Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vegna félagsgjalda 2019

Kæru félagar í Siðmennt.

Einhver hluti ykkar fékk í vikunni reikning vegna félagsgjalda fyrir árið 2019. Um 100% valkvæða greiðslu er að ræða. Vegna rangra stillinga í bókhaldskerfi var prentað á reikninga að dráttarvextir yrðu reiknaðir frá gjalddaga. Svo er alls ekki og er hægt að greiða félagsgjöldin hvenær sem er næsta árið án þess að borga neina vexti, enda upphæðin eins og áður sagði algjörlega valkvæð.

Hér áður fyrr voru félagsgjöldin ein allra mikilvægasta tekjulind félagsins, en eftir að félagið fékk skráningu sem lífsskoðunarfélag og hlutdeild í sóknargjöldum ríkisins, eru félagsgjöldin partur af stærri heildarmynd. Þau eru ekki lengur ómissandi, en skipta okkur engu að síður miklu máli þegar kemur að því að efla og styrkja starf félagsins.

Eins og ykkur ætti að vera kunnugt um er afstaða Siðmenntar til fyrirkomulags sóknargjalda sú að félagið er eindregið á móti þeim. Ríkið ætti ekki að halda skrá um trúarsannfæringu þegna sinna og ekki að innheimta félagsgjöld fyrir trú- og lífsskoðunarfélög. En þangað til að kerfinu verður breytt vill félagið engu að síður að öll trú- og lífsskoðunarfélög standi jafnfætis.

Einn góðan veðurdag kemur væntanlega að því að Siðmennt mun þurfa að reiða sig alfarið á félagsgjöld, innheimt af félaginu sjálfu. Því viljum við bjóða þeim félögum sem þess óska að bæta sér á skrá yfir þá sem fá valkvæð félagsgjöld í heimabankann sinn einu sinni á ári.

Gjaldskráin er einföld. Fullt gjald er 5.000 kr og eldri borgarar, öryrkjar og nemar, fá 50% afslátt af gjaldinu.

Vinsamlegast hafið samband við undirritaðan ef þið viljið bæta ykkur í hópinn, og ef einhverjir vilja láta fjarlægja sig af listanum er líka hægt að hafa samband á sama stað.

Fyrir hönd Siðmenntar,

Siggeir F. Ævarsson (siggeir@sidmennt.is)
framkvæmdastjóri.

Til baka í yfirlit