Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Lög um guðlast afnumin á Íslandi!

Alþingi Íslendinga samþykkti í dag að afnema guðlastákvæði úr hegningarlögum. Það var þingflokkur Pírata sem lagði fram tillögu þess efnis í janúar síðastliðinn og hlaut hún viðtækan stuðning allra flokka á þingi en málið var samþykkt samhljóða úr nefnd. Þar með hafa Íslendingar tekið mikilvægt skref í mannréttindamálum og skipað sér meðal þjóða sem virða tjáningarfrelsi.

Einnig var víðtækur stuðningur í umsögnum um frumvarpið og fyrir utan stuðning Siðmenntar var stuðningur í umsögnum aðila eins og Biskupsstofu, Prestafélags Íslands, Félags bókaútgefenda, PEN á Íslandi, IMMI – alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi og Vantrúar.

Með frumvarpinu er verið að bregðast við gagnrýni ýmissa alþjóðastofnanna s.s. Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuráðsins og Feneyjarnefnd Evrópuráðsins sem sérstaklega ályktað um að þjóðir ættu að afnema ákvæði um guðlast úr lögum sínum.

Siðmennt hefur ávallt lagt áherslu á að afnema bæri guðlastákvæði úr hegningarlögum og hefur sent þingmönnum ábendingu um það í árlegu bréfi til þeirra þar sem settar eru fram ábendingar um mikilvæg málefni sem stuðla að auknum mannréttindum.

Í umsögn Siðmenntar til Alþingis um málið er m.a. vitnað í áðurnefnt bréf og segir:

„Oft eru ríki þar sem skortur er á lýðræði og frelsi gagnrýnd fyrir að refsa fólki fyrir guðlast og þá jafnvel með dauðadómi. Þegar þessi ríki eru gagnrýnd benda talsmenn þeirra oft, réttilega, á að sambærileg lög séu einnig í gildi í „vestrænum “ lýðræðisríkjum. Því eru það mikilvægt skilaboð til umheimsins að afnema lög um guðlast á Íslandi. Ríki sem beita slíkum lögum með alvarlegum afleiðingum eiga ekki að geta bent til að mynda á Ísland og sagt að svona sé þetta nú líka þar.“

Siðmennt fagnar því að þingmenn allra flokka hafi stuðlað að auknum mannréttindum. Á það skal bent að enn eru í lögum ákvæði gegn hatursáróðri svo rétturinn til að vinna gegn slíku er áfram tryggður.
Nánari upplýsingar veitir Bjarni Jónsson í síma 8968101.

Til baka í yfirlit