Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2014 á Höfn í Hornafirði – ræða Óla Stefáns

Ræða sem Óli Stefán Flóventsson yfirþjálfari knattspyrnudeildar Sindra flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Nýheimum á Höfn í Hornafirði 12. apríl 2014.

Ágætu fermingabörn, aðstandendur og aðrir gestir

Ég var hingað fengin til að ávarpa þessa samkomu, gefa holl ráð og heilræði inn í framtíð ykkar sem hér eru komin saman í borgaralega fermingu. Hvaða ráð get ég verið að gefa ungmennum með alla möguleika lífsins í höndunum  var það fyrsta sem kom í huga minn þegar ég fór að pæla í þessu. Ég er ennþá á þeim aldri, þó ég virðist hundgamall að ég man mjög vel eftir þessum tímamótum í mínu lífi sem fyrir 25 árum. Ég man að á þeim tíma var maður ekki mikið að hugsa lengra fram í tímann en kannski morgundaginn enda er maður svosem ekki mikið að velta framtíðinni mikið fyrir sér 13-14 ára gamall. Sjálfur ætlaði ég að verða atvinnumaður í fótbolta, verða ríkur, eignast ógeðslega flotta kærustu. Þetta man ég vel og svona átti mín framtíð að verða þegar ég var fjórtán ára. Þegar ég hugsa um það þá má segja að draumar mínir hafi ræst því ég hef atvinnu af knattspyrnu í dag, ég er mjög ríkur því ég á fjögur heilbrigð börn og ég á ekki bara ógeðslega flotta kærustu í dag, heldur er ég giftur henni.

Það má segja að nú séu ákveðin þáttaskil í lífinu því nú eruð þið að fullorðnast og farið því að kynnast smá saman alvöru lífsins. Það er nefnilega svo ótrúlega merkilegt að lífið bíður uppá endalausa möguleika sem fela í sér ákvörðunartökur og eftir því sem við eldumst verða þessar ákvörðunartökur flóknari, erfiðari og hafa í för með sér afleiðingar, bæði góðar og slæmar.  Í nútíma samfélagi þar sem nálægðin er mikil í formi internetsins þarf að velta mikið fyrir sér hvaða ákvarðanir eru teknar því í dag getur verið dýrt að gera mistök. Það getur t.d haft í för með sér slæmar afleiðingar ef veraldarvefurinn er notaður á óábyrgan hátt eins og t.d í einelti. Ljótar og leiðinlegar myndir festast og það sem við skrifum eða birtum á netinu verður þar áfram þannig að þegar þið eruð komin á minn aldur gæti það ennþá verið fast við ykkur sem þið gerðuð tuttugu og fimm árum áður. Einhverstaðar segir að með miklum krafti fylgir mikil árbygð og það á svo sannarlega við um veraldarvefinn og því gott að hafa í huga að hugsa áður en fræmkvæmt er þar.

Ég hef svo oft staðið sjálfan mig að því að velta fyrir mér tilgangi lífsins. Af hverju er ég hér og hvaða hlutverki gegni ég. Oftast kemst ég að þeirri niðurstöðu að mitt hlutverk hér er að láta gott af mér leiða, koma mér og mínum á framfæri, huga vel að ungunum mínum og síðast en alls ekki síst að halda áfram að þróast og þroskast í rétta átt. Það er klárt mál að við gerum öll mistök sem í eðli sínu geta verið misstór og missmá.  Ég lít á mistökin sem ég hef gert sem þroskaferli, ég geri mistök og læri af þeim. Það tók reyndar eilífðar tíma að fatta þetta og ég þurfti að labba á ótal veggi áður en ég áttaði mig á því að ef maður viðurkennir ekki mistök sín eða áttar sig á ekki á þeim þá lærir maður ekki af þeim og er því alltaf að labba á sömu veggina.

