Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2014 á Akureyri – ræða

Ræða sem Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekingur og prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Hofi á Akureyri 7. júní 2014. 

Myndir má sjá á Fésbókarsíðu Siðmenntar.

Ágætu fermingarbörn, aðstandendur og aðrir.

Til hamingju með daginn. Þið hafið búið ykkur undir þennan dag með ýmsum hætti, lært um ýmislegt sem fram fer í veröldinni og hvernig okkur bera að bregðast við og hvers konar viðhorf eru viðeigandi. Í framhaldi af því gætum við spurt: Hvað ættuð þið að hugsa um núna?

Þið eruð öll á fjórtánda ári, sum orðin það en önnur ekki. Framundan eru unglingsárin með öllum sínum núningi við foreldra og systkini og fylgd við vinina. Þið eruð að leitast við að verða fullorðin. En það er meira framundan en þetta. Það má búast við að að jafnaði eigið þið eftir að lifa í sjötíu ár, stelpurnar nákvæmlega sjötíu, strákarnir tveimur árum skemur. Þið skuluð því öll reikna með að þurfa að duga í sjötíu ár í viðbót við þessi fjórtán sem eru búin. Hvað þurfið þið til þess að duga heila mannsævi? Hvað þurfum við öll til þess að duga eina mannsævi? Ég veit að ykkur finnst amma ykkar og afi til dæmis orðin ansi gömul eða foreldrar ykkar, jafnvel þeir sem eru bara rúmlega tvítugir, þeir eru kannski ekki síðasta sort en þið þurfið ekki mikið að hlusta á þau eða taka mark á þeim. Samt ættuð þið að hugleiða að þið sjálf eigið eftir að upplifa öll þessi æviskeið, þið verðið innan tíðar síðasta sort fyrir fermingabörn, verðið kannski foreldrar og ömmur og afar. Hvað er það sem kemur okkur heilum í gegnum eina mannsævi? Með öðrum orðum hvað er gott líf?

Fyrir tvö þúsund og fjögur hundruð árum, það er miklu lengra en þið eigið eftir að lifa, var uppi maður sem hét Sókrates. Hann bjó alla ævi sína í Aþenuborg í Grikklandi og var heimspekingur. Hann lagði það fyrir sig að spyrja samborgara sína spjörunum úr um hvaðeina sem þeir og hann vildu ræða saman um. Það sem hann taldi mikilvægast að ræða við aðra menn, konur voru ekki mikið á götum Aþenuborgar á þeim tíma, þær áttu að vera heima, var hvernig lífinu yrði best lifað. Hann taldi það mikilvægustu spurningu sem hver maður gæti tekist á við. Hann fann ekkert einfalt svar við þeirri spurningu enda held ég að það sé ekkert einfalt svar til við henni. Ég ætla ekki að ræða við ykkur hvernig lífinu verði best lifað heldur bara um hvað geti verið gott líf. Það er einfaldara að segja eitthvað um það og yfirleitt teljum við núna að gott lífi hljóti að vera fjölbreytilegt.

Þið eruð örugglega byrjuð að þrýsta á foreldra ykkar um að fá að vera lengur út á kvöldin, fara á viðburði sem eru fyrir eldri krakka en ykkur og ef þau neita að leyfa ykkur það þá verðið þið fúl og reið og skellið kannski hurðum. Samt ætla ég að segja ykkur að ykkur þykir ekki vænna um annað fólk en þau og þau hafa meiri áhrif á ykkar líf en nokkur annar. Sömuleiðis þykir ykkur vænt um systkini ykkar, ef þið eigið systkini, þótt þau geti farið óendanlega mikið í taugarnar á ykkur stundum. Af hverju nefni ég þessi atriði? Það er af því að við verðum að læra að lifa með öðru fólki og ég held að við getum ekki orðið fyllilega manneskjur nema við getum elskað annað fólk. Nú er komið tvennt sem við þurfum að hafa til að geta dugað heila mannsævi, að kunna að lifa með öðru fólki og að geta elskað annað fólk.

