Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanismi í stað trúar

Orðið húmanismi hefur verið skilgreint á marga vegu í gegnum tíðina því að margir hafa viljað skreyta sig með honum ef svo má segja. Undantekning var þó 68kynslóðin, eða hluti hennar. Hún sagði húmanista gjarnan vera gervilegir og loftkenndir. Meðal hinna mörgu sem hafa viljað eigna sér húmanismann eru hins vegar til að mynda ýmsar stjórnmálahreyfingar. Þær segja sem svo að stefna sín stuðli að friði og velferð i heiminum. Sumir guðfræðingar líta einnig svo á að kristnin boði húmaníska siðfræði: elska skaltu náunga þinn o.s.frv. Alþjóðahreyfing húmanista tengist þó hvorki trúarstefnum né stjórnmálastefnum. Innan hennar er beinlínis litið svo á að húmanismi sé andstæða trúarhyggju. Og markmið húmanismans varðandi stjórnmál eru almennari en svo að þau megi tengja einstökum stjórnmálastefnum.

Samtök húmanista hafa verið við lýði i heiminum síðan á 19. öld og starfa þau nú í yfir 40 löndum, þar á meðal á öllum Norðurlöndunum. Þeirra yngst er íslenska félagið, sem nefnist „Siðmennt, félag áhugafólks um borgaralegar athafnir“. Það hefur starfað í á annað ár og hefur um eitt hundrað félagsmenn. I Noregi, heimalandi fyrirlesarans Kari Vigeland, nefnist félag húmanista „HumanEtisk Forbund“ (skammstafað: HEF). HumanEtisk Forbund hefur náð því að verða gífurlega fjölmennt og áhrifamikið. Fundi þess og samkomur sækja árlega nálægt eitt hundrað þúsund manns. Þegar umræður fara fram í fjölmiðlum um skóla og menntamál eru þau einnig nær sjálfsagður þátttakandi. Sömuleiðis er leitað ráðgjafar hjá þeim ef samin eru frumvörp eða reglugerðir sem tengjast lífsskoðunarmálum. Aðstæður í Noregi eru að mestu leyti þær sömu hérlendis, en þó ekki öllu. Trúaráhugi Norðmanna er mjög lítill, eitt til tvö prósent sækja kirkjur reglulega. Vel er þó búið að kirkjulegu starfi með opinberum fjárframlögum engu síður en hér. En þjóðkirkjan norska er meira bókstafstrúar en við eigum að venjast og sama gildir um hinn almenna Norðmann.

HumanEtisk Forbund var stofnað árið 1956 og taldi lengi aðeins nokkur hundruð félaga. Fjölgunin í félaginu hefur einkum átt sér stað á undanförnum 15 árum. Árið 1976 voru félagsmenn um 1600, en eru nú um 44000. HEF er nú stærsta lífsskoðunar eða trúfélagið í Noregi utan þjóðkirkjunnar og raunar stærsta félag sinnar tegundar í heiminum. Ástæður þessa mikla uppgangs hafa menn rakið meðal annars til lífseiglu bókstafstrúarinnar í Noregi. Fríþenkjarar þar hafi fundið hjá sér sterkari þörf en ella að þjappa sér saman. Önnur ástæða og ekki síður mikilvæg er hæfir forystumenn og öflugt og markvisst starf. Sagt er að í hvert skipti sem norska kirkjan gengur fram af almenningi þá fjölgi í HumanEtisk Forbund. En það gerist þeim mun fremur sem HumanEtisk Forbund láti betur vita af sér.

Umfang starfsemi HumanEtisk Forbund má meðal annars marka af reikningum þess. Árið 1989 var veltan 15 miljónir norskra króna, þ.e. 150 miljónir íslenskar, og árið 1990 var hún komin upp í 17 miljónir. Þessi háa velta stafar af hinum mikla fjölda félagsmanna. Með hverjum þeirra borgar ríkið „sóknargjald“, auk sérstyrkja til ýmissa verkefna, aðallega á sviði fræðslumála. Ennfremur leggja félagsmenn fram greiðslur í formi áskrifta o.s.frv. Styrkir og tekjur af hverjum félagsmanni eru þannig rúmlega 4000 íslenskar krónur á ári. Launaðir starfsmenn HumanEtisk Forbund eru um 15 talsins og vinnur um helmingur þeirra á aðalskrifstofunni í Osló. Hinir starfa úti í fylkjunum.

