Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vegna greinar Péturs Péturssonar prófessors

PÉTUR Pétursson prófessor og rektor Skálholtsskóla ritar grein í Morgunblaðinu 20. júlí sl. þar sem hann annars vegar leitast við að svara spurningunni hvað er þjóðkirkja Íslendinga og hins vegar skammar hann fjölmiðlafólk fyrir að hafa skemmt kristnihátíðina á Þingvöllum. Jafnframt býðst hann til að bæta úr fáfræði þess í kristni og kirkjudeildum á Íslandi með endurmenntunarnámskeiði. Ekki er ætlun mín að ræða þann málflutning.

 

Það var undirfyrirsögn greinarinnar sem vakti áhuga minn. Þaðan eru tekin upp eftirfarandi orð: „Það er staðreynd að íslenska þjóðin leitar til kirkju sinnar, bæði sem heild og sem einstaklingar – á hátíðum, á gleðistundum og eins þegar sorg og áföll steðja að.“

Það er rétt, fólk sem alla jafnan sækir ekki kirkju lætur samt gifta sig í kirkju, lætur presta skíra og ferma börnin sín og jarða sína nánustu.

Er þetta „að leita til kirkju sinnar“? Má vera – en það er mín skoðun að það séu langt frá því allir sem geri það af fúsum og frjálsum vilja. Ég tel að margir noti þessa þjónustu kirkjunnar einfaldlega vegna þess að þeir vita ekki að annað er í boði. Mjög margir halda að þessir hátíðlegu atburðir í lífi einstaklings, hvort sem þeir tengjast sorg eða gleði, megi ekki vera á annan hátt. Kirkjan er búin að einoka persónulegar athafnir fólks á þann hátt að flestum dettur ekkert annað í hug og telja jafnvel að það varði við lög að brjóta þessar hefðir.

Undantekningar eru þó á þessu. Alltaf hefur tíðkast láta gefa sig saman borgaralega. Ekki eru öll börn skírð en nafngift foreldra látin nægja og ekki eru heldur öll börn fermd.

Siðmennt, félag um borgaralegar athafnir, hefur um árabil staðið fyrir borgaralegri fermingarathöfn að undangengnu vönduðu námskeiði í siðfræði og lífsleikni. Mikil fjölgun hefur orðið á þátttöku þrátt fyrir andstöðu kirkjunnar manna sem hafa ekki linnt látum í að reyna að sannfæra fólk um að kirkjan ein eigi rétt á því að búa til athöfn sem markar tímamót milli bernsku og fullorðinsára einstaklings.

Siðmennt hefur einnig kynnt hugmyndir um hátíðlegan fjölskyldufund um borgaralega nafngift og borgaralega giftingu. Nafngift og gifting eru í flestum tilfellum lokaðar athafnir þar sem aðeins fjölskylda og nánustu vinir eru viðstaddir. Öðru máli gegnir um minningarathafnir. Þær eru tilkynntar í fjölmiðlum og því oft fjölmennar. Kirkjan hefur nánast algjörlega einokað þessar athafnir – bæði það sem kallað er „kistulagning“ og síðan útförina sjálfa. Og henni tekst það svo rækilega að jafnvel fólki sem líður illa í þessum athöfnum vegna þess að því finnst þær yfirborðskenndar og í andstöðu við lífsskoðanir hins látna og sínar eigin, dettur ekki í hug að sé hægt að gera þetta öðru vísi. Fólk heldur að það verði að vera prestur sem stjórnar athöfninni og að hún verði að vera í þeim farvegi sem kirkjan hefur búið til. Útfararstofur skipuleggja borgaralegar útfarir ef þess er óskað og einnig hefur Siðmennt gefið út kynningarbækling um borgaralegar útfarir. Þær fara þó flestar, ef ekki allar, fram í kirkju – ekki síst vegna þess að ekki er völ á öðru húsnæði án endurgjalds. Ekkert borgaralegt hús er til, til slíkra athafna, eins og kirkjan er. Samkomuhús landsins, þ.ám. ráðhús Reykjavíkur, eru vissulega til boða – en fyrir háa leigu.

Um verkefni kirkjunnar er einnig mjög lítil umræða. Um kirkjuna og þjóna hennar er nokkur. Mest um svokölluð hneykslismál, bruðl kirkjunnar og ágreiningsefni innan hennar. En minna er talað um verkefni kirkjunnar og þau tekin til gagnrýninnar endurskoðunar. Og lítið er um að varpað sé fram spurningum hvort kirkjan eigi ein að hafa þessi verkefni á sinni könnu.

Í grein sinni segir Pétur einnig: „Þegar einstaklingar eiga við harm að búa þá ber þjónum kirkjunnar skilyrðislaust að bregðast við eins og þeir væru staðgenglar Krists.“ Það er ekki vandalaust að nálgast einstaklinga sem bera harm í brjósti og þjónum kirkjunnar ferst það misjafnlega. Ein af þeim mistökum sem þar verða er að nálgast einstaklingana eins og þeir séu allir eins – og allir trúaðir. Hvernig líður þeim einstaklingi sem er trúlaus þegar prestur kemur og segir við hann að „vegir guðs séu órannsakanlegir“ og hann „skuli biðja“?

Það eru sjálfsögð réttindi í lýðræðisríki þar sem opinberlega ríkir trúfrelsi að til séu opinberir aðilar sem sinna einstaklingum sem eiga um sárt að binda án þess að blanda inn í það trú. Slíkir aðilar geta einnig sinnt því hlutverki sem presturinn hefur nú að leita sátta með hjónum sem vilja skilja. Einnig þarf almenningur að hafa aðgang að húsi, sem er ekki trúarmusteri, þar sem hægt er að halda borgaralegar athafnir.

Þannig að þegar Pétur Pétursson prófessor fullyrðir að „íslenska þjóðin leitar til kirkju sinnar“ er það einfaldlega ekki rétt. Of mörgum, sem gjarnan vildu hafa þessar athafnir öðru vísi, finnst þeir neyddir til þess vegna þess að leita til kirkjunnar því þeir vita ekki að til eru aðrir valkostir.

Höfundur er kennari.

Morgunblaðið 15. ágúst, 2000

Til baka í yfirlit