En það þarf fleira til. Við þurfum að læra að umgangast okkur sjálf. Við höfum eitt líf, eina mannsævi hvert okkar, ég kann ekkert sem fullvissar mig um að að ég eigi fleiri möguleika. Við segjum stundum að þetta sé mitt líf. Hvað þýðir það að tala svona? Erum við að segja að ég eigi mitt líf og geti gert við það það sem mér sýnist rétt eins og ég hendi sokkum sem eru götóttir þá geti ég sóað mínu eigin lífi, kastað því frá mér, ef ég bara vil? Á mér að vera sama um mitt eigið líf ef mér líður þannig? Ef samband mitt við mig sjálfan er eins og samband mitt við sokkana þá get ég gert það sem mér sýnist við eigið líf. En við skulum fara varlega í því sem við segjum og hugsum um okkar eigin líf. Þið eruð að verða unglingar og foreldrar ykkar bera ábyrgð á ykkur enn þá. En þið verðið eldri og þá berið þið ein ábyrgð á eigin lífi. Þá þurfið þið að hugsa vel um það hvernig þið eigið að fara með það. Það fyrsta sem við verðum öll að átta okkur á er að við getum farið vel eða illa með okkar eigið líf rétt eins og við getum farið vel eða illa með flest annað. En lífið er forsenda alls annars sem við njótum. Þess vegna eigum við að fara vel með það ef við viljum á annað borð njóta þess að vera til og lifa. Ég held að við viljum öll njóta þess að lifa. Hér er því komið þriðja atriðið í því að duga eina mannsævi: við skulum fara vel með eigið líf.

Þegar Sókrates ræddi við samborgara sína þá var hann oftast að hugsa um dygðir og dygðugt líferni. Þið gætuð spurt hvað ég sé að tala um þegar ég nota orð eins og dygð, það er ekki eins og það sé á vörunum á ykkur á hverjum degi, kannski hafa sum ykkar aldrei heyrt minnst á dygðir. En þið þekkið örugglega orðið mannkostir enda er það gagnsærra. Dygðir eru í raun mannkostir, eftirsóknarverðir þættir í hegðun fólks. En hvað erum við að tala um. Við skulum nefna dæmi um mannkosti eða dygðir svo að allir viti hvað verið er að tala um. Sókrates, Platon nemandi hans og Aristoteles nemandi Platons hugsuðu mikið um dygðir. Aðrir Grikkir gerðu það líka og við tölum stundum um klassískar dygðir og þær voru fjórar: skynsemi, hugrekki, hófsemi og réttlæti. Skynsemi er hæfileikinn til að hugsa og draga ályktanir og hann birtist í því hvernig við tölum, notum tungumálið. Hugrekki kemur til skjalanna þegar við lendum í hættu. Þessi dygð var mikilvæg fyrir Aþenumenn til forna vegna þess að þeir þurftu iðulega að ganga í her borgarinnar til að verja hana og taka þátt í hernaðarátökum. En hugrekki skiptir líka máli í lífi eins og okkar, ef við heyrum eitthvað óvænt um nótt þá þurfum við oft hugrekki til að þora að athuga hvað er á seyði. Hófsemi tryggir að við gerum allt hæfilega, eins og passar aðstæðum hverju sinni. Hófsemi skiptir miklu máli fyrir okkur nútímafólk einmitt vegna þess að við höfum það svo gott. Þá þurfum við sjálf að hemja langanir okkar, stýra viljanum að því sem gott er og hæfilegt. Við erum ekki í sömu aðstöðu og forfeður okkar sem iðulega höfðu bara til hnífs og skeiðar og stundum alls ekki einu sinni það. Afar ykkar og ömmur, langafar og langömmur ólust upp við allt önnur skilyrði en þið, þurftu að búa í slæmu húsnæði og fengu ekki alltaf nægilega mikið að borða. Núna eru sumir svo fátækir í okkar samfélagi að þeir geta ekki lifað sama lífi og flestir aðrir og börn og unglingar sem eru fátæk njóta ekki sömu gæða og aðrir geta búist við.

Síðasta dygð hinna klassísku fjögurra var réttlæti. Réttlætið sem dygð kveður á um breytni sem snýr að öðrum, það segir okkur hvað við þurfum að gera fyrir aðra til að við teljumst réttlát. Það segir að okkur ber að aðstoða aðra sem eru ver staddir en við sé þess nokkur kostur. En það krefst þess líka að sömu reglur gildi um alla um suma hluti og það kveður á um hvernig á að refsa fyrir brot á réttlætinu.

Fyrstu þrjár dygðirnar snúast kannski fyrst um það hvernig við komum fram við okkur sjálf eða þær varða fyrst og fremst hagsmuni okkar sjálfra. En réttlætið varðar fyrst og fremst hagsmuni annarra, segir hvenær hagsmunir annarra eru mikilvægari en hagsmunir okkar sjálfra. Réttlætið segir okkur ekki að elska annað fólk en það leiðir okkur að því hvenær hagsmunir þess vega þyngra en hagsmunir okkar sjálfra.