Stærð HumanEtisk Forbund kann að vekja upp ýmsar spurningar. Félag með svo stóran hóp á bak við sig er orðið umtalsvert samfélagslegt afl í ekki stærra landi en Noregur er. Og hvernig og i hvers þágu á að beita þessu afli? Þess má geta að 5 af 18 ráðherrum í ríkistjórn Noregs fram að síðustu kosningum (fyrir nokkrum vikum), þar á meðal Brundtland sjálf, voru eða höfðu verið félagar í HEF. Þessari staðreynd var velt upp fyrir skömmu i norskum fjölmiðlum, m.a. vegna þess að í stjórnarskrá landsins segir að ríkisstjórn landsins skuli styðja og styrkja ríkis kirkjuna. En í raun er lítil forsenda fyrir vangaveltum af þessu tagi. Starfsemi HumanEtisk Forbund snýst fyrst og fremst um borgaralegar athafnir. Á árunum 19891990 fóru fram 350 útfarir á vegum félagsins, 1700 börn voru nefnd og 8600 unglingar fermdust. Um 120.000 manns voru viðstaddir þessar athafnir. Nafngiftirnar eru nýjasti þátturinn í starfi HEF. Þær komust ekki á verulegan skrið fyrr en árið 1988, en síðan hafa þær tekið mikinn fjörkipp. Hafa þær náð mun hraðari útbreiðslu en til að mynda fermingin gerði.

Fermingarnar eru þó sem fyrr stærsti þátturinn í starfinu. Um 4000 ungmenni fermast árlega á vegum félagsins á um 100 stöðum á landinu. Eru það nálægt 10% allra fimmtán ára ungmenna í landinu. Ýmis vandamál hamla þó enn starfi HEF á þessum vettvangi. Til að mynda hefur ekki nema á stöku stað fengist leyfi til að kynna borgarlega fermingu í skólum (sama sagan og á Íslandi). Kirkjunnar menn hafa hins vegar þrengt sér inn í skólana í mun meiri mæli en lög leyfa. Togstreitan um borgaralegu ferminguna kemur einnig fram í dagblöðunum. Á síðastliðnu ári voru til að mynda um 100 greinar skrifaðar með henni og móti.

Á árunum 1989 og 1990 voru fulltrúar HumanEtisk Forbund ræðumenn við um 3150 útfarir. Er það svipaður fjöldi og verið hefur um nokkurt skeið. Fyrir um ári gerðist það að fimm þingmenn Verkamannaflokksins lögðu fram frumvarp um að kirkjur landsins skyldu opnaðar borgaralegum útförum. Það fékk lítinn hljómgrunn. Slíkt tíðkast hins vegar hérlendis, eins og kunnugt er.

Meðal áhugamála HumanEtisk Forbund er skólastaf. Er skóla og námsfulltrúi í fullu starfi og gegnir því nú maður af íslensku móðerni, Kjartan Selnes. Norska kirkjan hefur verið ágeng í skólum. Meðal annars fer fermingarundirbúningur þar fram að hluta til. Þessu hefur HEF unnið gegn.

Einnig hefur félagið unnið að námsefni sem komið getur í stað kristnidómsfræðslu og er byrjað að taka það til kennslu.

Útgáfustarfsemi er veruleg á vegum Human

Etisk Forbund. Flaggskipið, ef svo má segja, er tímaritið Humanist. Það hefur eflst eins og annað í félaginu með auknum félagafjölda og hefur nú mesta útbreiðslu „menningartímarita“ í Noregi. Húmainstaverðlaunin eru enn einn þátturinn. Þau eru veitt árlega einstaklingi sem haldið hefur á lofti húmanískum sjónarmiðum í ræðu og riti. Einnig veitir HEF námsstyrk einum nemanda á ári o.s.frv.

Að lokum má nefna eitt megin stefnumið HumanEtisk Forbund. Það er aðskilnaður ríkis og kirkju í Noregi. Beinist baráttan þar sérstaklega að stjórnarskrárgrein númer tvö. Lítið virðist hafa miðað á því sviði upp á síðkastið. En þó fara undirtektir heldur vaxandi. Jafnvel margir kirkjunnar menn sjá kosti við aðskilnað ríkis og kirkju, þ.e. þeir telja að draga muni úr lognmollu í trúarlífinu. Margvísleg starfsemi fer fram af hálfu HEF gegn stjórnarskrárgrein nr. 2, m.a. fundahöld, upplíming auglýsingaspjalda, dreifing eyðublaða fyrir fólk til að segja sig úr ríkiskirkjunni o.s.frv. Enda virðist ríkiskirkja, með öllum sínum forréttindum, samræmast illa frjálsri skoðanamyndun og lýðræðisvitund nútímans.

Höfundur er formaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit