Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Nemendur Hagaskóla hljóta Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar

Siðmennt veitir á ári hverju Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar, ásamt Fræðslu- og vísindaviðurkenningu. Einstaklingar og félagasamtök sem hafa lagt eitthvað mikilvægt af mörkum í anda húmanismans eiga möguleika á að hljóta viðurkenningar félagsins.

Á ráðstefnu Siðmenntar, What are the Ethical Questions of the 21st Century, þann 1. júní 2019, var nemendum Hagaskóla veitt Húmanistaviðurkenning Siðmenntar árið 2019 fyrir framgöngu þeirra í baráttu sinni gegn því að Zainab Safari og fjölskyldu hennar verði vísað úr landi. Réttlætiskennd, baráttuþrek og samkennd nemendanna þykir bera vott um hugsjónir í anda húmanískra lífsgilda.  Á sama tíma var Sævari Helga Bragasyni veitt Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar fyrir starf sitt í þágu umhverfisverndar, vísindahyggju og barna- og ungmennafræðslu.

Samhliða veitingu viðurkenningar er verðlaunahöfum boði að velja málstað sem stendur þeim nærri, en Siðmennt mun styrkja þann málstað um 50.000 kr. í nafni Siðmenntar og verðlaunahafa.

Hugrekki unga fólksins

Nemendur Hagaskóla hafa sýnt mikið hugrekki í baráttunni fyrir því að skólasystir þeirra, Zainab Safari og fjölskylda hennar fái dvalarleyfi á Íslandi. Zainab er hælisleitandi og nemandi í 9. bekk í Hagaskóla. Hún er afgönsk en fædd í Íran.  Yfirvöld hafa ákveðið að senda Zainab og fjölskyldu hennar til Grikklands á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, en þar er víst að þau lenda á götunni og verða í ómannúðlegum aðstæðum. Nemendur Hagaskóla hafa látið í sér heyra, safnað undirskriftum, mótmælt og haft hátt um réttindi Zainab og annarra barna í sömu stöðu.  Það er mat stjórnar Siðmenntar að unglingarnir hafi sýnt fram á mikla réttlætiskennd og samkennd og von okkar er að þau muni halda áfram að ganga í málin þegar þeim finnst brotið á réttindum samferðalanga sinna. Jafnframt fordæmir Siðmennt hið ómannúðlega fyrirkomulag að senda börn á götuna í löndum sem ekki þykja örugg fyrir flóttafólk og hælisleitendur og vonar að Zainab og fjölskylda fái að vera hér áfram.

Nemendur Hagaskóla héldu stutta ræðu þar sem þau þökkuðu fyrir viðurkenninguna og vöktu athygli á því að fleiri börn væru í sömu stöðu. Þau hafa ákveðið að láta styrkinn ganga til félags um réttindi Safari-fjölskyldunnar og annarra í svipaðri stöðu.

Stjörnu-Sævar er stjarna 

Sævar Helgi Bragason kom fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum í þeim tilgangi að fá fólk til að horfa upp í himininn og líta alheiminn sjálfan augum á stjörnubjörtum kvöldum. Hann hefur á nokkrum árum vakið athygli fyrir framlag sitt til fræðslumála, en hefur verið ötull í að fræða almenning um náttúruvernd og þær ógnir sem steðja að umhverfinu ásamt því að vera einn af umsjónarmönnum Krakkafrétta. Krakkafréttir eru vandaðar fréttir sem miðaðar eru að skilningi og reynsluheimi barna og eiga vafalaust þátt í því hve upplýst og réttsýn yngri kynslóðir Íslendinga eru. Sævar er einnig einn af mörgum sem koma að gerð þáttanna Hvað höfum við gert? sem vakið hafa verðskuldaða athygli fyrir þá vitundarvakningu sem orðið hefur í þeim hnattrænu áskorunum sem að okkur steðja í umhverfismálum. Sævar Helgi Bragason hlaut Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar og hvatti ráðstefnugesti til að horfa til himins og velta fyrir sér Jörðinni í samhengi stærðar geimsins.

Sævar mun láta styrkinn ganga til Umhyggju, félags langveikra barna.

Til baka í yfirlit