Fyrir allnokkrum árum síðan var ég að flytja úr Grindavík í Reykjavík. Ég vildi breyta til því mér fannst lífið hjá mér standa í stað. Þegar að ég var að spá í vinnu í Reykjavík var það eina sem ég hugsaði um að finna vinnu sem að hentaði fótboltanum því fótbolti var það eina sem skipti máli hjá mér. Það varð úr að ég réði mig í vinnu á hjúkrunarheimili aldraðra. Mig kveið mikið fyrir að byrja í nýja starfinu vegna þess að það fylgdi þessu starfi meðal annars að hjálpa öldruðum á klósettið og það leist mér ekkert alltof vel á í fyrstu. En eftir að hafa verið í þessu starfi í skamman tíma fór ég að átta mig á því hvað ég var heppinn að vera þarna. Ég kynntist frábæru fólku sem var uppfullt af visku. Ég lærði svo ótrúlega mikið af fólki sem hafði verið uppi á tímum bæði fyrri og seinni heimstyrjaldarinnar. Þetta fólk upplifði alvöru heimskreppu og ég spjallaði jafnvel við fólk sem hafði búið í torfhúsum. Þarna upplifði ég svo mikið þakklæti fyrir það eitt að geta aðstoðað við grunnþarfir lífsins. Ég lærði kurteisi uppá nýtt og sá hvað eitt lítið bros getur breytt miklu. Það voru forréttindi að vinna starf sem er svona gefandi og lærdómsríkt og það væri öllu ungu fólki holt að fara og gefa sér tíma með þessum öldnu vitringum sem geta kennt okkur sitthvað um lífið.

Ef að maður í dag sökkvir sér í fréttamiðla í einhverja stund kemst maður ekki hjá því að kynnast mannvonsku í einhverri mynd. Oftar en ekki eru fréttir af manndrápum, nauðgunum og fréttir af réttarsal undirheimanna þar sem villimennska og allt það sem illska stendur fyrir ræður ríkjum. Níunda apríl 1989 þegar að ég fermdist voru þessar fréttir yfirleitt tengdar erlendum glæpasamtökum eða atburðum sem áttu sér stað víðsfjarri Íslandi. Nú í dag 25 árum seinna finnst mér þetta standa okkur nær. Menn svífast einskíns og í dag erum við því miður ekki alveg óhult og örugg á Íslandinu góða. Það er því gríðarlega mikilvægt að það sé í gangi starf í samfélaginu sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og að það séu spennandi möguleikar fyrir ungt fólk sem á eftir að kynnast freistingum sem dregið getur okkur á villigötur.

Þar sem ég starfa sem yfirþjálfari Sindra get ég sagt að þar er lögð gríðarleg áhersla á það að okkar krakkar og unglingar kynnist því og læri að tileinka sér lífstíl sem getur orðið góður grunnur út í lífið. Hluti af því er að geta sagt nei og geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Ekki bara fljóta með og segja já til að vera eins og aðrir. Það er einmitt það sem heillar mig við þennan hóp sem hér situr í dag að þau eru að velja aðra leið eftir vel athugað mál og taka ákvörðun sem er ekki eingöngu tekin til þess að fylgja fjöldanum. Það er akkurat þessi hugsun sem þarf að fylgja ykkur í lífinu. Mótið ykkur skoðun sem stuðla að ykkar lífsgildum og eru heiðarleg og með réttsýni að leiðarljósi og hafið svo kjark í að standa með þeirri skoðun.

Að lokum vil ég fara með ljóð sem er miklu uppáhaldi hjá mér eftir meistara Einar Benediktsson

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt
aðgát skal höfð i nærveru sálar.

Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar gefið án sakar.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast
sem aldrei verður tekið til baka.

Megið þið eiga frábæran dag með fjölskyldum ykkar.

Takk fyrir,

Óli Stefán Flóventsson yfirþjálfari knattspyrnudeildar Sindra

Til baka í yfirlit