Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skráum okkur í Siðmennt í dag!

Kæru vinir Siðmenntar! Við í Siðmennt mælum með því að þau ykkar sem aðhyllist lífssýn manngildis án trúar á æðri mátt og viljið styðja við menningu fjölskylda í þá veru, skráið ykkur í Siðmennt – Félag siðrænna húmanista á Íslandi í dag eða á morgun (rafrænt).

Ástæðan fyrir asanum er sú að það er mikilvægt að skrá sig fyrir 1. des. því að þá er árið gert upp og fjöldinn sem þá er kominn gildir sem grunnur fyrir sóknargjöldum til félagsins og verður opinber félagatala fyrir árið 2013.

Þetta er fyrsta ár Siðmenntar í skráningunni hjá Þjóðskrá og það skiptir miklu máli að fólk sem deilir lífssýn með félaginu skrái sig í stað þess að vera utan trúfélaga eða innan trúfélags sem það á takmarkaða samleið með.  (Frá 2009 nýtur HÍ ekki lengur sóknargjalda þeirra sem eru skráðir „utan trúfélaga“).

Mikilvægt er einnig að vekja athygli vina og fjölskyldufólks, 16 ára og eldri, á þessu deili það sömu lífssýn. Sameinuð stöndum við fastar og betur!

Siðmennt er mikilvægt félag sem þarf allan þann stuðning sem fólk húmanískrar lífssýnar hefur tök á að veita því. Aðildin sjálf að félaginu er mikilvægust, ekki síst til að sýna samstöðu í fjöldanum sem skráðir eru.

Í dag föstudagurinn 29. nóvember er síðasti dagurinn til að fara með útfyllt skráningarform í Þjóðskrá, Borgartúni 21, Rvk. (opið til 15:30). Hafa þarf með sér skilríki.

EINFALDARI RAFRÆN SKRÁNING:

Nú þarf ekki lengur að fylla út eyðublaðið (A-280 á Þjóðskrá) heldur er nóg að byrja á:

A: Lykilorð sem kallast Íslykillinn á www.island.is

 

Þegar maður er kominn með Íslykilinn (aðgangsorðið) er nóg að

B: Smella á þennan hlekk: https://innskraning.island.is/?id=afgreidsla.skra.is

Setja þar inn kennitölu og Íslykilinn og smella á „Staðfesta“

Þá flyst maður yfir á síðu í Þjóðskrá þar sem hægt er að ljúka skráningunni með því að velja „Siðmennt“ í vallistanum og staðfesta.

—-

Ef að það gengur illa að skrá sig rafrænt má prenta út formið og senda póst á sidmennt@sidmennt.is og biðja um að formið verði sótt eftir útfyllingu. Fulltrúi frá stjórn Siðmenntar kemur og sækir. Þetta er endaspretturinn! Það verður spennandi að vita hversu stór hópurinn verður 1. des.

Komið hefur upp spurningin: Hver er munurinn á því að vera skráður í Siðmennt og að vera ekki skráður í neitt, það er, utan trú- og lífsskoðunarfélaga?

Svarið getur verið m.a. á þennan máta:

Munurinn er sá að með skráningu í Siðmennt er maður á virkan hátt að styðja við félag sem með jákvæðri afstöðu (með yfirlýsingunni „ég er“ í stað þess að segja bara „ég er ekki“) stendur að uppbyggingu valkosta, þjónustu og aðstöðu fyrir trúlaust fólk og fólk sem vill athafnir og fræðslustarf um siðferði á sammannlegum grunni. Einnig má líkja því að vera „utan trúfélags“ sem eins konar hlutleysisgír en að vera í Siðmennt að þora að gefa í þangað sem maður vill fara.

Til baka í yfirlit