Það er sjálfsagt að nefna eina dygð enn sem fræðimenn fornaldar veittu kannski ekki eins mikla athygli og við gerum nú, þótt Aristóteles hafi fjallað um hana, en það er sannsöglin. Hún kveður á um að við eigum að segja satt. Það er sennilega fátt mikilvægara í einu lífi en fara eftir þessari reglu. Ástæðan er einföld. Þeir sem segja satt öðlast traust annarra, þeim er trúað frekar en öðrum. Sannsögli er forsenda trausts og traust er eitt af því mikilvægasta sem hvert og eitt okkar getur öðlast og það er eitt eftirsóknarverðasta fyrir samfélög sem heildir. En traust er ekki einfalt og það er auðvelt að glata því með mistökum eða siðspillingu en það tekur síðan langan tíma að byggja það upp á ný. En hvernig eigum við að skilja sannsöglina? Segir hún okkur að segja alltaf satt og aldrei neitt nema það sem satt er? Það er ýmislegt sem bendir til að það geti ekki verið þannig en það sem sannsöglin kveður alveg örugglega á um er að við megum aldrei ljúga. Það er mikilvægur munur á því að segja ósatt og að ljúga. Það getur hent okkur öll að segja ósatt, til dæmis ef við vitum ekki betur, en það getur ekki hent okkur að ljúga. Ástæðan er sú að það að ljúga er að segja vísvitandi ósatt. Það megum við aldrei undir nokkrum kringumstæðum gera. Sannsöglin er svo mikilvæg vegna þess að hvert og eitt okkar verður að jafnaði að geta treyst því að það sem aðrir segja við mann sé satt og rétt. Við erum öll háð hvert öðru að þessu leyti, enginn okkar er eyland, og við bregðumst öðrum ef við víkjum frá sannsögliskröfunni.

Eitt atriði enn þarf að vera fyrir hendi í góðu lífi. Það er menntun, þið hafið siðferðilega skyldu til að þroska þá hæfileika sem þið hafið hlotið. Þið verðið að hugsa um það sjálf til hvers þið viljið menntast, það þarf ekkert að vera af þeirri ástæðu að þið ætlið háskóla, sum ykkar viljið kannski verða smiðir, vélvirkjar, hársnyrtar, bílstjórar. Það er alveg sama hvað þið ætlið að gera við ykkar líf, þið verðið að sækja skóla til að ykkur verði eins mikið úr ykkar hæfileikum og mögulegt er. Í okkar samfélagi er skólinn vettvangur fyrir börn og unglinga og ungt fólk til að þroska hæfileika sína, hverjir sem þeir eru, svo að þau geti lifað sjálfum sér til gagns og samfélaginu. Það er nefnilega svo merkilegt að þetta tvennt fer saman.

Nú höfum við bætt fjórða og fimmta hlutanum í því sem á að duga okkur eina mannsævi, það eru dygðir og menntun. Líf sem einkennist af því að kunna að lifa með öðru fólki meðal annars með því að hegða sér réttlátlega, geta elskað aðra, taka eigið líf alvarlega, láta dygðirnar birtast í eigin breytni og þroska eigin hæfileika er gott líf. Það er ekkert endilega líf þar sem þið getið klæðst nýjustu tískufötunum, baðað ykkur í auðlegð og jafnvel verið fræg. Það getur vel verið að þið hljótið eitthvað af þessu eða jafnvel ekkert. En það er ekkert aðalatriði einmitt vegna þess að gott líf er líf fyrir aðra, með öðrum og fyrir ykkur sjálf. Þegar þið hafi skilið það þá hafið þið áttað ykkur á hver eru mikilvægustu verðmætin í góðu lífi.

Halldór Laxness var íslenskt skáld sem fékk Nóbelsverðlaun fyrir bókmenntir. Hann skrifaði í einni bók sinni sem heitir Íslandsklukkan: „Þó stendur hitt fast, sagði hann, sem lesið er hjá doctoribus, að sá sannleikur sem birtist í góðu lífi er hin fegursta mynd“ (Halldór Kiljan Laxness. Íslandsklukkan, 1969, bls. 197).

Enn og aftur til hamingju með daginn og takk fyrir mig.

Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekingur og prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Til baka í yfirlit