Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Vigdísar Hafliðadóttur við borgaralega fermingu í Bæjarbíói, 16. maí 2021

Ræða Vigdísar Hafliðadóttur við borgaralega fermingu í Bæjarbíói, 16. maí 2021

Vigdís Hafliðadóttir hélt ræðu við borgaralega fermingu í Bæjarbíói þann 16. maí 2021. Vigdís er leiðbeinandi í fermingarfræðslu Siðmenntar, útskrifuð með gráðu í heimspeki, söngkona í hljómsveitinni FLOTT og uppistandari.

Kæru fermingarbörn, foreldrar, forráðamenn og aðrir góðir gestir. 

Ég man þegar ég fór á Reyki í Hrútafirði með árgangnum mínum í 7. bekk. Ég hafði hlakkað til frá því um haustið enda heyrt sögur frá eldri nemendum í skólanum um hvað þetta væri gaman. 

Það var eitthvað í loftinu á Reykjum sem ég áttaði mig ekki á. Kannski var það það vorið, kannski var það tækifærið að vera í burtu frá foreldrum okkar og forráðamönnum í einhvern tíma sem olli því að mér mætti hvert áfallið á fætur öðru. Besta vinkona mín þá var farin að hanga meira með nýju stelpunni í árgangnum og þeim fannst miklu meira spennandi að tala við strákana úr Kópavogi en okkur bekkjarsystkinin. (Þegar ég æddi inn í herbergi til að athuga hvort ein í bekknum vildi koma að leika sem sást aldrei öðruvísi en í íþróttagalla með úfið hár í tagli, þá sat hún inni í herbergi með fleiri stelpum að raka á sér lappirnar. Á lokakvöldinu vildu stelpurnar dansa dans í magabolum og fannst fáránleg hugmynd að leika leikrit, en bara fyrir jól þá var það að búa til leikrit það skemmtilegasta sem við gerðum. Ég bara skildi ekki hvað var að gerast. Af hverju var allt í einu eitthvað ekki skemmtilegt eða í lagi, sem hafði verið stórskemmtilegt og fullkomlega eðlilegt bara rétt áður? 

En ég fór svo að átta mig á því smátt og smátt hvað var að gerast. Við vorum öll að breytast. Vaxa, og þroskast. Hægt og rólega eitt af öðru fórum við að mynda okkur skoðanir. Ákveða hvað okkur fannst skemmtilegt, spennandi, asnalegt eða mikilvægt. Ég verð að viðurkenna að fyrir marga fór flest í flokkinn “asnalegt” og “óþægilegt” en það urðu allskonar breytingar. Ein hætti á fiðlu og byrjaði að læra á gítar, einn hætti í fótbolta og fór í júdó, ein klippti sig stutt, annar safnaði hári, einhver skipti um nafn, ýmsir komu út úr skápnum, einn vildi byrja að vinna, annar vildi semja tónlist, sumir nenntu ekki að læra mjög mikið, aðrir byrjuðu að læra meira.

Ástæðan fyrir því að ég nota ferðina á Reyki sem dæmi, er að hún markaði upphafið að þeim árum sem komu í kjölfarið. Þessi vorferð var í mínu tilfelli stökkið inn í 8. Bekk, fermingarárið.  Og margt af því sem mér fannst í 8. bekk, eða vinum mínum var ekki eins árið eftir, hvað þá í framhaldsskóla eða núna þegar ég er 62 ára. Þetta var grín, ég var bara að athuga hvort þið væruð að hlusta. 

Fermingin markaði í mínu tilfelli, upphafið að því að við fórum að velja hvaða leið við vildum fara í lífinu og hvað skipti okkur máli. Þið sem sitjið hér, svona glæsileg, þið hafið til dæmis ákveðið að ferma ykkur og að ferma ykkur hjá Siðmennt, og þið hafið eflaust flest haft einhverjar skoðanir á því hvernig þið viljið fagna áfanganum.

En það getur verið mjög erfitt og krefjandi að ákveða hvað maður vill gera og hvað skipti mann máli í lífinu því það sýnir líka oft hvaða mann maður hefur að geyma og hvaða eiginleika maður vill rækta í sjálfum sér.

En það getur verið mjög erfitt og krefjandi að ákveða hvað skipti mann máli og hvað sé mikilvægt í lífinu. Ýmsar ákvarðanir sem þið og við öll þurfum að taka á hverjum degi krefjast þess að við spyrjum okkur: hvernig manneskja vil ég vera?

Vil ég klæðast fötunum eða eiga hlutina sem eru í tísku eða finnst mér kannski ekkert sérstaklega mikilvægt að vera eins og allir aðrir? 

Vil ég hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á jörðina og umhverfi mitt? 

Vil ég vera góður vinur? Ef já, hvað gerir góður vinur? 

Aristóteles, uppáhalds heimspekingurinn minn, sagði að fólk fæddist ekki sem dyggðugar og góðar manneskjur heldur væri það verkefni hvers og eins og hluti af uppeldi okkar að temja okkur góða breytni. Ákveða að gera góða hluti og verða þannig að góðum manneskjum.
Eins og með allt annað sem við gerum, þá verðum við ekki góð í því nema við æfum okkur. 

Og þess vegna langar mig að hvetja ykkur, kæru fermingabörn en líka ykkur foreldra, forráðamenn og okkur starfsfólkið til að við spyrjum okkur reglulega: hvernig manneskja vil ég vera? Vil ég vera góð manneskja og hvað þarf ég þá að gera?

Til hamingju með daginn og gangi okkur öllum vel.

Til baka í yfirlit