hvort annað og
ekki síst að hafa trú á sjálfum ykkur.

Kæru fulltrúar framtíðarinnar, ykkar framtíð er björt. Njótið dagsins!

Til baka í yfirlit