Veraldleg útför

Veraldleg útför er kveðjuathöfn sem er sniðin að þörfum fólks með veraldlegar eða húmanískar lífsskoðanir. Útfarir á vegum Siðmenntar standa öllum til boða, óháð lífsskoðunum. Áhersla er lögð á hið sammannlega og í stað trúarlegs inntaks eru flutt innihaldsrík og viðeigandi orð úr bókmenntum og heimspeki.

Hvað er veraldleg útför?

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar. Veraldlegar útfarir eru eru miðaðar að þörfum fólks með veraldlegar/húmanískar lífsskoðanir, en eru opnar öllum óháð lífsskoðun. Í athöfnum Siðmenntar er lögð áhersla á hið sammannlega.

Athafnarstjóri Siðmenntar stýrir athöfninni og fer með minningarorð og veraldlega siðræna hugvekju. Tónlist, söngur og ljóð eða önnur listræn tjáning eru ríkur þáttur af athöfninni sem ber jafnan ákaflega virðulegt og hlýtt yfirbragð. Ættingjar og vinir geta lagt sitt af mörkum innan ákveðins tímaramma sé þess óskað, t.d. með lestri ljóðs eða stuttrar persónulegrar minningarræðu.

Athafnir Siðmenntar innihalda ekki hugmyndafræðilegar játningar af neinu tagi. Þær eru miðaðar að þörfum fólks með veraldlegar/húmanískar lífsskoðanir, en eru opnar öllum óháð lífsskoðun, t.d. trúuðu fólki sem af einhverjum ástæðum óskar ekki eftir trúarlegri athöfn. Í athöfnum Siðmenntar er lögð áhersla á hið sammannlega.

Siðmennt neitar engum fyrirfram um þessa þjónustu, hvort sem að hinn látni var trúaður eða ekki, en aðstandendur verða að gera sér grein fyrir því að athafnarstjórinn mun ekki flytja trúarlegt efni eða blessanir. Þá getur yfirbragð athafnarinnar ekki heldur verið trúarlegt, þ.e. trúarlegir sálmar eða ljóð verða ekki hluti af athöfninni. Á þessu geta þó verið einhverjar takmarkaðar undantekningar undir sérstökum kringumstæðum (t.d. ef einhver trúaður ættingi óskar eftir að fara með eitthvað trúarlegt efni). Fólki sem vill byggja athafnir sínar á trú er því góðfúslega bent á að leita til trúfélags.

Hvar fara veraldlegar útfarir fram?

Útfarir geta farið fram í hvaða húsnæði sem er sem hentar, en þar sem ekki er um trúarlegar athafnir að ræða eru veraldleg salarkynni æskilegri en kirkjur. Þær kapellur og kirkjur sem eru reistar fyrir kirkjugarðsgjöld eins og bænhusið, kapellan og kirkjan í Fossvogi og kapellan á Akureyri má nota. Stundum er hægt að hylja eða fjarlægja trúartákn úr þessum byggingum sem eru sameign þjóðarinnar.

Annars er hægt að halda athöfnina í félagsheimilum eða öðrum hentugum sölum sem eru til leigu. Dæmi um slíka sali eru Iðnó, Söngskóli Bjarkar, Fáksheimilð Elliðaárdal og fleiri staðir.

Getur trúlaust fólk utan þjóðkirkju leitað til hennar með húsnæði til hinnar hinstu kveðju?

Frá 2011 hefur Þjóðkirkjan neitað fólki um að halda trúlausar athafnir í kirkjum hennar. 

Siðmennt leitar ekki í að halda athafnir í kirkjum þjóðkirkjunnar en hefur sýnt því fólki sem hefur óskað þess skilning og stýrði athöfnum þar á meðan það var leyfilegt.

Uppbygging veraldegra útfara

Þegar óskað er eftir athafnaþjónustu Siðmenntar hittir athafnastjóri aðstandendur og fer í gegnum sögu hins látna með þeim og hugar að minningum og atriðum sem gott er að ræða í sorginni. Athafnastjóri aðstoðar einnig við skipulagningu á efni og efnisröðun útfararinnar í samráði við nánustu aðstandendur og söngstjóra ásamt samningu og flutnings hugvekju og minningarorða.

Til að fá athafnarstjóra frá Siðmennt til að stýra útför þarf að fylla út og senda rafræna beiðni á vef Siðmenntar. Mikilvægt er að beiðnin berist með eins góðum fyrirvara og hægt er miðað við fyrirhugaðan dag útfarar. Það er mikilvægt að slá ekki daginn fastann hjá útfararþjónustu eða húsi fyrr en öruggt er að athafnarstjóri sé fáanlegur þann tiltekna dag. Oftast gengur það vel. Ef lítill fyrirvari er fyrir hendi skal hringja í umsjónarmann athafnaþjónustunnar (sjá nánar neðst á síðunni).

Mikilvægt er að hafa í huga að Siðmennt rekur ekki útfararþjónustu og því þurfa aðstandendur einnig að vera í samskiptum við útfararstofu. Útfararstofur sjá um nauðsynlega þjónustu er lúta að flutningi, umgjörð og skipulagningu útfara eða bálfara. Þær eru nokkrar á höfuðborgarsvæðinu en einnig eru staðbundnar útfararþjónustur á vegum kirkjugarða víðs vegar um landið. Þær sjá um öll framkvæmdaatriði, þar á meðal: Sækja hinn látna, færa hann í líkhús, kistuleggja og grafa. Einnig panta þær, ef óskað er, tíma fyrir útförina, auglýsa hana í fjölmiðlum, útvega líkkistu, sjá um prentun dagskrár fyrir athöfn, panta blómaskreytingar, útvega tónlistarfólk (kóra, einsöngvara, hljóðfæraleikara, hljómbönd), kalla til upplesara o.fl. Útfararþjónustur hafa útbúið bæklinga þar sem þær kynna þjónustu sína.

Kistulagning

Þegar óskað er kistulagningar (sérstök kveðjustund nánustu ættingja og vina) þarf að gæta þess að búið sé að ræða tímasetninguna við athafnarstjóra Siðmenntar svo að tryggt sé að hann/hún komist í hana. Það er venjulega auðvelt þegar kistulagningin er haldin 1 klst eða hálftíma fyrir minningarathöfnina. Eigi hins vegar að halda hana hálfum degi á undan eða á öðrum degi en minningarathöfnin geta komið upp erfiðleikar varðandi fáanleika athafnarstjórans. Í sumum tilvikum hefur annar athafnarstjóri þá verið með kistulagninguna þó reynt sé að hafa það hinn sama og stýrir minningarathöfninni.

Minningarathöfn

Minningarathafnirnar eru mislangar, frá 20 mínútum upp í klukkustund. Fjöldi tónlistaratriða og viðbótar-minningarorða ræður þar um mestu. Hugvekja athafnarstjórans er órjúfanlegur þáttur af hlutverki hans í athöfninni og gefur henni dýpt, og siðrænan og ígrundaðan blæ. Hugvekjur hafa oftast ákveðnar þemur eins og þroska, mannrækt, náttúruást, gildi tónlistar, fjölskyldan, dyggðir og fleira. Þemað tengist oft æviferli hins látna.

Minningarorðin eru persónuleg og reynt að slá á létta strengi og gefa persónu hins látna góð skil eftir því sem óskir um það liggja fyrir.

Venjulega er tónlist flutt og hefur það verið frjálslynt hvernig að henni er staðið og hvaða lög verða fyrir valinu, allt eftir óskum hins látna og/eða aðstandenda.

Greftrun

Kirkjugörðum ber ekki skylda að sjá fyrir óvígðum reitum, en það veltur á kirkjugarðsnefnd hvers garðs hvort að gert sé ráð fyrir slíkum reitum. Í kirkjugarðinum í Grafarvogi eru óvígðir reitir til. Misjafnt er hvort að trúlausu fólki og húmanistum finnst það skipta máli að vera í óvígðum reit eða ekki. Athafnarstjóri Siðmenntar fer með líkfylgdinni að grafreitnum og fer með nokkur falleg orð fyrir jarðsetninguna (eða kveðju með kistuna ofanjarðar) eftir óskum aðstandenda (eða hins látna ef þær liggja fyrir).

Um bálfarir gilda sömu hlutir og nefndir eru hér almennt um útfarir að ofan auk sérreglna sem skoða þarf hverju sinni. Bálfarir fara fram á þriðjudögum og miðvikudögum og þeim fer hlutfallslega fjölgandi á höfuðborgarsvæðinu með hverju ári.

Lagaatriði

Útför hefur ekki lagalega merkingu í sjálfu sér og þarfnast því ekki sérstaks lögaðila til umsjónar á henni. Jafnan er farið eftir óskum hins látna eða nánustu aðstandendum hans.

Skilyrði fyrir framkvæmd

Eftirfarandi þarf að ganga frá og uppfylla áður en útför má fara fram:

Dánarvottorð þess læknis sem úrskurðaði um andlátið þarf að liggja fyrir og því þarf að skila til embættis sýslumanns.

Leyfisbréf sýslumanns er gefið út í kjölfarið (oftast samdægurs) og það á að afhenda þeim sem hefur umsjón með útförinni þ.e. athafnarstjóra Siðmenntar í okkar tilviki (eða sýna útfararstjóra það ef að fjölskyldan sér sjálf um útförina).

Útförina verður að halda innan tiltekins tíma (sjá lög).
Sjá nánar í lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr 36, 4. maí 1993.

Kostnaður

Siðmennt setur upp ákveðið gjald fyrir hverja athöfn og í því felst kaup athafnarstjórans og umsýsla. Ferðakostnaður og gisting/dagpeningar ef með þarf greiðast sérstaklega samkvæmt ákvörðun fjármálaráðuneytisins hverju sinni. Akstursgjaldið er nú 110 krónur á hvern ekinn kílómetra.

Kostnaður aðstandenda við þjónustu Siðmenntar er 35.000 krónur. Prestar þjóðkirkjunnar rukka ekki sérstaklega fyrir útfarir vegna þessara greiðsla en ólíkt prestum eru athafnarstjórar Siðmenntar ekki á föstum launum við þessi störf. Það fer talsverður tími (8-14 klst.) og vinna í undirbúning og framkvæmd útfara. Kostnaðurinn verður því aðeins meiri hjá Siðmennt.

Útfarir eru félögum í Siðmennt að kostnaðarlausu. Það gildir einnig ef maki er í Siðmennt eða ef um útför barns (0-17 ára) er að ræða óháð aðild. Annars er afsláttur 10.000 kr. ef umbeiðandi, systkini eða barn hins látna er í Siðmennt. Innifalið í kostnaði er viðtal við aðstandendur, ráðgjöf um athöfnina, samráð við athafnaþjónustu, ræðuskrif og annar undirbúningur.

Félagi þarf að hafa skráð sig hjá Þjóðskrá í félagið eða staðið skil á félagsgjaldi sínu (ef skráður í félagið utan Þjóðskrár) til að afsláttur gildi.

Beiðni um útför

Athafnaþjónusta Siðmenntar býður upp á faglega þjónustu athafnarstjóra félagsins við tímamótaathafnir fjölskyldna. Virðulegar og persónulegar athafnir í jafnt gleði sem og sorg. Í tilviki útfarar má hafa samstundis samband við framkvæmdastjóra Siðmenntar, Siggeir F. Ævarsson, s. 612-32951, sé lítill tími til stefnu.
 • Almennar upplýsingar

 • Gjaldið fyrir athafnarstjórnunina er rukkað á þessa kennitölu með sendingu greiðsluseðils í heimabanka. Ef óskað er eftir öðrum greiðslumáta skal taka það fram í athugasemdaboxinu neðst.
 • Gata og númer
 • Vinsamlegast skráið niður virkt tölvupóstfang.
 • Staður og tími

  Eðlilegt er að það sé ekki komin dagsetning og þá má sleppa þessum hluta.
 • Date Format: DD dot MM dot YYYY
  Dæmi: 22.11.2010
 • Dæmi: 11:00
 • Má ákveða í samráði við athafnarstjórann
 • Date Format: DD slash MM slash YYYY
 • Upplýsingar um hinn látna

 • A.m.k. fæðingardag takk
 • Date Format: DD dot MM dot YYYY
  dd.mm.áááá
 • Annað

 • Hér er til að mynda hægt að rita óskir um athafnarstjóra.
Close Menu